Færslur: 2014 Mars

23.03.2014 08:16

Veturinn fjöllin o.fl.

Já, það fær mig enginn til að halda því fram að þessi vetur,  sem er sem betur fer á síðustu metrunum hafi verið góður veðursfarslega.


 Ætla samt hvorki að þreyta mig né aðra með nánari lýsingum á því en þrátt fyrir tíðarfarið hefur veturinn liðið hratt hjá undirrituðum enda í nógu að snúast..


  Hundatamningarnar hafa tekið drjúgan tíma í vetur og gæðin hjá nemendunum hafa verið með besta móti sem gerir þetta allt miklu skemmtilegra. Á myndinni hér fyrir ofan sem tekin var í gær er ekki nema einn aðkomu, en það verður bætt úr því í dag og á morgun, enda fullskipað þessar tvær vikur sem eftir eru í tamningum þennan veturinn.

 Skaflahlíðin sem er vestaní Dalsmynnisfellinu ber nafn með rentu eins og hún gerir reyndar oftast og leit svona út í gær en það er nú eiginlega fyrsti almennilegi dagurinn síðan daginn tók að lengja fyrir alvöru.


 Ekki mikill snjór hér í um 140 m. en ágætis snjóbúskapur þegar ofar dregur. Kannski eiga eftir að sjást myndir af því þegar gefur til að snjósleðast pínulítið.



 Og hér sést inn Núpudalinn með fyrrnefnda Skaflahlíð á hægri hönd, Svörtufjöll sem eru reyndar með bjartasta móti og Skyrtunnu fyrir miðri mynd.


 Hér eru svo Svörtufjöllin og Skyrtunnan séð úr austurátt fyrir nokkrum árum, trúlega svipuð snjóalög núna.


  Já, það er ljóst að veturinn rennur út á örskotshraða eins og vanalega þegar þessi tími er kominn.

11.03.2014 07:28

Fjárhús byggt.

 Það voru þjrú skýr markmið sett þegar ákveðið var að koma sér upp bættri aðstöðu fyrir sauðféð síðla árs 2011.

Gert eins ódýrt og mögulegt væri.

Vinnuaðstaðan yrði að vera mjög góð.

Lögð áhersla á að fá sem allra mesta nýtingu á húsið þ.e. kind/á ferm.

 Byggt var 200 fm.stálgrindahús. Grindin var upphaflega flutt inn sem 160 fm. íbúðarhús 10 mín fyrir hrun en eftir smá breytingar á burðarvirki endaði hún hér.

 Að mestu leiti unnið af heimamönnum. Öll steypa hrærð á staðnum og allt smiðað heima sem hægt var.



 Næst tvær tveggja hesta stíur. Gangurinn til v. nýtist í rögun  svo hægt sé að hringreka féð . Einnig sem jata ef þarf.

 Tvær heimasmíðaðar gjafagrindur og 4 krær.

Tvær þeirra nokkuð minni fyrir gemlinga og veturgamlar.



 Það tekur nokkrar mínútur að koma upp heimasmíðaða rögunarganginum og hægt að sleppa úr honum í 3 áttir í haustraginu.



 Aðstaðan til að setja inn rúllurnar er m.a. notuð í rúninginn.



 Það þarf að moka út tvisvar á ári og er nokkurra klst. verk.



Rúllan skorin með traktor fyrir gjöf.



 Sauðburðaraðstaðan er í sambyggðu húsi í gamalli hlöðu sem er síðan notuð í hundatamningar  yfir veturinn.



 Ef heyið er forþurrkað hæfilega, helst taðið þurrt án hálmunar.

Já það er um 160 fjár í þessari aðstöðu, gegningartíminn ágætlega ásættanlegur og ekki var seinna vænna að koma sér upp góðri sauðburðaraðstöðu eftir hjarðmennsku undangenginna áratuga.

Og sett markmið náðust algjörlega.
  • 1
Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418101
Samtals gestir: 37971
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:21:43
clockhere