21.03.2008 23:22

Fullt tungl

Ekkert páskahret í dag, ekta veður til útivistar. Atli Sveinn var að þvælast allan daginn uppi Jökli og á fjallgarðinum með Grundfirðingum, nota sleðafærið áður en það hverfur. Hann gætti þess að mæta ekki á svæðið fyrr en eftir mjaltir og passlega í kvöldmat. Hér voru allir í Hrossholti líka í mat svo borðið var þéttsetið. Sett var frétt inn á Söðulsholt með Kolbrúnu Költu í útreiðartúr með pabba sínum. Það styttist örugglega í að hún neiti að vera með öðrum á hestbaki og vilji sjálf. Mamma hennar var ekki gömul þegar afi hennar var farinn að teyma undir henni, mig minnir að það hafi verið Glói sem var barnahesturinn í þá daga.
Svanur bjó sig svo til útivistar, það er fullt tungl og hann ætlar að vera í Rebbabúð í nótt. Mér verður bara kalt við tilhugsunina að vera þar hreyfingarlaus til morguns.  Má ég þá heldur biðja um rúmið mitt og þykka sæng.

20.03.2008 23:56

Páskahret?

  Páskahretið klikkaði aldrei í gamla daga og þegar var búið að spá roki og hugsanlegri snjókomu varð maður hálfpartinn fyrir vonbrigðum þegar að hélst fínt veður í allan dag. Það var ekki fyrr en í kvöld sem fór aðeins að blása en rúningurinn sem átti að framkvæmast í dag var frestað vegna " veðurs". Alltaf gott að eiga inni næg verkefni! Mjaltabásinn var tekinn og spúlaður í staðinn því það er mikið að gerast framundan og þá eru stóru þrifin á honum stundum geymd aðeins. Nú er verið að skoða tankamálin því mjólkurtankurinn er endanlega sprunginn og dugar ekki fyrir fimm mjaltir lengur því dagsframleiðslan nálgast 1000 l. markið hægt og örugglega. Á morgun verður svo athugað hvort gefi til snjósleðaiðkunar áður en vorið hellist yfir með stillum hlýindum og blíððviðri. Sjö níu þrettán.

19.03.2008 21:01

Sauðféð 2007.

   Það lyftist brúnin á húsfreyjunni eftir því sem leið á lesturinn en uppgjörið fyrir sauðfjárafurðir síðasta árs komu með póstinum í dag.

  Veturgömlu gimbrarnar voru að skila 21.3 kg eftir á m/lambi (1 geld af 18).
Fyrir daga byggsins var verið að gefa þessum aldurshóp um 60/80 gr. af fiskimjöli á dag frá fengitíma og framyfir burð. Nú er gefið bygg á þessum tíma sem er náttúrulega allt annað fóður og mér finnst það svínvirka.(Hlutlaust álit eða þannig).

  Ærnar skiluðu hinsvegar 33.3 kg (ær m/lambi.)  Þær fá hinsvegar ekkert bygg fyrr en eftir burð þar sem gjafaaðstaðan býður ekki upp á neitt dekur. Þegar frúin hafði síðan athugað hvar í röðinni búið var yfir afurðahæstu búin í landinu var farið að liggja verulega vel á henni.
 Fyrir gúrúana í ræktuninni skal upplýst að lömbin fengu 9.2 fyrir gerð og 7.5 fyrir fitu.
Hér hefur aðalbaráttunni verið beint gegn fitunni sem hefur oft leikið okkur grátt í matinu og hefur nokkur árangur náðst í þeim slag. En betur má ef duga skal bæði í gerðinni og fitunni. Hér eru ekki taldir fósturvísar, en eftir að hafa sett út bæði veturgamlar og gemlinga er verulegar líkur á að allt sé með lömbum. (Engin leikur sér) En þessir aldurhópar fá sérkennslu í að hlýða hundum á þessum tíma. Það er sérverkefni sem Skessa er látin um. Hún þarf svona 10- 15 mín. til að siða til gemlingahópinn og það sér aldrei á gemling eftir hana blessaða. Eins og málin standa núna lítur vel út með að allt sé með lambi. Það lítur hinsvegar illa út með geldfé í hundatamningar og hundasjó í sumar. Þetta kallast víst að svíða og klæja samtímis.
Flettingar í dag: 133
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419090
Samtals gestir: 38095
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 08:09:44
clockhere