26.04.2008 16:40

Reykjavíkurhreppur.

  Ég var búinn að fresta þrisvar nauðsynlegri höfuðborgarferð og nú var hún drifin af áður en aðalvorverkin byrjuðu. Þetta var tiltöluleg stresslaus ferð í  þetta sinn, frúin með til að stjórna mér í umferðinni sem var ekki stresslaus frekar en fyrri daginn en nú fannst manni vera löggur á öllum götuhornum.  Ég er farinn að tala um það af mikilli alvöru að fjárfesta í leiðsögutæki í bílinn en þangað til það kemst í verk er fínt að hafa frúna með, sem að segir hægri/ vinstri með rétta tóninim með hæfilegum fyrirvara. Þegar hún sér að ég átta mig ekki á rauðu ljósi segir hún, kyrr.  Nú var farið á alvörubíl heimilisins því verið var að versla stórt og hann er fyrirferðamikill þarna í þrengslunum, kann betur við sig í sveitinni eins og ég. Það bezta við Rvíkurferðirnar er þegar maður er kominn fyrir Kollafjörðinn á heimleið,laus úr bensín og svifmenguninni.
 Þegar við dóluðum (náttúrulega á löglegum hraða) framhjá Ystu Görðum benti ég mæðgunum á (yngri dóttirin tekin með í sveitina) að þarna væri Þóra vinkona mín fyrir utan húsið sitt og veifaði mér.
Þær mótmæltu því hver sem önnur og fullyrtu að hún væri að dusta eitthvað. Þegar ég spurði hvort það væri Andrés (svona til málamiðlunar) þverneituðu þær því og fékkst ekki frekar úr þessu skorið því Ystu Garðar voru komnir úr augsýn. Ég vona svo að Þóra staðfesti það seinna að hún hafi verið að veifa mér. Nú eða dusta Andrés til, sem væri ekki verra að fá staðfest. Reykjavíkurferðin var jafnframt notuð til að koma Rúnu til síns heima en Asi var farinn norður fyrir nokkru. Þá áttu nú einungis heimahundarnir að vera eftir og frí í tamningum.  Hér er nú samt gestkomandi hann Týri frá Daðastöðum, undan Dan og Pílu, og sannast þar enn og aftur að lengi er von á einum.
Flettingar í dag: 2161
Gestir í dag: 142
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433089
Samtals gestir: 39945
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:39:00
clockhere