13.05.2009 14:43

Fjórhjólið og girðingarvinnan.


Þó stytt sé upp og vori vel í augnablikinu er enn og aftur beðið eftir að þorni um, svo hægt sé að ljúka sáningu.

   Aðal sauðburðartörnin er alveg að bresta á, svo dagurinn var tekinn í girðingarviðhald.

Það eru þó nokkrir km sem þarf að yfirfara og ástandið misslæmt/gott. Hér eru bæði rafmagnsgirðingar og hefðbundnar sem þurfa mismikla yfirhalningu á vorin og síðan þyrfti að girða upp talsverðar vegalendir en það er önnur saga.

 Svo yngri bóndinn var loksins píndur í að gera fjórhjólið skemmtilegt í verkið.



 Hann var forritaður með grunnhugmynd sem hann vann síðan skemmtilega úr. Ég er svo löngu hættur að skipta mér af verklegu framkvæmdinni því það endar bara með skelfingu.



   Ramminn er heildstætt stykki sem smellur í festingar á grindinni og fest með einu splitti.
Og járnkallinn fær sinn stað en þau eru ófá skiptin sem ég hef lent í vandræðum með hann á hjólinu.   Og spilið á sínum stað þegar kemur að strekkingunni í stórframkvæmdum.



  Pallurinn var tiltölulega snyrtilegur í vígsluferðinni og það vantaði ekkert aldrei þessu vant.
Hann á þó eftir að verða dálítið draslaralegur áður en lýkur og þarna mun bætast við rafmagns og gaddavír til viðgerða fyrir næstu ferð.



 Vaskur fékk að sjálfsögðu að koma með því við megum helst ekki hvor af öðrum sjá.
   Snilld og Dáð  komu hinsvegar með til að læra á lífið og tilveruna, m.a. umgangast þjóðveginn og fuglana á mörkinni.

 Og þó maímánuður sé alltaf óvinsæll til fundarhalda komst ég á fund í rekstrarnefnd Laugargerðisskóla og slapp við mjaltirnar. Þar eru ekki alltaf auðveldustu málin til meðferðar en þetta slapp þó allt til og akstursútboðið endaði mun betur en leit út fyrir á tímabili.

Meira um það seinna.

11.05.2009 21:42

Eldur,brennisteinn,rigning og ríkisstjórn.

  Fljótlega eftir að nýja stjórnin var kynnt  í gær fór að rigna. Það rigndi ekki eldi og ekki brennisteini en alveg djöfuldómi af vatni.

Og það rignir enn.

 

  Núpáin sem oftast er á mörkum þess að eiga skilið að heita á, varð alveg gasalega glöð og missti sig alveg af kátínu. Það fór mikið fyrir henni hér, og niður á sléttlendinu hefur hún eflaust breitt rækilega úr sér.



 Og liturinn gaf ekkert eftir fúlustu jökulám en það var þó ekkert að lyktinni af henni  blessaðri.

 Hafi verið blautt um áður, er á tæru að það getur ekki orðið blautara um en núna.

Einhver myndi segja að nú væri botninum náð og héðanaf gæti aðeins orðið þurrara um.
Ég held nú að stytti upp þegar ríkisstjórnin er komin norður yfir heiðar.


Því miður er botninum trúlega ekki náð í kreppunni en það er önnur saga.emoticon
Og þessi ágæta ríkisstjórn er örugglega kominn á toppinn í vinsældunum og nú mun leiðin liggja mishratt niðurávið.emoticon




09.05.2009 13:17

Lögbrotin , sáningin og samningurinn hennar Jóhönnu.

  Þó  annríkið/ puðið, hafi stórbreyst til batnaðar í sveitinni koma samt tímabil þar sem vinnulöggjöfin og hvíldartímareglugerðin eru þverbrotin. Vorið er mikið áhættutímabil í þessum lögbrotum því þá er fjölmargt sem þarf að vinnast á stuttum tíma og ef sauðfjárbændur eru t.d. ekki því betur mannaðir í vaktaskiptinguna þá verða þeir að gæta þess að lesa ekki of mikið af þessu rugli sem við eigum að lifa eftir.

  Loksins þornaði upp og þá var tekið á því í akuryrkjunni. Mér þótti slæmt mál að hætta sáningunni núna um miðjan dag, í logni og blíðu , en þá voru þeir akrar þrotnir sem nokkur glæta var
að sá í vegna bleytu.


  Hér er verið að sá í þurrlendi og það mátti ekki þurrara vera.  Já  hér er gæðunum misskipt eins og annarsstaðar.


          Sáðvélin tekur áburð og byggfræ fyrir 1- 2 ha. og yngri bóndinn sem fær oft að baslast einn í áburðinum og fræinu lestar sáðvélina vönum handbrögðum

  Við Yrkjamenn, eigum  eftir að sá í um 30 ha. í bygginu og ljóst að þeir munu bíða a.m.k.frameftir næstu viku.


            Það gengur stundum mikið á og hér hefur tvöföldun verið snarað undan með látum.


                               Hér er hún komin undir aftur og Fegginn klár í völtunina.

 Það sem er þó komið niður róar okkur  umtalsvert og nú fá neglurnar að gróa að nýju og magasýrurnar komast í nokkuð eðlilegt ástand.
 Það er sexraðabyggið sem sáð er fyrst en því er illa treystandi í golunni sem gerir stundum hér á haustdögum.
 Vandamálið við Íslensku yrkin sem þola hitt og þetta á haustin, er hvað hálmuppskeran er rýr en nú er hún farin að spila inn í afkomuna í þessu lotteríi.

  Það stefnir svo í að akuryrkja og sauðburður rekist illilega á  annað árið í röð hjá mér og trúlega mun ég velta fyrir mér hvort annað verði ekki að víkja.

  Þar sem hvorug búgreinin, byggið eða sauféð er að skila vinnulaunum, þarf að spá í hvort sé lífvænlegra til framtíðar.

Og þar er óvissan meiri en oft áður, því nú er spurningin hvað við gerum við samninginn frá Brussel sem hún Jóhanna er ólm í að sýna okkur sem fyrst. Ef guð og þingmenn lofa??

 Já, hann  Steingrímur ætlar svo bara að horfa á, og vita hvað gerist
!emoticon
 
Flettingar í dag: 546
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419503
Samtals gestir: 38185
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:50:05
clockhere