13.02.2013 08:07

Að lesa hundinn, - og eigandann.


 Mér er sagt að þú horfir bara á hvolpinn í nokkrar mínútur í kindum og segir svo hvort hann verði nothæfur eða ekki sagði konan í símanum.
 
 Ég velti því fyrir mér hvort heimildamaður viðmælandans hefði jafnframt bætt við að  ég bullaði svo bara einhverja vitleysu sem ýmist rættist eða ekki, og tók því mjög varfærnislega undir þessa staðhæfingu.

 Ef konan sem hringdi í mig til að spjalla um upprennandi fjárhund sem hún átti, hefði hinsvegar látið þessa ógetið,  myndi ég hafa fullvissað hana um að með því að sjá hvolpinn vinna eða atast í kindum í 10 - 15 mín. mætti auðveldlega sjá hvað byggi í honum.

 Síðan hefði henni auðvitað verið bent á að ef réttur vinnuáhugi væri ekki kominn. hvolpurinn verið skemmdur i uppeldinu eða orðið fyrir einhverju áfalli í umgengni við önnur dýr o.sv.frv. kæmi  lítið sem ekkert útúr svona spámennsku.
 Alltaf að hafa útgönguleiðina opna í þessum bransa.




 Á sunnudaginn kom þetta myndefni hér fyrir ofan, til mín í tamningu. Þetta er Spaði frá Dalsmynni , undan Dáð og Tinna.

 Fyrir nokkurnveginn ári síðan var hann afhentur nýjum eiganda átta vikna gamall og er því eðli málsins samkvæmt 14 mán.

 Það er alltaf gaman að fá á svæðið hund sem hefur alist hér upp fyrstu mánuðina. 

Þó ekki sé hægt að merkja að hann þekki hvorki mig eða hundana sem hann lék við fyrir ári síðan er samt eins og hann þekki allar aðstæður og skemmtilegt að kallflautinu mínu sem hann hafði ekki heyrt í ár hlýddi hann umsvifalaust.

 

Eigandinn hafði nokkrum sinnum farið með Spaða í kindur innandyra og  benti mér á að   hafa með mér nesti ef ég ætlaði að sleppa honum í kindur á víðavangi. Ég  stóðst samt  ekki freistinguna og fór með  hann út á tún morguninn eftir.



 Þrátt fyrir mikinn áhuga og stutta endurnýjun fyrri tengsla okkar Spaða, hlýddi hann kallflautinu umsvifalaust og yfirgaf kindahópinn.

 Eftir um 15 mín. kindaat mat  ég hann þannig að þetta gæti orðið ákveðinn eða mjög ákveðinn hundur, með mikinn vinnuáhuga og meðfætt gott eða mjög gott vinnulag. 
 Hlýðnin er/verður góð.

 Í vinnu yrði hann yfirvegaður og ætti gott með að hafa stjórn á kindum við margvíslegustu aðstæður.

 Hann ætti að geta orðið mjög öruggur í löngum sendingum og myndi ekki skilja eftir kindur sem hann á annað borð kæmi auga  á.

 En þó að ég sé spámannlega vaxinn er kannski rétt að benda á, að það auðveldar spána nokkuð að hafa tamið og notað báða foreldrana.

 Svo er auðvitað morgunljóst ef spáin klikkar, þá verður það að sjálfsögðu eigandanum að kenna.

10.02.2013 09:22

Folaldasýningin í Söðulsholti.

  Folaldasýningin í Söðulsholti er orðin árviss atburður.

Þarna er vel að verki staðið af hálfu mótshaldara, alvörudómari sem byggingar og hæfileikadæmir folöldin.  Bygging og hæfileikar vega síðan 50/50 í dómi.
Sýnendur fá síðar í hendur stigagjöf folalda sinna.



 Hér eru félagarnir Auðun á Rauðkollstöðum  og Einar í Söðulsholti kampakátir með sýninguna sem vonlegt er.



 Það voru skráð til leiks tæplega 40 folöld og þau runnu viðstöðulítið gegnum prógrammið enda frábær aðstaða þarna fyrir svona uppákomu.


 Unglambið og ræktandinn hann Svenni í Hlíð trúlega með beina lýsingu á sýningunni.

 Reiðhöllinni er haldið í hæfilegu hitastigi og fer vel um áhorfendur, sérstaklega þá sem hafa vit á að koma með tjaldstólana með sér.

  
 Reiðbuxurnar hjá heimasætunni á Bergi vöktu mikla athygli hjá eldri húsfreyjunni í Dalsmynni sem á í uppvexti 3 upprenndandi ömmuhestastelpur.



 Það virðist vera orðið sífellt algengara að folöld séu látin ganga í rúllum úti folaldsveturinn, stundum með mæðrum sínum. Þessi fallegi hópur frá Hallkelsstaðarhlíð var þó kominn á dekurfæði  og kunnu sér ekki læti að komast á hallargólfið. Það virkaði þó ekki vel í hæfileikadómnum hvað þau fóru hratt yfir.

 
 Hér er Saga frá Dalsmynni ræktuð af yngri húsfreyjunni. Hún var ein af fimm sem komust í úrslit í hryssuflokknum. Það var athyglisvert  að af 5 sem komust í úrslit voru 4 skjóttar
en skjótt folöld settu mikinn svip á sýninguna.



 Guðný Linda Gísladóttir með verðlaunin fyrir Sögu, sem fékk afgerandi kosningu hjá áhorfendum sem glæsilegasta folald sýningarinnar.

 Allt um sýninguna á http://www.sodulsholt.is/  þegar mótshöldurum gefst tími til að koma úrslitum inn.

07.02.2013 08:10

Að umhverfisvenja, - eða ekki.


 Eitt af grundvallaratriðunum í hvolpauppeldinu er að umhverfisvenja hvolpinn um leið og hann eldist. Það sást t.d. vel á hvolpahittingnum á dögunum hvaða þýðingu það hefur.

 Það þarf líka að ala sauðféð rétt upp til þess að gera lífið vandræðaminna.

Í gær voru gemlingarnir teknir í einkatíma til að hundvenja þá.

Óþarft er að taka fram að þeir sem eru að rækta fjárstofna sem ekki eiga að skila sér til byggða fyrr en að loknum hefðbundnum leitum, ættu að sleppa þessu.



 Tömdu hundarnir eru yfirleitt teknir í þetta en ég stóðst ekki freistinguna og tók Smala með  Dáð, en þetta  var fyrsta alvöruvinnan hans á ferlinum.



 Vandamálið við að temja hunda á ótömdu fé, er að ef þeir þurfa að vinna ofan í því, getur tapast ásættanleg vinnufjarlægð. Það fer enn nettur hrollur um mig, þegar tamningin á fyrstu hundunum mín rifjast upp.



 Hér er staðan hinsvegar að verða  fín, enda gemsarnir búnir að kynnast alvöru lífsins við ragið í haust. Svellin  á auðu blettunum voru samt ekki til bóta.



 Hérna var Dáð komin til hlés og Smali fékk góða lexíu í smalafræðunum.



 Það er svo ekki hægt að kvarta undan tamningarveðrinu það sem af er nýju ári en nú á samt að drífa inniaðstöðuna í gagnið  í þessari viku.

Þið munuð óhjákvæmilega fá eitt hundablogg í viðbót í tilefni þess.
 
Flettingar í dag: 104
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419061
Samtals gestir: 38090
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 07:48:02
clockhere