02.04.2009 08:52

Nettengingin á sunnanverðu Nesinu.


  Það hrúgaðist inn pósturinn hjá mér þegar nettengingin hrökk í samband fyrir stuttu.

  Sambandið er búið að vera afar þungt og meira og minna úti síðustu dagana. Það er ljóst að samningurinn sem gerður var um þessa þjónustu, er ekki efndur og kominn tími á að verksalinn leggi fram, hvaða lausnir koma til greina til að leysa þetta varanlega, og í líkingu við það sem samningurinn hljóðar uppá.

   Á svæðinu er búið (að sögn) að koma upp góðu, öflugu tengineti og vandamálið er að koma nógu öflugri tengingu inn á þetta net.

  Og það duga okkur ekki útskýringar á því hversvegna þetta er svona.

   Nú er tíminn og þolinmæðin einfaldlega endanlega þrotin, og verksalinn verður að sýna fram á lausnir á vandamálinu.

  Annars verður verkkaupandinn að skoða með hvað hætti hann tryggir  best  hagsmuni notendanna vegna vanefnda á samningnum.

30.03.2009 07:52

Vatnsnesingar og menningarferðir.

   Núna er tíminn fyrir allskonar menningarferðir og til marks um það komu þrír hópar í Hestamiðstöðina á laugardaginn, sauðfjárbændur af Vatnsnesinu voru  þar um kl 11 og kl. 2 og 5 mættu síðan sinn hvor hestamannahópurinn.

                       
                 Einar hefur trúlega þurft að bæta nokkrum sinnum á þennan yfir daginn.

  Ég og frúin komu aðeins að móttökunni á rollubændunum enda nýbúin að sækja nokkra þeirra heim svo sem frægt er orðið.



  Þetta var tæplega 30 manna  hópur og skemmtilegt að sjá hvað mikið er af ungu fólki búandi á Vatnsnesinu.
 Þar sem væntanlega var erfiður dagur framundan hjá fjárbændunum var boðið upp á kraftmikla Snæfellska kjötsúpu að hætti Dalsmynnis. Þar sem þarna var álitlegur markhópur fyrir fjárhundaræktendur á ferðinni, var tilvonandi ræktunartík gripin með, ásamt nokkrum kindum.


 
 Það gekk ágætlega að sýna gríðarlegan vinnuáhugann og ýmsa ágæta takta en þegar sýna átti takmarkalausa hlýðnina kom í ljós að þetta var ekki góður dagur hjá okkur Snilld svo spurning er hvernig markaðsátakið tókst?

                             Hvað skyldi Snilld hafa verðið að bralla þarna?

   Eftir að hafa skoðað dótakassann hjá Einari, húsmæðrunum til mikillar hrellingar var haldið niður í byggþurrkun þar sem hópurinn komst í annan dótakassa. Þar fræddi þurrkunarstjórinn, Þverárbóndinn, ferðalangana um leyndardóma byggþurrkunarinnar.

  Þau héldu síðan áfram á vit sauðfjárbænda í Kolbeinstaðarhreppnum og ráðgerðu að ljúka ferðinni með fjósaskoðun í Hraunhreppnum.

Gaman að þessu.emoticon 

Það eru svo fleiri myndir í albúmi.

28.03.2009 21:55

Allt á fullu hjá afastelpunni.



  Já þetta var viðburðarríkur dagur hjá litlu manneskjunni eftir að hafa gist hjá afa og ömmu.


 Til að byrja með voru komin tvö lítil lömb þegar við amma fórum út í morgun.



 Svo meiddi ég mig í puttann þegar ég var að gefa rollufrekjunum mat.



  Það var vont og amma slapp ekki við að setja plástur þegar við komumst heim.



  Meðan afi og Atli voru að mjólka var amma tekin í snjókarlavinnu. Þetta voru pabbinn, mamman og barnið og litli bróðirinn.??

  Á meðan var allt að gerast í fjósinu.


 Það fæddist lítil kvíga obbboðslega skrítin á litinn.

  Svo komu gestir að heilsa uppá kálfana.


  Inga Dís og Róbert Vikar þurftu náttúrulega að heilsa upp á nýfæddu lömbin.



  Þau töldu líka rétt að heilsa upp á tudda kallinn sem varð mjög glaður að sjá þau.

 Já þetta var erfiður dagur svo ég ætla að sofa heima hjá mér í nótt en ekki hjá afa og ömmu .



Flettingar í dag: 212
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419169
Samtals gestir: 38116
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 08:51:58
clockhere