09.06.2008 23:12

Höfuðlaus her eða þannig.

Heyrði í Svan áðan, hann hress í máli og hestaferð gengur vel. Heyrði ekki söng en tel víst að söngvatn sé nálægt.
Hér gengur allt vel þrátt fyrir fjarveru bóndans (nú eða vegna fjarveru bóndans). Ég útskrifaðist úr Grænni skóga náminu á laugardag. Þá var lokadagur, allir áttu að gera grein fyrir lokaritgerðinni sinni og svara spurningum úr henni. Þetta var feykilega skemmtilegt, ótrúlega ólíkar ritgerðir og sumar mjög spennandi. Sérstaklega var ég hrifin  af ritgerð sem hét Hrossabeit í skógrækt og er um beit hrossa til að halda niðri sinu í skógi. Ég skrifaði um Sauðfjárrækt og skógrækt  og reyndi að komast að því hvort sauðkindin sé þessi skelfilegi vágestur í skógi sem sumir telja eða hvort hægt sé að stunda þetta saman. Eftir ritgerðaflutning var svo farið að Fitjum í Skorradal og grillað og trallað.
Atli var orðinn afar þreyttur á kindum á túni svo við höfum verið að koma þeim upp í fjall í gær og dag. Núna eru bara 3 þrílembur og annað eins af lappaveikum/ljótum ám heima og ætli þær fái ekki að vera niðri á Eyrum fram eftir sumri. Mér sýndust lömbin bara nokkuð bústin svona flest. Einn gemlingur var búinn að týna lambi og það trúlega dautt því ekkert móðurlaust lamb hefur sést. Síðasta ærin bar svo á sunnudaginn og ætli hún og gemlingurinn sem bar á fimmtudag fari ekki út á morgun. Vonandi tekst mér að marka lömbin rétt. Ég hef lítið gert af því síðan ég víxlaði milli eyrna markinu okkar fyrir mörgum árum. Kannski ég láti duga að skella númeri í þau og sleppi því að marka. Annað eins hefur nú gerst.
Annars er ég í því að labba þessa dagana svona til að undirbúa gönguferðina sem styttist óðfluga í. Passa mig að nota ekki fjórhjólið þegar verið er að sækja féð. Búin að fara einu sinni upp á Dalsmynnisfjall og síðan er gönguhópurinn með fyrsta labbið á þriðjudagskvöldið. Þá á að ganga frá Snorrastöðum í Snorrastaðavinina.
Síðan stefnir allt í slátt og er viðbúið að þegar endurnærður húsbóndinn birtist á svæðinu að hann býsnist yfir framtaksleysi okkar hinna að vera ekki löngu farin að slá.

04.06.2008 20:05

Bangsi. Þokan, grimmd eða heilbrigð skynsemi??

Dýraverndin er inni í dag sem er gott mál. Í þessari bangsaumræðu allri þótti mér áhugavert viðtalið í dag, við ráðgjafa umhverfisstofnunar ,dýralækninn sem upplýsti það að reyndar væri til viðbragðsáætlun  við komu bjarndýra hingað. Ekki frágengin en gengi einfaldlega út á það að aflífa dýrið. Hann rökstuddi þetta ágætlega,m.a. með því að takmarkaðar veiðar væru leyfðar  og verslun með kjötið leyfð o.sv.frv.. Ekki væri verjandi af öryggisástæðum að nálgast dýrið með deyfibyssu nema úr lofti o.sv.frv.
 Kolleki hans á austfjörðum sem  mér skyldist að hefði einn ísl. sótt námskeið í notkun deyfibyssa, átti eina slíka og svæfingalyf sem hefðu dugað í verkið sá hins vegar enga annmarka á því að nálgast Bangsa kallinn uppi á fjöllum og svæfa hann í rólegheitum. Fréttamaðurinn spurði hann ekki að því hversu stutt/langt færi hann þyrfti til að hitta og því síður hversu fljótur hann væri að hlaupa ef hann hitti ekki, en mér fannst nú þessar spurningar, sérstaklega sú seinni, vera grundvallaratriði í málinu. Ég er ekki frá því að þetta sé kannski sami dýralæknirinn sem sá ásæðu til að leita uppi fréttamenn til að tjá sig um minkasíuna .
 Það er minkagildra sem liggur í kafi í vatni,minkarnir fara inní hana, komast ekki út og drukkna. Þetta þótti honum grimmdarlegur dauðdagi og ekki mönnum sæmandi. 
  Mér varð hugsað til hundaveiðanna þar sem eltingaleikurinn með uppgreftri og allskonar uppákomur taka oft einhverja klukkutíma með tilheyrandi skelfingum fyrir veiðidýrið. Ég tala nú ekki um fótbogana sem ótrúlega margir nota enn þrátt fyrir að komnar séu gildrur sem steindrepa dýrið fljótt og örugglega( glefsurnar). Kaffielítan (eins og einhver ágætur útvarpshlustandi komst að orði) lítur að sjálfsögðu framhjá
öllum smáatriðum þegar þarf að tjá sig um dýravernd og almenna umgengni um náttúruna.

     Já,  svo er sleppitúrinn að bresta á, en um hádegi á morgun verða hestaflutningatækin  lestuð og lagt af stað að Stafafelli í Lóni.   Og það er óvíst að verði kveikt á símanum ef hann verður þá  tekinn með??.  Hafið það svo gott á meðan og framvegis.   

03.06.2008 00:00

Hvolpar og kindur.



                                    Rétti liturinn og trúlega allir þrílitir í þokkabót.
              Það standa öflugar ættir að þessum krílum. Móðirin undan Kát á Bergi, sem er að gefa afbragðs smalahunda, og faðirinn undan Skessu og Tígli margföldum Íslandsmeisturum í fjárhundakeppnum.

  Getur þú ekki geymt Mýru fyrir okkur í nótt, við erum að fara með hross í bæinn í kynbótadóm spurði dóttir mín kæruleysisleg í röddinni. Ekkert mál sagði ég, á leiðinni út á hestbak,  settu hana í endabúrið. Um leið og ég var að loka dyrunum bætti dóttirin við, það gæti svo aðeins verið að hún gyti í nótt!!...  Og kl rúmlega 11(23) kom fyrsti hvolpurinn og sá áttundi kom um níuleytið í morgun.  Ég ætla nú ekkert að leggja mat á þessi hvolpaskoffín en liturinn á þeim er fínn . Sumir eru meir að segja hreinkjömmóttir eins og góðir B C. eiga að vera. Pabbinn hann Skrámur frá Dalsmynni er dálítið glannalegur á litinn ,það erfðist ekki hér, en tilvonandi eigenda vegna vona ég að hvolparnir sæki sem mest í hann að öðru leiti. Enda finnst mér stundum að amman komi sterkar fram í barnabörnunum en afkvæmunum.

  Nú eru kindurnar allar komnar út nema tvær .Önnur bar í kvöld en það er vika í hina.
Tvílembdu gemlingarnir og flestar þrílemburnar eru á vakki hér í kring því ekki þótti þorandi að sleppa þeim í sollinn neðan vegar strax. Nokkrar eru komnar í fjallið .Þær láta sig hverfa inneftir sem er góðs viti. Þessar neðan vegar eru orðnar órólegar þrátt fyrir lúxus beitilönd.  Þær eru farnar að leita upp að hliði  og láta sig greinilega dreyma um eitthvað annað en flatlendið. Bóndinn hefur fullan skilning á því, en ætlar að bíða í nokkra daga enn með að gefa húsfreyjunni upprekstrarleyfi. Þegar það er fengið fer hún að dunda við það að koma þeim í smáhópum uppeftir.

   Og það er ljóst að gistinæturnar hennar Mýru verða fleiri en ein. 
Flettingar í dag: 507
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419464
Samtals gestir: 38182
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:28:29
clockhere