26.04.2009 08:22

Fín kosningarúrslit. Nema hvað.


  Eins og alltaf eftir snarpar kosningar unnu allir sigur með einhverjum hætti.

 Sjálfstæðismennirnir lönduðu einum á síðustu metrunum og eru þakklátir fyrir að ekki fór verr. Það verður síðan fróðlegt að sjá hverju útstrikanirna skila hjá þeim og hinum. Ekki er ólíklegt að þær ýti einhverjum alla leið út aftur.

  Ég hafði á tilfinningunni, að stórstyrkjunum og hruninu slepptu, að  kvótakerfið væri þeim verulega erfitt, allavega á landsbyggðinni.
   Einhverra hluta vegna sluppu frammararnir betur útúr kvótaumræðunni. Nýja lúkkið þeirra bjargaði heilmiklu fyrir þá og meira að segja mér, fannst og finnst lánaleiðin þeirra virkilega skoðunarverð.
  Þó Samfylkingin komi vel út úr þessu má þó segja að aukingin hafi orðið minni en búist var við sem veikir þau aðeins í ESB málunum. Það er þó ljóst að allt bendir til þess að farið verði í aðildarviðræður á árinu sem eru náttúrulega heilmikil tíðindi.

  Og VG unnu stórt en samt sem áður er ég fullviss um að umræðan sem ástkær umhverfisráðherra vor, kom af stað um Helguvík og olíuleitina varð til þess að þau misstu flugið og trúlega nokkuð harkalega.

  Vegna þess hvað þessi umræða hennar var gjörsamlega óþörf á þessu stigi málsins, var þetta dálítið dapurlegt fyrir þau, enda farin að máta forsætisráðherrastólinn í huganum, fyrir Steingrím.

 Þeir sem ekki vildu skila auðu en gátu ekki hugsað sér að kjósa gamla flokkadótið, virðast síðan hafa splæst sínu atkvæði á Borgarahreyfinguna með ágætum árangri. Þetta er þó sundurleitur og hálf stefnulaus hópur en aldrei að vita nema reyni á málefnin hjá þeim .

 Nú á nefnilega eftir að koma saman stjórn, og verður fróðlegt að sjá hvernig Steingrímur og félagar snúa sér í evrópumálunum.

  Það verður þó að ætla það, að samkomulag verði um að þau mál verði skoðuð.

Og síðan  byrja skelfingarnar hjá vesalings stjórnarliðunum fyrir alvöru. Að reka þetta þjóðfélag okkar með stórlöskuðum tekjustofnum og í botnlausu skuldafeni með handónýtan gjaldmiðil og nefndu það bara.

Já, hvað skyldi svo vera langt í næstu kosningar??

Bjartsýnin lengi lifi.emoticon

23.04.2009 05:28

Sumardagurinn fyrsti.


   Gleðilegt sumar ágætu síðugestir og takk fyrir veturinn.

 Þó ekki frysi saman sumar og vetur  er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu.
Hér er stafalogn, sól,  og hiti eftir því.


  Lambakóngsarnir eru orðnir hinir státnustu og bíða óþreyjufullir eftir að komast út..

  Nú er að koma litur á túnin , aðeins lítilsháttar  klaki í jörð enn og allt lítur vel út.

 Von er á sáðbygginu í sveitina í dag og síðan styttist hratt í, að einhverju af því verði komið í jörðina.

 Í gær og í dag er verið að flytja að skeljasand,  fyrir þá akra þar sem þarf aðeins að hressa upp á sýrustigið.

  Smiðirnir mínir tímdu ekki að sleppa svona góðu veðri og því glymja hamarshöggin um sveitina í logninu.
 Annar þeirra, sem ekki vissi hvað hann átti að kjósa í fyrradag, kaus í gær svo nú verður dagurinn tekinn í að sannfæra hann um að hann hafi gert vitleysu. Hann getur nefnilega enn kosið"rétt" en það getið þið ekki á sunnudaginn. Eins gott að þið vitið hvað þið eruð að gera.



 Atli frændi er nýbúinn að henda klafadraslinu undan Toyotunni og setja alvöru hásingu svo maður er ósköp lítill við þetta fjallaferðadót.

  Já þetta lítur allt vel út og þessi kreppa sem allir eru að tala um er nú bara eitthvað fár, gert af mannavöldum og ekkert annað að gera en vinda ofan af því.


Bara að það hefði nú verið boðið upp á eitthvað lið í kosningunum sem maður treysti til þess.emoticon

En tengdamamma er búin að taka stefnuna. Henni verður ekki breytt.emoticon





20.04.2009 18:13

Hvað eigum við að kjósa , Svanur?


  spurðu iðnaðrmennirnir mínir þegar þeir settust inn í hádeginu einn daginn.

  Ég leit á þá í forundran, því ég vissi að annar var gamalgróinn sjálstæðismaður og kunni ekki að kjósa annað. Hinn var gamall allaballi sem lenti síðan í VG.

 Sjálfstæðismaðurinn sagði síðan aðspurður ekki geta hugsað sér að kjósa flokkinn sinn eftir það sem á undan var gengið og nú væri hann í vandræðum. Helst kæmu VG til greina en hann ætti erfitt með að styðja þingmannsefni listans í kjördæminu af ástæðum sem hann tiltók reyndar.

  Hinn var sama sinnis. Þingmannsefnin höfðuðu ekki til hans og hann tiltók ýmsa sem hann hefði fullt traust til. Þau voru því miður fyrir hann og flokkinn, ýmist á listum í öðrum kjördæmum eða ekki í framboði.  Þessir snillingar voru þó á því að ef allt þryti, myndu þeir nú samt frekar skila auðu en sitja heima á kjördag.



  Já, þeir eru í þungum þönkum um vandamál tilvonandi kosningardags.  Afastelpan er hinsvegar nokkuð áhyggjulaus um þesskonar og reyndar allskonar vandamál.

  Um kvöldið spurði svo mín heittelskaða mig þessara sömu spurningar. Mér þótti vænt um það, því mér þótti spurningin benda til þess að hún væri nú loksins búin að fyrirgefa mér, að fyrir margt löngu fékk ég hana til að kjósa framsóknarflokkinn. Það var á þeim tíma sem framsóknarflokkurinn átti að bjarga heiminum og halda landinu í byggð. Síðan hefur hún ekki kosið frammarana , enda er illa komið fyrir þeim.

  Í kvöld  var ég að horfa á tilvonandi þingmenn þeirra suðvestlendinga og til að koma mér ekki verr á þeim landshluta en orðið er, sleppi ég öllum kommentum um þá.
 
  En þeim fækkaði hinsvegar um einn flokkunum sem til greina kom að ég kysi og er nú orðið ískyggilega lítið úrvalið og ekkert gott í boði.

 Jahá , sá á kvölina! emoticon

 

Flettingar í dag: 582
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419539
Samtals gestir: 38186
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 14:02:48
clockhere