Færslur: 2009 Apríl

30.04.2009 18:10

Vindorkan og virkjanirnar.


 Þegar norðaustanáttin er í essinu sínu hér á Nesinu þá hef ég hana í fangið á leið í gegningarnar.

   Eftir því sem árunum fjölgar, verður barningurinn erfiðari og  ég átta mig sífellt betur á því að þarna er um umtalsverða ónýtta orku að ræða.

  Þegar háttvirtur fráfarandi  umhverfisráðherra fór að ræða virkjun vindsins í framhaldi af nokkrum ógætilegum orðum  um olíuleit, korteri fyrir kosningar, rifjuðust upp fyrir mér ýmsir fróðleiksmolar sem voru gleymdir á harða diskinum, sem er nú reyndar að verða sífellt gloppóttari.



  Virkjun vindsins hefur fyrst og fremst tvo kosti. Hún er umhverfisvæn fyrir utan sjón og hávaðamengun og virkjunarkostnaðurinn er á svipuðu róli og hagkvæm vatnsaflvirkjun.

 Tækninni fleygir svo sífellt fram.  Nú getur stór vindmylla framleitt 5 mw. Fyrir örfáum árum var mesta framleiðslugeta 1 mw. Rétt er þó að taka fram að hámarksafköst og meðaltalsafköst  hjá vindrafstöð eru tvennt ólíkt.

 Gallarnir eru þeir að rekstrarkostnaðurinn er mun meiri en vatnsvirkjana og framleiðslan óstöðug.
  Þessi orkuver eru síðan drjúg við að halda niðri nálægum fuglastofnum.

   Úti í Evrópu er raforkuframleiðsla með vindi ríkisstyrkt, til að hún sé samkeppnisfær við aðra orkugjafa.
 Þar er framleiðslunetunum dreift um á skipulegan hátt til að jafna út óstöðugleikann í framleiðslunni, þar sem framleiðslan fer inn á sama dreifikerfið.




  Hér á landi myndi lognið trúlega vera minna vandamál en veðurhæðin, en framleiðslan stöðvast við ákveðinn vindstyrk.

 Til þess að reksturinn verði sem hagkvæmastur verður að nota annan orkugjafa til að taka við þegar myllan stöðvast. Fyrir okkur væri trúlega áhugaverðast að nota hin umdeildu miðlunarlón í þessu skyni. Minnka rennslið úr þeim þegar vindurinn blæs en auka það í logninu. Með þessu móti mætti gjörnýta vatnsvirkjanirnar og minnka sveiflurnar í vatnshæð miðlunarlónanna.

  Hér á klakanum eru raforkumálin, framleiðsla og flutningskerfi því miður í í farvegi sem sem er okkur neytendum óhollur og ekki mjög áhugavert umhverfi fyrir stórhuga vindvirkjunarsinna.

Þökk sé ónefndum stjórnmála flokkum/mönnum.emoticon




29.04.2009 16:04

Smiðirnir og vorverkin.


  Við getum gleymt honum. Hann á eftir að liggja þessa viku, síðan þarf hann nokkra daga að ná sér , svo verður  kominn sauðburður hjá honum sagði smiðurinn minn, þegar hann mætti í morgun. Ég hafði spurt eftir félaga hans sem lá í illvígri  flensu. Það er allt alvöru í Grundarfirði og flensan sem gengur þar, gefur ekkert eftir flensunni sem er örugglega á leiðinni til okkar frá útlandinu og er óðum að breytast í venjulega flensu.


Mann bæði svíður og klæjar  að standa í þessu núna.  Ég veit ekki hvorn þeirra ég hugsa verr til , smiðsins sem mætir og heldur mér frá vorverkunum eða hinum sem liggur og lætur samkvæmt mjög áreiðanlegum heimildum, frúna stjana við sig í stað þess að mæta hér eldhress og drífa þetta af. Það verður samt ekkert gefið eftir að klára þetta,  en klæðning og gluggar í fjósi munu bíða fram á sumarið..

  Vorverkin eru samt á fullu og kindurnar fengu seinni sprautuna sína um helgina.



 Gamli rekstrargangurinn sem átti nú bara að notast eitt haust, virkað vel í það og þó gangi afspyrnurólega að skipta honum út fyrir alvöru rekstrargang,  þá veit ég allavega hvernig sá á að vera sem er nú töluvert mikils virði.



 Dóttirin sleppti síðan tengdasyninum á hann Stíganda og hann kom náttúrulega uppeftir, til að sýna okkur smiðnum hvernig ætti að gera þetta. Fyrst svona og svo hinsegin.



 Það bendir margt til þess að umgengisréttur eigandans verði takmarkaður eins og mögulegt er.


 Já , trúlega eru ég og ferða og fjallaklárinn minn í vondum málum.emoticon 

27.04.2009 18:56

Bilun og bílabreytingar!!

  
  Yngri bóndinn er dálítill dótafíkill í sér og sést ekki alltaf fyrir í þeim efnum.

 Eftir að hafa breytt Forennernum í Pickup taldi ég víst að nú hefði hann fengið sig fullsaddann af slíkum ævintýrum í bráð.

 Eftir að hann rakst svo á framhásingu úr Toyota jeppa í bílskúr hjá vini sínum á Austurbakkanum var ekki aftur snúið.( Varasamir austurbakkamennirnir).

  Pikkinn lagði undir sig verkstæðið eina ferðina enn og þar var hægt að ganga að bóndanum vísum í tíma og ótíma.


 Klafadraslinu og kögglinum fyrir framdrifið var hent undan og hásingin smíðuð undir í staðinn eftir að Kristján rennismiður hafði farið um hana mildum höndum.



 Það voru smíðuð sæti fyrir loftpúðana en hægt er að stjórna þrýstingnum á þeim frá mælaborði. Þannig að þá verður hægt að lyfta bílnum á alla kanta, þar sem það eru líka púðar að aftan. Reyndar þurfti  að færa þessa aðeins utar að ofan, eftir að þessi mynd var tekin, vegna plássleysis.



Svo voru smíðaðar stífufestingar en miðað var við að hásingin færi um 5cm framar, til að vera alveg laus við að dekkin narti í brettin þegar mikið er lagt á hann, því þurfti að lengja drifskaftið um 5cm líka.



  Já, og vökvastýrið svínvirkaði meira að segja, þegar það var komið á sinn stað.



  Og var það ekki hann Einar Sæm. sem sagði hin fleygu orð, " Enn á Blesa eru mér/ allir vegir færir" ?

 Já, þetta er náttúrulega bilun, en hann er ekki " fjarska " fallegur lengur heldur þvert á móti.emoticon

(Sjá myndaalbúm í myndaflokknum,  Atli myndir.)
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398214
Samtals gestir: 36183
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 02:54:23
clockhere