21.06.2008 08:59

Heyskapur og fuglalíf!


     
         Ósamkomulag á tjörninni hvar yfirborðið er í lágmarkshæð, samt ekki sögulegu.
Hvort það er dóttir eða tengdadóttir sem er mætt á svæðið og hvor aðilinn veldur áreitinu verður hver og einn að spá í. Fleiri myndir í albúmi.


  Ég var löngu hættur að hafa tölu á ungunum sem spruttu út úr óslægjunni og hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa á undan sláttuvélinni.Yngri bóndinn sem sló Vallarfoxið með knosaravélinni slapp greinilega mun betur útúr fuglaflórunni.  Stelksungarnir voru mun hlaupalegri en hrossagaukarnir sem kúldruðust áfram og voru skæðir með að fela sig í grasinu þegar átti að fjarlægja þá af túninu. Ég fór gætilega með fyrstu ungana, fór ofaní skurðinn og lagði þá á bakkann á rýgresisakrinum. Þegar stoppin voru orðin nokkur í hverjum hring fengu þeir sína fyrstu flugferð yfir skurðinn og þessir litlu hnoðrar lentu mjúklega hinumegin skurðarins. Það var gaman að sjá að viðbrögðin voru nánast nákvæmlega eins hjá þeim öllum. Þeir hlupu af stað í átt frá mér og skurðinum en voru fljótir að átta sig á því að rýgresið var skammt á veg komið og veitti þeim ekkert skjól . Þá var tekin vinkilbeygja og þeir stungu sér síðan inn í graskragann sem var á skurðbakkanum.  Fuglalífið í sveitinni er með meiri blóma en gerst hefur á háa herrans tíð og stokkendurnir á tjörninni hjá mér eru nú tvær með sinn flotann af ungunum hvor.
 Þeim lendur stundum saman með miklum látum eins og góðum nágrannakonum sæmir.
 Það tókst að rúlla fyrsta heyskapnum samkvæmt áætlun þrátt fyrir að beltalás gæfi sig í rúlluvélinni og eftir að búið var að umstafla fyrningunum var farið að keyra rúllunum heim í gær. Í þeim er þvílíkt gæðafóður að það slær út því fyrsta í fyrra, sem sló út gæðin frá árinu áður o.sv.frv.  Enda forsendan fyrir því að kýrnar mjólki til að standa undir dótakaupunum og náttúrulega rollubúskapnum. Nú er spáð í langtímaspána og velt vöngum yfir hvenær rétti tíminn er að taka restina af fyrri slætti af kúaheyinu.
 Það á aðeins inni í þroskanum en tapist það í viku óþurrk er bóndinn í slæmum málum.
   Reyndar er regnleysið aðeins farið að slá á sprettuna en ég er illa svikinn ef að rætist ekki duglega úr því áður en lýkur.  Rigningarsumarsspáin er nefninlega enn inni hjá mér þó hún rætist vonandi ekki.

     Nú verður reynt að komast á bak um helgina og grenjavinnslupistillinn er væntanlegur á síðuna þegar síðasta grenið hefur verið kannað.   

18.06.2008 20:21

Kýrnar út . Bangsi???

                 Ekki bangsi.Bara hún Emilía að hefja sig til flugs. (Sjá myndir í albúmi.)


  Hvernig er það með þessa heimasíðu, Er ekkert skrifað þar nema um hunda og hross spurði yngri bóndinn og reyndi að gera sig eins önugan í málrómnum og hann mögulega gat.

         Kýrnar eru náttúrulega löngu komnar út þó að þær fái enn  hey að éta eins og þær mögulega geta. Rýgresið sem komst ekki nógu snemma í jörðina í vor,þökk sé bygginu er dálítið langt frá því að gleðja munn þeirra og maga en það er þó á réttri leið.
         Búið að slá hér heima það sem borið verður á aftur og verður það rúllað á morgun. Vallarfoxið hefði þolað nokkurra daga sprettu í viðbót en ekki marga.
 Og stefnt er að því að fara langleiðina með grenjavinnsluna um helgina en þar er það bóndinn sem ákvarðar en tilviljunin og tófan sem ræður. 

  Og bangsi no.2 ákvað að stíga á land og nú voru engin mistök gerð . "Kaffielítan" og þau hin sem elska dýrin og náttúruna öðrum fremur og vita nákvæmlega hvernig þetta virkar alltsaman eru dálítið hrygg yfir málalokum en þessum 5- 10 millj. sem aflífunina kostaði var náttúrulega  ágætlega varið. Það sem bjargaði deginum endanlega hjá mér, var þó kassinn sem settur var uppí fraktflugvél úti í Kaupin. og fluttur til Akureyrar. Það hefði örugglega tekið tvo smiði á Króknum 6- 8 klukkutíma að reka saman svona kassa og staðfesti endanlega hve veruleikafirringin er alger þegar fjölmiðladansinn er stiginn af fullum þunga. Svo er það spurning hvort rétti sótthreinsistimillinn hafi verið kominn á græjuna við lendingu??
 Þegar bangsi no. 3 kemur verða menn reynslunni ríkari og hafa nokkur varðskip fyrir utan til að stugga dýrinu aftur  í land.
  Þá sleppur Björgólfur ekki við að taka upp veskið.

17.06.2008 00:28

´Lokadagur Sleppitúrsins.

  
                          Búið að lesta flutninginn og bara eftir að kveðjast .

Frá v. Jói,Gugga,Katrín,Dagný Stjáni,Halldóra,Einar,Svanur,Skúli,Auðun,Gunni og Jonni.Á myndina vantar Jón og Ingibjörgu.


Jón El. sem hafði trússað okkur af mikilli snilld fékk frí í dag en hann er með aðstöðu og hross að Teygingarlæk og ætlaði að ríða með okkur þaðan að Kirkjubæjarklaustri. Reyndar var þessi síðasta dagleið að hans undirlagi og kom á daginn að hann hafði verið tillögugóður þar.Jonni dæmdist til að taka við trússinu enda bóngóður eins og fyrri daginn.Við gengum frá smáhýsunum á Svínafelli , lestuðum kerrurnar og ókum síðan vesturfyrir Skeiðarársand að Hvoli, en þar skyldi gist næstu nótt.
  Eftir járningar og álagningarstúss var síðan riðið af stað og hafði Auðun fengið mjög nákvæma tilsögn um hvar ríða skyldi þennan spotta að Teygingarlæk.
 Strax urðu nokkur vandamál við að komast frá Hvoli . Öllum hrossum hafði verið ekið þangað og þegar þeim skyldi riðið burt kom í ljós að ekki var gert ráð fyrir hrossaumferð við ristarhlið bæjarins. Hófst nú mikil reið fram og aftur um moksprottin túnin því reksturinn var ekki í stoppistuði. En út komst allt að lokum og Auðun sem stundum finnst gott að ríða "götulausa græna jörð" leiddi okkur óðara eitthvað úrleiðis og fann allar hugsanlegar ófærur sem fundust á svæðinu. Endaði það með því að hann var einn í heiminum en við hin riðum aftur á veginn og síðan eftir réttu götunni þegar kom að henni. Þar hittum við" leiðsögumanninn" aftur sem lét sér þetta að kenningu verða og leiddi okkur rétta leið allt þar til Óli á Læk tók á móti okkur.
 Þar var okkur öllum boðið til bæjar og haldin mikil veisla. Rjómapönnukökurnar og heimabökuðu flatkökurna ásamt hangikjötinu og bleikjunni og bara nefndu það, allt heimagert ,sultan líka. Auðun óskaði síðan eftir að húsfreyjan "Magga" yrði kölluð úr eldhúsinu og benti síðan samferðakonum sínum á að þær skyldu taka hana sér til fyrirmyndar. Þá myndi þeim vel farnast. Ljóst að Anna Margrét var næstum hinumegin á Íslandi þá stundina. Nú var lagt á .Óli og tengdasonur hans riðu með okkur að Klaustri
og Óli sem er áttræður var þarna á brúnum 22 vetra klár sem járnaður hafði verið daginn áður. Fljótt kom í ljós að við aðkomupakkið, höfðum lítið í þá félaga að segja því þeir voru greinilega vanir einhverjum öðrum meðalhraða en við vestanmenn og förum við þó ekki alltaf rólega. Þegar ég ræddi þetta gætilega við Óla sagðist hann fá orð fyrir að fara stundum dálítið geyst, en hann stoppaði vel á milli .Sumir héldu því hinsvegar fram að hann væri lagður af stað aftur þegar þeir síðustu kæmu í áningarstað. Þennan dag riðum við jafnbestu reiðleiðirnar í ferðinni í frábæru veðri. Reyndar var laugardagurinn,Fornustekkir-Lækjarhús mjög góður hvað göturnar snerti en veðrið skemmdi talsvert fyrir okkur þá. Þarna var riðið neðan hrauns og síðan sléttar grundir og á hverjum áningarstað þuldi Óli yfir okkur endalausum fróðleik úr sögunni á svæðinu. Þessum frábæra reiðtúr var síðan slúttað með kvöldmat að Hótel Klaustri. Þegar komið var að Hvoli um kvöldið var algjörlega ótækt að fara strax inn úr vornóttinni og síðustu tónleikarnir haldnir undir berum himni í lognkyrri nóttinni.
 Það var hinsvegar hljóðbært í logninu og þrátt fyrir að trailerinn væri hafður á milli húss og söngfugla var búið að loka öllum gluggum á efri hæðinni á farfuglaheimilinu um það er lauk. Þeir voru náttúrulega galopnir þegar við risum fjallbrött úr rekkju uppúr 9 en herbergin áttu að rýmast fyrir kl. 10 og allir orðnir ólmir í að komast til síns heima.

        Já , þetta var bara alltílagi sleppitúr þetta árið.
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419225
Samtals gestir: 38133
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 09:34:33
clockhere