01.04.2020 20:25

Endurhæfingin

  
   Ætli sé ekki best að skrifa sig frá þessu blóðtappaævintýri .(Sjá nóv.blogg)

                Ég var fyrstu 2 vikur september á Lansanum í Fossvogi. Fyrri vikan fór í rannsóknir og endurhæfingu.

     Seinni vikan var eingöngu endurhæfing og bið eftir að komast inná Grensás. Það kom ekkert vitrænt útúr rannsóknunum svo ég endaði í hópi þeirra 16 % þar sem ekki finnst skýring á tappanum. Hjartað stóðst allar mælingar  og aldrei var ég spurður um matarræði  og engar tillögur gerðar um breytingar á því

    . Ég fór eins bratt í endurhæfinguna og ég þorði og þoldi.Hægri hendin var hreyfð og þjálfuð eins og mögulegt var. Ég velti því stundum fyrir mér hvort æfingarnar héldu áfram í svefni .emoticon 

  Tímunum saman sat ég við borð í matstofunni og fletti og raðaði spilum til að ná stjórn á fingrunum.
   Þess á milli var verið í veggrimlum sem voru á ganginum. Svo var gengið fram og aftur um ganginn þegar lítið var um að vera á honum. 

   Þjálfarinn minn var æðisleg. Ég var í tíma hjá henni einu sinni á dag .Hún stappaði í mig stálinu á  milli þess sem hún útskýrði hvað gerðist ef ég færi fram úr mér. 

  Mér fannst batinn vera ævintýralegur um leið og ég gerði mér grein fyrir að ég var mjög heppinn. 

  Fullt af tilviljunum réðu því að ég komst tiltölulega fljótt í meðferð. Það hefur bjargað því sem bjargað var.

   Ég komst svo í göngudeildina á Grensás seinni vikurnar í sept.. Var 4 daga í hvorri viku og langar helgar sem hentaði mér vel. 

   Þar var ég frá kl.9 - 2 en hélt til á sjúkrahótelinu að öðru leyti. Teymið sem tók á móti mér á Grensás  samanstóð af talmeinafræðingi, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa hjúkrunarfræðingi og lækni. Hvert öðru snjallara í að koma fólki í lag. 

   Ég skynjaði það fljótt að þau höfðu öll áhyggjur af að ég færi of bratt í þetta, sérstaklega í tækjasalnum. 
  Ég náði þó samningi um að fá að fara þar tvær umferðir daglega með því að sleppa erfiðustu tækjunum  seinni umferðina.

 Það var svo ekkert verið að fylgjast með því. 

  Upphaflega átti ég að vera þarna 3 vikur en þetta gekk hratt.

  Talmeinafræðingurinn sagði mér glaðhlakkalega að hún ætti ekki að gera mig betur máli farinn en ég hefði verið og útskrifaði mig. 
 
   Iðjuþjálfinn var orðin hin ánægðasta með hvernig hendin var orðin og sjúkraþjálfarinn sagði mér að ef ég kæmist í sjúkraþjálfun/tækjasal tvisvar í viku væri ég góður. 

  Sjálfur var ég hæstánægður með ástandið og ólmur að komast í sveitina. 

   Í dag er ég í fantaformi en það að lenda í svona uppákomu og sleppa svona vel breytir mörgu.

   Maður lítur tilveruna allt öðrum augum eftir að hafa áttað sig á því að það er ekkert sjálfgefið.

30.11.2019 20:00

Að detta út,- eða þannig.

 Það fór margt um hugann laugardaginn 31 ág, sl. liggjandi inná  Lansanum í Fossvogi . 

    Málfarið illskiljanlegt , hægri hliðin orðin svo til stjórnlaus/lömuð  og orðinn ófær um að  kingja vökva og mat eðlilega. 
   Einkennin höfðu komið hægt og rólega daginn áður . Óstöðugleiki og þvoglumælgi minntu helst á þegar var tekið á því á þorrablótunum fyrir margt löngu.
     Þegar stefndi í algjört óefni var ég studdur útí bíl og rennt suður á heilsugæslu. Þar var ég bankaður aðeins og spurður nokkurra spurninga,- svo var það forgangsakstur í bæinn.
  
     Mér skildist að hvort sem um heilablæðingu eða blóðtappa væri að ræða skipti tíminn öllu máli. Allt framyfir 4 klst. frá áfallinu minnkaði batalíkurnar.  
     Þeim sem hefur sjaldan orðið misdægurt um æfina verður þetta talsvert áfall.

Hinum líka.
   
     Kippt útúr daglega amstrinu með látum og vissi reyndar ekkert um framhaldið og batalíkurnar. 

     Greiningin var blóðtappi í vinstra heilahveli með ofangreindum afleiðingum. 
    
    Hér er verk að vinna sagði læknir no 2 á stofuganginum á sunnudeginum og lét líklega með að ég ætti að ná þessu öllu til baka.
 
  Eftir að hafa vorkennt mér fyrsta sólarhringinn fór ég að velta fyrir mér framhaldinu.
    Ákvað einfaldlega að fara á fullt í að ná öllu sem tapast hefði, til baka( plan eitt) 

Plan tvö var ekki útfært í bili. 

   Göngugrind gekk bara vel, þó hægri fóturinn drægist nú bara með í fyrstu.Sjúkraþjálfarinn minn fullvissaði mig um að þetta kæmi allt til baka en það tæki tíma,- sumt mjög langan. 
 
  Markmiðin sem stefnt var á,  var að verða óhaltur, og langtímamarkmiðið að komast á hestbak aftur. (Fannst það að vísu dálítið fjarlægt þarna.)
 
 Endurhæfingin gekk ótrúlega vel.

     Ég beit það svo í mig að komast heim næstu helgi eftir áfallið. Það vakti nú ekki mikla hrifningu hjá þjálfara og læknateymi.

     Þegar ég skipti á göngugrind og hækju á miðvikudegi og bjó til mjög trúverðuga ástæðu fyrir því að komast heim, þá var það samþykkt með semingi.

    Ég hafði lofað því nokkrum sinnum á dag að detta ekki, og marglofaði því fyrir helgarorlofið.emoticon
   Þetta var erfitt en samt ómetanlega mikils virði fyrir mig (held égemoticon  Það var t.d. gríðarstór áfangi að ná að smyrja fyrstu brauðsneiðina . 

  Þó verkið væri mjög illa unnið og vinstri hendin notuð til að borða hana.

 Hundarnir hinsvegar þekktu mig varla.

   Skildu ekkert í nýja málinu  mínu og það kom í ljós að allt flaut var horfið og ekki náðist einu sinni hljóð úr smalaflautunniemoticon.  
   Eftir helgina ákvað ég að sleppa hækjunni alveg og sjúkraþjálfarinn féllst að það þó hún væri á nálum  með það fyrst. 

   Var ekki mjög skriðdrjúgur fyrstu dagana en þetta kom hratt. 
   
  Mér hafði verið lofað því að ég færi ekki af spítalanum fyrr en ég kæmist á Grensás en það var allt fullt þar. 

  Meira um það næst( kannski).emoticon

04.08.2019 21:52

Hundurinn og smalinn.


Þetta var stór og fallegur hundur.
    Konan/eigandinn setti taum á hann við bílinn og hann hélt honum vel strekktum á leiðinni út í tamningarhólfið. Ég velti því fyrir mér hvernig hann myndi láta þegar hann kæmi auga á kindurnar í litla gerðinu/búrinu. 
        Gerði/tamningabúr, nota þetta mikið í dag og læt hundana vinna í kring um það.

  Konan var búin að segja mér að hann væri hinn þjálasti í samvinnu, væri m.a. kominn með stoppskipun o.fl. 
   Þegar kindurnar kæmu í spilið lokaði hann hinsvegar eyrunum, væri ofan í þeim og réðist jafnvel á þær.

    Þegar við komum innúr hliðinu og áttum eftir um 50 m. í kindurnar staldraði ég við,- leit á konuna og spurði eins og hálfviti.  Veistu hvað þið hundurinn eruð að gera??emoticon Konan leit á mig, svo á hundinn (sem stóð með tauminn stríðþaninn) og svaraði með semingi.. Nú ég er að fara með hundinn að sýna þér hann í kindum. 

   Nú setti ég upp trúverðuga svipinn og sagði að bæði ég og hundurinn,- sérstaklega hundurinn værum þeirrar skoðunar að hundurinn væri að fara með hana í kindur. Ekki hún með hann.Hann liti þannig á að hann réði ferðinni. 
  Hann væri að fara með hana í kindurnar. Hann ætti þessar kindur og þyrfti ekkert að hlusta á aðra með hvað hann væri að gera. 
  Ef hún væri að fara með hann í kindur ætti hún að ráða ferðinni vera á undan og stjórna aðgerðum. Konan leit á hundinn sem var kominn í ham ,- keypti þetta greinilega og spurði  hvað þá ætti að gera?

   Ég hélt að þetta gæti verið einfalt mál sérstaklega ef stoppskipun væri komin emoticon . Við þyrftum bara að sannfæra rakkann um hver ætti kindurnar og hvað hann mætti koma nálægt þeim til að byrja með.

  Sagði henni svo að sleppa honum þegar ég væri kominn að hólfinu.

  25 mín. seinna hringfór seppinn gerðið í um 20 m. fjarlægð, hlýddi stoppskipun vel og var orðinn klár í hliðarskipanir. 

  Þetta er kraftaverk sagði konan ánægð og ég var eiginlega sammála því, en oftast getur þetta prógram tekið 2 - 4 kennslutíma eða enn lengri tíma ef um virkilega óhlýðna eða skemmda hunda er að ræða. 

   Það sem ég var ánægðastur með að þetta var allt gert á lágu nótunum nema stoppið. Þar þurfti að hvessa sig aðeins þar til það fór að virka. 
  En semsagt þetta var hlýðinn og meðfærilegur hundur með góða athyglisgáfu,- fljótur að læra, - og óskemmdur.emoticon
Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398470
Samtals gestir: 36203
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:15:54
clockhere