24.04.2008 23:45

Fréttir og heilsufar.

  Burtfluttur sveitungi minn hringir stundum í mig og spyr frétta úr sveitinni. Það teygist oft úr þessum samtölum, ekki vegna þess að ég sé fréttafróður,  heldur hefur vinur minn frá mörgu að segja. Meðal annars er það oftast hann sem getur sagt mér nýjustu fréttirnar úr sveitinni minni því hann fylgist miklu betur með mannlífinu hér, en ég.
  Alltaf kemur að því í samtalinu að hann spyr mig um skepnuhöld og heilsufar búpeningsins svona yfirleitt.  Nú í vetrarlok er nú kannski rétt að velta  fyrir sér þessari spurningu. Og heilsufar búpeningsin hefur í heildina séð verið nokkuð gott.
  Júgurbólgan sem er nú kannski stærsta hrelling fjósamannsins hefur komið miklu oftar í heimsókn en gott þykir. Nú er reyndar engin kýr á kúr en það mættu vera fleiri og lengri tímabil en sést hafa í vetur. Huggunin er sú að yfirleitt er þetta eitthvað sem er að taka sig upp, ekki um ný tilfelli að ræða. Súrdoðinn hefur verið nokkurnveginn til friðs. Þau tilfelli sem hafa komið upp tengjast einhverjum öðrum veikindum. Stærsti gallinn við lausagöngufjósið er það hvað flórarnir eru hálir og séu einhver veikindi í gangi geta tognað eða slitnað vöðvar þegar kýr reyna að standa upp og eru að renna til. Vöðvaslit eða slæm tognun hefur miklar skelfingar í för með sér. Alltaf er um einhver doðatilfelli að ræða oftast í kringum burðinn. Ein kúin er öðruhvoru að fá doða upp úr þurru þótt langt sé frá burði og virðist eldspræk þess á milli.
 Og frjósemin virðist svona í heildina séð vera í þokkalegu lagi.

  Þetta er allt rólegra í fénu. 1 gemlingurinn  fórst úr fóðureitrun sem er orðin afar sjaldgæf hér og nýlega hafa tvær kindur látið fóstrum og spurning hvort framhald verður á því. Það virðast síðan vera að koma í ljós lamblausir gemlingar sem ekki er ótrúlegt að hafi misst fóstur snemma á meðgöngunni. Rollurnar eru hinsvegar orðnar of þungar og þá eykst hættan á kviðsliti og allskonar vandamálum.
  O já það er basl þessi búskapur..
Flettingar í dag: 2581
Gestir í dag: 184
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433509
Samtals gestir: 39987
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 21:30:08
clockhere