13.06.2011 20:36

Þegar litla hvolpkrúttið verður stórt.

 Þetta var eldri maður eftir röddinni að dæma, kynnti sig kurteislega og spurði hvort ég væri ekki að rækta og sýsla með Border Collie hunda?

 Þegar ég jánkaði því sagðist hann að " þau" ættu tæplega tveggja ára B C tík.

Því miður væri konan sín komin með ofnæmi fyrir hundum og þau myndu því neyðast til að láta tíkina frá sér eða svæfa hana að öðrum kosti.

 Hvort ég væri til í að taka hana eða hvort ég vissi af e.h. sem vantaði svona hund.

Hann tók fram að ekki yrði um sölu að ræða.

 Ég tók strax fram að ég gæti ekki tekið hana, en ef hún væri vel ættuð og efnileg í kindavinnu mætti skoða hvort ég gæti aðstoðað þau við að koma henni fyrir á góðum stað.

 Viðmælandinn fullvissaði mig um að tíkin væri hreinræktuð og undan góðum smalahundum.

Þetta væri einstakt gæðadýr og erfitt að láta hana frá sér. Hann nefndi síðan bæinn sem hún var frá en meira vissi hann ekki um ættina.

 Ok , ég þarf að sjá hana vinna í kindum og kynna mér ættina ef ég á að koma að málinu sagði ég.

Það var síðan afráðið að þau myndu mæta með tíkina á svæðið til að byrja með.
Þetta reyndust vera eldri hjón og spurning hvort réði meiru tíkin eða þau. Hún lá í taumnum eftir að þeim tókst að koma honum á hana og var greinilega frekar örlynd.

 Hann hafði sagt mér að einusinni hefði hún komist í kindur og svona rekið þær til og frá og síðan frá sér.

  Hann var greinilega tregur til að sleppa henni í kindurnar enda með um 10 m. spotta á henni en ég gaf mig ekki með það.
Tíkin var komin með nokkurn áhuga og bar sig alls ekki illa að þessu. Þó hún virtist sækja í að reka þær, kom alltaf að því að hún stoppaði þær af.
Ég sagði eigandanum að þetta liti þokkalega út þó ekki væri hægt að meta kjarkinn í henni með svona þjálum kindum. Reyndar fékk ég á tilfinninguna að þar vantaði e.h. á.

 Ég fór síðan yfir vandamálin við að koma tveggja ára hundi fyrir á ásættanlegu heimili. Flestir vildu ala hundana upp sjálfir og heimilin væru afar misjafnlega hundavæn.

  Eftir að þau fóru hafði ég upp á ræktandanum sem kannaðist umsvifalaust við þetta got.
Foreldrarnir voru eiginlega bæði ótamin , móðirin trúlega hreinræktuð og hefði  verið gott efni en einum of fyrirferðamikil fyrir þau. Faðirinn hefði verið blandaður, líklega íslendingur að einum fjórða.

 Ég hringdi í eigendurnar og sagði þeim þessi tíðindi og nú væri málið orðið öllu erfiðara.
Frúin áttaði sig reyndar strax á því og varð greinilega strax afhuga því að reyna að koma henni fyrir hjá vandalausum.

 Við frúin kvöddumst síðan með virktum.

´Eg velti því hinsvegar fyrir mér , að hún sem var með svo mikið ofnæmi fyrir hundum að tíkin yrði að fara, gat varla slitið sig frá Dáð minni og klappaði henni allan tímann á meðan við vorum að fara yfir málið í lok heimsóknarinnar.

08.06.2011 06:14

Rebbinn, fuglaflóran og fjárstofninn.

 Maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif kuldarnir hafa á fuglavarpið þetta vorið án þess að komast að vitrænni niðurstöðu.

 Hvíta gelddýrið sem ég fylgdist með dágóða stund í fyrrakvöld fór um talsvert svæði án þess að nokkur fugl fylgdi því.

 Það sagði mér að ekkert varp væri á þeim slóðum.



 Það grillir í það ( hvíti bletturinn) í um 1 km fjarlægð frá mér þar sem ég sat í bílnum.

Þetta dýr var algjörlega í vetrarhárunum og einkennilega styggt. Trúlega kynnst hættulegum kyrrstæðum bíl einhverntímann. Þetta var hinsvegar nýtt dýr fyrir mér á þessu svæði sem segir nú kannski ekki mikið.

 Nú er grenjavinnslan að bresta á og reynt að fækka þeim gelddýrum sem gefa færi á sér.

Þeim hefur fækkað um 7 í sveitarfélaginu það sem af er júní og af þeim eru 2 geldar læður.



 Það sem kemur á óvart eftir tiltölulega mildan vetur er að dýrin er upp til hópa frekar grannholda og kannski spilar staðan í varpmálunum ínn í það.

Það eru 2 - 3 óþekkt greni virk í sveitarfélaginu sem gerir þetta dálítið erfitt og þýðir  að fuglastofninn er í lágmarki á ákveðnum svæðum.  Staðan er samt ekki það slæm að maður reikni með dýrbítum í sveitinni.

                                                                                                 Mynd. Keran Stueland Ólason.
 Það væri óskemmtilegt að vera ræstur út í svona dæmi.

06.06.2011 07:32

Greni, Furur og frekjudósir.

Ég var dreginn með í að taka út skógræktina eftir veturinn.

Og ekkert fjórhjól takk fyrir.


Innan skógræktar er Hlíðartúnið sem er slegið fyrst allra túna og var gjarnan kallaður montbletturinn í gamla daga. Það hefur nú oft verið orðið slægt um þetta leiti.


Skógræktar og fararstjórinn áhyggjufull yfir þéttleika skógarins.



Lúpínan gerir ósvífna innrás í berjabrekkuna mína. Reyndar heitir lúbínan  " frekjudós " hér eftir að ömmustelpan áttaði sig á útrásareiginleikum hennar.



 Hér er furan þó að stinga hana af og mun þjarma að henni í fyllingu tímans.


Og svona er ástandið á afréttargróðrinum á Núpudalnum 4 júní 2011. Fjær mýri sem greni var plantað í sl. sumar.


Þessi hafði lifað af veturinn en aðeins þurrkkalin í toppinn eftir kuldakastið í vor.


 Þessi hjarði enn þó hún hafi nú verið sett niður á vonlausan stað í tilraunaskyni.


 Nokkur ár í að þessar plöntur setji svip á landið. Nokkrir mán. í að þær Spes og Blondie sýni hvað í þeim býr.



 Þessi er frá dögum mömmu í heimareitnum.


 Ömmustelpan klár í skógræktarvinnuna og glímuna við frekjudósirnar í berjabrekkunni.
Flettingar í dag: 295
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419252
Samtals gestir: 38139
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 09:57:55
clockhere