14.11.2010 09:11

Hvorki leti né drykkjuskapur

 Það er alltaf jafn vont þegar veturinn byjar með látum.

 Undanfarin ár hefur hann byrjað bæði seint og illa og þó maður sé ekki skælandi yfir tíðinni síðustu dagana  er mikið væluhljóð í gangi, því allir vilja halda því sem þeir hafa haft.


Nei, nei ástandið er alls ekki svona slæmt enda sá veðurhæðin til þess að allur snjór kom sér milliliðalaust til sjávar.

 Og eins og fyrri daginn er ýmsu ólokið sem á að vera frá, þegar vetrarríkið tekur yfir.

Þó Dalsmynnisbændur hafi nú hvorki legið í leti eða drykkjuskap á hausttíðinni er eftir að koma haughúsarými staðarins í æskilega birgðastöðu fyrir veturinn og kippa reyfum af fullorðna fénu sem er ýmist úti eða inni eftir éljaspám.

 Ef tekst að koma þessum hlutum í lag í vikunni eins og að er stefnt verður kannski eitthvað endurskoðað með letilegurnar og drykkjuskapinn??



 Þá en fyrr ekki, væri í lagi að fá svo einu sinni snjósleðasnjó sem ekki hefur verið í boði síðustu a.m.k. 3 árin.



 Það er orðið of langt síðan ég hef rennt uppað þessari hlið Hestsins og hollt að rifja upp þegar við lentum í fárviðrinu þarna uppi og urðum að stóla á gpsið með Hestgilið einhversstaðar við
hliðina á okkur.



 Það er hinsvegar önnur saga en hér er horft norður Stóra Langadal á Skógarströnd og rétt glittir í Hestgilið t.h.

12.11.2010 08:23

Fjögurra vikna hvolpaafmæli.

Þó ég þekki varla annað en þessi stóru got 9 - 12 hvolpa kvíðir mann alltaf fyrir að koma móðurinni og hvolpunum gegnum fyrstu vikurnar.


Hér virðir Snilld steinsofandi hvolpahrúguna fyrir sér og má vera ánægð með frammistöðuna þessar vikur. Hún hefur meira að segja haldið holdum ágætlega og nú fer að léttast hjá henni móðurhlutverkið.


 Ég er ekki enn farinn að átta mig á þessari uppröðun hjá hvolpunum en það er nokkuð ljóst að þeir hafa ekki heldur liðið skort það sem af er uppvextinum.



 Hér bregðast þeir mishratt en hratt við lágu komuflauti sem segir þeim að nú sé eitthvað matarkyns á ferðinni.



 Svona er biðröðin hjá þeim og Tinna litla sem er önnur frá h. er sú eina sem er nefnd í hópnum.



Það er farið að ganga mikið á og allskonar átök í gangi með tilheyrandi urri.



Þetta er annar strákurinn að kanna heiminn utan búrsins. Hann verður að öllum líkindum vel loðinn.


Það verður bróðir hans trúlega líka, Báðir eru þeir með sterklega fætur og þessir hér eiga trúlega eftir að finna fyrir því í klungrinu á Barðaströndinni.

Svona lítur  hann út á hlið en þegar ég tók hann upp á hnakkadrambinu áðan urraði hann illilega á mig . Þar með voru örlög hans trúlega ráðin.

Eftir að ónefndur maður tók að sér að endurskrifa söguna í blað allra landsmanna í Hádegismóum lögðust dagblaðakaup af á heimilinu. Nú voru því góð ráð dýr og mikill léttir að heimaframleiddur hálmur var margfalt betri en mogginn í hreinlætisaðstöðu gotbúrsins.

Og nú má nágranninn sem fyrstur staðfesti pöntun á hvolpi fara að mæta og velja sér litla dömu úr hrúgunni.

Það verður ekki vandalaust verk.emoticon

11.11.2010 10:47

Endurgreiðsla VSK á refa og minkaveiðar?? gott mál.


Enn einu sinni hefur komið fram þingsályktunartillaga um að ríkið endurgreiði Vsk . á refa og minkaveiðar.

Sjá HÉR


Eldgamalt baráttumál sveitarfélaga.

Ríkið er að taka til baka u.þ.b. þriðjunginn af endurgreiðslu til refa og minkaveið sem er Vsk.af kostnaði við veiðarnar.


 Minkaveiðitíkurnar mínar og hluti vetrarveiðinnar meðan hún virkaði (alvöru vetur). En vopnið er löngu úrelt og skeggið orðið grátt.
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419225
Samtals gestir: 38133
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 09:34:33
clockhere