27.08.2008 23:11

Dapurt í sauðfénu.



    Þegar fyrstu verðtölur í sauðfjárafurðunum litu dagsljósið um daginn vonaði ég að þær myndu fara hækkandi þegar fleiri afurðastöðvar bættust við en það rættist ekki.

   Þó flestir rollukallarnir séu þungir yfir þessum verðum, hef ég á tilfinningunni að margir þeirra hafi ekki áttað sig á hve slæm staðan er/verður.
 Það er ekki langt síðan bjartsýnin ríkti og menn voru að rétta úr kútnum eftir mögru árin.
Vítahringurinn sem menn standa nú  frammi fyrir er sá að rekstrarkostnaðurinn( olía, áburður,lánakjör) hefur vaxið alveg hrikalega en markaðurinn þolir ekki þær verðhækkanir á afurðinni sem þarf. Hærra verð þýðir  minni sölu,þ.e. neyslan færist á aðrar kjöttegundir. Reyndar fyndist manni að hækkunarþörfin ætti að vera fyrir hendi á öðrum kjöttegundum líka en sauðfjárræktin verður því miður alltaf döpur hvað arðkröfur varðar. Annaðhvort verður því að lækka tilkostnað á ferlinum eða auka aðstoðina við greinina en sú leið er örugglega ekki inni í dag.

  Því miður virðist staðan sú að þó veturinn verður þraukaður, enda búið að leggja út fyrir vetrarfóðrinu, mun nokkuð stór hluti stéttarinnar verða að setjast yfir reiknivélina að vori.

 Og menn leika sér ekki með tilbúnar tölur/áætlanir í mörg ár eins og málin standa í dag.

26.08.2008 23:15

!! Fjárhundasýningar !


  
 Það mun hafa verið á landbúnaðarsýningu í Reykjavíkinni í upphafi aldarinnar sem Smalahundafélagið  stóð fyrir mikilli kynningu og fjárhundasýningu af miklum myndarskap. Þar mættum við Skessa meðal annarra, blaut á bakvið eyrun í þeim málaflokki. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar( þrátt fyrir þurrkana í sumar) og sýningarnar tekið talsverðum stakkaskiptum hjá undirrituðum.

 Ég geri talsverðan greinarmun á innfæddum og útfæddum þegar sýning er sett upp í dag.  Aðkomumennirnir fá mun meira spjall um leitir og landbúnað yfirhöfuð og sýnandinn gerir sig nokkuð búralegan (sem er nú eðlislægt) með smalastaf og tilheyrandi. Ef enginn innfæddur er viðstaddur má svo gera ráð fyrir allskonar kryddi í umræðunni.
  Þar sem innfæddir þekkja nú orðið, margir til góðra smalahunda er lögð áhersla á dálítið ýkta framgöngu hundanna í sýningum fyrir þá. Smalastafnum er sleppt og sýnandinn gerir helst ekkert, nema opna hliðið á kindahólfinu svo hundurinn geti rekið úr því og loka því síðan að lokinni sýningu. Í báðum tilvikum eru þó í upphafi skýrðar út helstu skipanir og hvernig hundurinn á að vinna útfrá þeim. Þar sem ég er að sýna vinnuhundana mína set ég ekki upp þrautabrautir en sýni einfaldlega hvað vinnan gengur út á.

      Já er ekki rétt að opna hliðið og koma Vask í vinnuna?



 Og út skulu þær með góðu eða illu. (Fóru með góðu.)



  Kaffikrúsin í hægri hendi og hin í vasann því allt handapat er bannað.










   Þarna er verið að undirbúa skiptingu á hópnum sem gekk náttúrulega fyrirhafnalaust fyrir sig þrátt fyrir stafleysið.


          Svo þurfti að ná þeim saman á ný.



  Að lokum þurfti þó að leggja frá sér krúsina og taka hendina úr vasanum til að loka hliðinu.
  Vaskur taldi vissara að fylgja þeim inn svo þær stykkju ekki út hinu megin.

Ætli það sé svo ekki  tímabært að setja upp bindi og hafa eitthvað sterkara í krúsinni.

Athuga það næsta sumar.

24.08.2008 23:14

Landbúnaðarsýningin.



       Það hefði alveg mátt viðra betur fyrir dótafyrirtækin sem voru búin að koma upp veglegum sýningum á svæðunum sínum á Gaddstaðaflötum. Það var þó mun skárra í dag en mér fannst þó aldrei mikið af fólki þarna vélamegin, enda lá vélasvæðið einhvernveginn illa við hinum hluta sýningarinnar. Maður fékk á tilfinninguna að þarna væru tvær sýningar í gangi. Ég hef það svo eftir áreiðanlegum heimildum að mun færri hafi komið á sýninguna en verið er að tala um. Þetta var samt verulega yfirgripsmikil sýning og  kvöldvakan  fín.

  Sýningarrollurnar mínar voru verulega erfiðar til að byrja með. Þegar ég ræddi við bóndann fyrr í vikunni sagðist hann hafa verið hundlaus í sex ár. Þegar mér hafði tekist með miklum harmkvælum að þvæla tveim tvílembum uppá kerruna sagði hann mér hinsvegar að fyrir nokkrum árum hefðu komið til sín hundamenn að fá kindur fyrir svipaða sýningu en hefðu gefist upp á rollunum. Hann bætti því svo við að á næsta bæ væri hundur sem væri stundum notaðu þarna. Sá legði umsvifalaust á flótta ef kindurnar væru eitthvað að bögga hann. Þetta slapp þó til og í dag voru þær orðnar
þjálar og fínar svo ég gat farið með þær úr hólfinu í sýningunum.


          Það kom að því að sú svartbotnótta sneri réttum enda að félaga Vask.

  Ég hef stundum haldið því fram að íslenskir bændur væru ekki mikið inni í hundaræktinni en það afsannaðist rækilega þegar þeir fóru að leggja mat á hvolpana mína um helgina. Álitið hjá öllum sem börðu þá augum var samdóma og greinilega þekkingarfólk á ferðinni( eða þannig   ). Það var síðan yfirlýst markmið hjá mér að selja einungis hvolpana á sauðfjárbú, enda sagði ég einum  þéttbýlisbúanum það, að hann yrði að fá sér jörð og nokkrar rollur  svo ég seldi honum hvolp. Hann sá við mér og setti konuna sína í samningamálin, svo nú er "Snillingur" litli kominn með lögheimili á Selfossi.


    Það er vel hægt að hafa dálítið fyrir því að eignast svona hvolp.




  Og nú á  ég  enga hvolpa lengur.
Flettingar í dag: 582
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419539
Samtals gestir: 38186
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 14:02:48
clockhere