23.07.2010 07:31

Sóðar á ferðalagi. Samt ekki allir.


 Maður fyllist alltaf gremju þegar bónuspoka fullan af rusli, eða bjór og öldósir  ber fyrir augu á vegköntum landsins.

 Maður veltir fyrir sér hvernig það fólk er innréttað sem opnar bílgluggana og fleygir út umbúðunum af neysluvarningum. (eða notuðum bleyjum)

 Niðurstaðan af því er alltaf sú að þessu vesalings fólki hljóti að líða illa og eiga dálítið mikið bágt á sálinni.

 Skógræktarfélag Heiðsynninga hefur í félagi við nokkur fyrirtæki opnað Hofstaðaskóg og komið þar upp smá  aðstöðu fyrir ferðamenn ásamt því að leggja göngustíga um skóginn.

 Ekki var talið gerlegt að koma .þar upp sorpíláti enda sorpþjónusta sveitarfélagsins bundin við gáma sem staðsettir eru á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.

 Á planinu við Hofstaðarskóg stóð hinsvegar stórsekkur hálfur af kurli sem notað er til viðhalds skógarstígunum.



 Það var ekki að spyrja að því að sumir  " náttúrunnendurnir " sem áðu við skóginn töldu upplagt að setja ruslið sitt í kurlsekkinn í stað þess að kippa því með og setja í næsta gám sem er í nokkurra km. fjarlægð í hvora áttina sem er haldið.



 Mín reynsla er hinsvegar sú að sýnileg fyrirferð í varningum sé margfalt minni eftir notkun og lítið mál að kippa þessu með hvort sem farartækið er á fjórum fótum eða hjólum. 

 Og að þessum skrifuðu orðum loknum á að skella kampernum á pikkann og yfirgefa svæðið áður en fer að rigna fyrir alvöru.

 Þetta er frekar skipulagslaust ferðalag bæði hvað viðkomustaði og ferðalok varðar, en slíkur ferðamáti hentar mér ákaflega vel.


 Aðaláhyggjuefnið í augnablikinu er að ekki hafa tekist samningar um þátttöku Vasks í orlofinu.

22.07.2010 08:02

Miklaholtskirkja. - Kirkjugarðurinn sléttaður.

  Þó við sveitungarnir séum kannski ekki kirkjuræknasta lið heimsbyggðarinnar erum við prýðilega sett hvað kirkjufjöldann varðar.

 Okkur þessum 140 sálum duga ekki færri en 3 kirkjur sem eru hæfilega dreifðar um sveitarfélagið.

Það er athafnasamt fólk í sóknarnefnd sem sinnir þessum guðshúsum og kirkjugörðum vel í öfugu hlutfalli við ásókn sóknarbarnanna í kirkjurnar.

 Nú er nýbúið að taka kirkjugarðinn við Miklaholtskirkju í endurnýjun lífdaganna, slétta hann og girða upp.

 Miklaholtskirkja er að mestu í umsjón staðarhaldara, hennar Gyðu í Miklholti sem sér nú fram á bjartari daga með alla umhirðu garðsins og ótal varnaraðgerða vegna þess að girðingin hefur ekki verið fjárheld..

Hellulögnin var illa komin og endurnýjuð. Hér sjást óljóst tveir ævafornir legsteinar sem komu í ljós en ekkert læsilegt sást á þeim.



 Garðurinn var sléttaður og nú er spurningin sú hvort þökurnar lifa af þurkana og hitann sem hefur verið látlaus síðan þær voru lagðar.



 En í þessum skrifuðu orðum er farið að rigna og nú er bara að vona að rigni þar til við erum orðin ánægð með úrkomumagnið og lengd óþurrkakaflans.emoticon 

 
 

20.07.2010 21:05

Rebbinn. - Glæný veiðisaga.

 Það kemur oft fyrir að ég fæ hringingu frá vegfarendum eða íbúum í sveitinni sem hafa komið auga á ref .

 Sumir höfðu séð hann fyrir einhverju síðan en vegfarendurnir eru oftast að horfa á hann eða nýbúnir að sjá hann.

 Mér finnst þetta alltaf góð símtöl því ég er mjög áhugasamur um  refaflóruna hjá mér og hegðun hennar.
 Ég spyr því alltaf um nánari staðsetningu, tímann og hvort sjáandinn teldi að dýrið hafi verið á leið upp eða niður fyrir veg o.sv.frv.

Stundum met ég stöðuna þannig að hugsanlega nái ég dýrinu með því að bregða mér á staðinn, en það er nú ekki oft sem þær vangaveltur ganga upp.

 Og rétt þegar ég var að gera mig kláran í pottinn um 10 leitið í kvöld hringdi síminn og þar var óðamála vegfarandi með rebba í augsýn.

 Í þetta sinn brá ég við hratt, bað hringjandann að doka við og brunaði þessa 4-5 km.  á tiltölulega ólöglegum hraða.

 Og rúmri  klst. síðar þegar ég var kominn heim og búinn að slaka á í pottinum biðu þessar myndir mín í póstinum.



 Þetta er alveg stórmerkileg mynd . Fyrsta myndin (og hugsanlega sú síðasta) sem  náðst hefur af mér á veiðum.



 Hér er viðfangsefnið í náttúrulegu virki sem dugði honum þó ekki. Og ótrúlegt hvað hægt er að súmma á góðri myndavél. Ég sá hann ekki með berum augum þaðan sem myndin var tekin.



Og árangurinn. Þetta var mórauður refur eldri en tvævetur og var greinilega bráðfeigur.

Og gáfnafarið gætið bent til þess að hann eigi ættir sínar að rekja til Austurbakkans.emoticon
Flettingar í dag: 104
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419061
Samtals gestir: 38090
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 07:48:02
clockhere