Færslur: 2008 Apríl

29.04.2008 23:37

Rétt hára og hugafar!!!

 

Nei, sagði konan í símanum og bætti svo við með miklum alvöruþunga. Ég vil hvolp frá þér, helst undan tíkinni sem ég sá á sýningunni hjá þér í sumar. Hann á að vera loðinn bætti hún við.  Hún hafði hringt í mig og spurt  hvort ég ætti hvolpa, eða þeir væru væntanlegir og þessi orð féllu þegar ég sagði henni að svo væri ekki en ég vissi um hvolpa sem gætu mjög trúlega hentað þeim hjónunum vel.    Ég hef margreynt það að þegar, sérstaklega kvenkyns viðmælendur eru komnir með alvöruþunga upp fyrir viss mörk í röddina er bara um tvær leiðir að velja. Samþykkja umyrðalaust allt sem viðkomandi segir eða reyna að leiða umræðuna útá einhverja hjáleið (Norðlingaholtsleið)  og eyða talinu. Það kallast virðulegt undanhald. Í þetta sinn valdi ég auðveldu leiðina,upplýsti konuna um að væntanlega myndi umrædd tík fyllast áhuga á að fjölga sér í áliðnum des.(2 mán seinna) og ef það gengi eftir gætum við rætt málin seinna í vetur. Þetta þóttu konunni góð tíðindi og vildi hún nú ljúka málinu , fá hjá mér reikningsnúmer og borga hvolpinn.Hún hefur trúlega haldið að hér lægi á borði langur biðlisti áfjáðra hvolpakaupenda sem er nú því miður ekki raunin. Nú var það ég sem gerðist  mjög ákveðinn í röddinni og sagði sem satt var, að ég hefði mikla ótrú á að lofa ófæddum hvolpum ,hvað þá heldur hvolpum sem ekki væri nú einu sinni búið að finna föður að. Varð nú að samkomulagi að hún hefði samband í feb. og tæki á stöðunni. Er skemmst frá því að segja að áhugi tíkarinnar á allri fjölgun var enginn í des, jan ,feb og mars. Var þá svo komið að  eiginmaðurinn var búinn að yfirtaka viðræðurnar og þegar ég sagði honum í mars, að þetta væri vinnutík sem yrði að vera klár í haustverkin þótti honum greinilega illa horfa í málinu. Ég veit svo ekki hvor okkar var ánægðari þegar hann hringdi í mig fyrir helgina og ég gat glatt hann með því að nú væri allt á fullu í sveitinni. Kominn loðinn og gullfallegur hundur í heimsókn með fullt af góðum genum og allt að smella saman.

 Já það hafa alltaf reynst mér bestu kaupendurnir sem ekki spyrja um verðið fyrr en hvolpurinn er tekinn.

28.04.2008 20:04

Hágangssonur fæddur.



  Það blés  kalt um litla Hágangssoninn þegar hann kom í þennan harða heim í morgunsárið. 12- 15 m/sek.. og hiti neðan við núllið þó sólin væri komin upp.
  Hann var þó bara látinn skjálfa sér til hita og þornaði fljótt enda hlýnaði vindurinn með hækkandi sól. Eftir að fylgjan náðist síðan með smá utanaðkomandi aðstoð slakaði merareigandinn loksins á. Folaldseigandinn sem er heimasætan á bænum var löngu búin að  fá sms ið sitt og myndirnar eru komnar  í albúm svo hún geti síðan að lokinni skoðun, aftur farið að snúa sér að próflestrinum. 

  Og plógurinn var settur við. Það gekk að plægja (næstum) frostlausu akrana en þeir með frostskáninni verða geymdir því ekki var hægt að bylta jarðveginum almennilega ofan á klakaskáninni þó það hafi stundum virkað á köldu vori. Það var svo alveg dj. napurt að spúla sandinn/saltið af sturtuvögnunum eftir skeljasandsaksturinn.

 En það hlýnar um helgina.

   

27.04.2008 23:06

Nú andar suðrið sæla!!!!!

   Já kuldagallinn er aftur  kominn á sinn stað í fatahenginu og allt orðið aftur eins og það á að vera hér á Nesinu á þessum árstíma.. Þar sem Hestamiðstöðvarfólkið fór í Skagafjörðinn um helgina,annarsvegar til að vita hvort þar væru enn til nothæfir hestar  og hinsvegar( trúlega) til að kanna hvort einhverjir gætu sungið þrátt fyrir áburðarverðshækkanir og aðra óáran, var ég settur hestahirðir um helgina. Það var létt verk og löðurmannlegt að gefa þessum 30 og eitthvað hrossum með þessa aðstöðu enda ekkert gert annað þar neðra .

  Það var síðan rennt á akrana og skoðuð frostalögin því nú vilja menn að fari að styttast í sáningu. Á flestum ökrunum var um 10 cm.+  niður á klakaskánina sem er misþykk. Nokkur stykki voru samt orðin klakalaus að mestu. Þar höfðu hálmstönglarnir sem stóðu eftir þreskinguna verið í lengra lagi ,safnað í sig snjó og frostið ekki farið eins niður. Þannig að á morgun verður vendiplógurinn settur við og málin könnuð frekar.
 Á túnunum sem tekin verða í endurræktun virtist klakinn hinsvegar eilítið þykkari.

  Ég stóðst svo ekki freistinguna og laumaðist með Týra í nokkrar kindur þó hann sé ekki alveg tilbúinn í það.
Flettingar í dag: 282
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398478
Samtals gestir: 36203
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:40:02
clockhere