23.04.2008 23:31

Fréttir og mótmæli.

 Ég hef alltaf verið forfallinn fréttafíkill. Það er nú ekki svo rosalega langt síðan menn bjuggu við örfáa fréttatíma á sólarhring á gufunni og Tíminn barst ekki í sveitina fyrr en mörgum dögum eftir útgáfuna. Þegar sjónvarpsfréttirnar urðu til var búskapurinn stilltur inn á fréttatímann sem var heilög stund. Nú eru breyttir tímar,glænýar fréttir dynja á manni allan sólarhringinn og þegar fréttastjóri RUV ákvað að á sínum tíma gefa skít í kúabændur og færa fréttatímann fram til kl. 19 gaf ég skít í sjónvarpsfréttirnar . Þó ég komi stundum inn um það leiti sem fréttirnar byrja er alveg undir hælinn lagt að ég nenni að horfa á þær. Alla tíð hef ég samt að upplifað það öðru hvoru að mér finnst fréttamennirnir ekki spyrja réttu spurninganna.       Yfirstandandi bílstjóradeila er skólabókardæmi um það. Að mati flestra snýst hún um olíuverð og skatta sem hún gerir að hluta. Deilan snýst þó að mínu mati fyrst og fremst um reglugerðafarganið sem þessir aðilar búa við og framkvæmdina á því , þó gjörsamlega hafi mistekist að koma því til skila..Enginn minnist á að þessir mótmælendur vinna mest eftir útboðum. Þar ættu þeir að ná inn kostnaðarhækkunum en þeir lifa í hörðum heimi nú um stundir eftir góðærið.
 Það virðist undantekningarlaust vera þannig þegar blýantsnagarar ráðuneytanna fara að snara EFTA ruglinu yfir á íslensku , að það er ekki nóg með að bætt sé við í reglugerðaruglinu sem eru nógu slæmt fyrir, heldur er hreinlega búið til eitthvað aukakjaftæði sem einhverjum ráðuneytisstjóra fellur vel í geð. Nú er til dæmis verið að breyta öllu dýralækniskerfinu hér með nákvæmlega þessum hætti. Það er ekki nóg með að þjónustan muni verða margfalt dýrari heldur mun dýralæknaþjónusta trúlega leggjast af í  jaðarbyggðunum.

  Ég vil svo þakka ykkur sem hafið verið að slæðast inná  heimasíðuna mína veturinn, og vona að sumarið megi verða ykkur gott og gjöfult.

22.04.2008 23:36

Vorboðinn ljúfi.

  Ég lét það nú ekki eftir mér að fara í kuldagallann þegar farið var að setja rúllur inn hjá kúnum  eftir kvöldmatinn en norðanáttin var nöpur eftir hlýindin undanfarið. Það varð síðan minna úr skeljasandsakstri en til stóð. Beðið eftir frjótækni framundir hádegi og síðan kom upp skotferð í Borgó um kaffileytið. Það náðust þó að flytja um 80 - 100 tonn en verið er að setja 8 - 10 t.ha. í akrana og endurræktunina.  Það var því geymt til morguns sem ljúka átti í dag sem er ekki ótítt að sögn húsfreyjunnar.

  Restin af fræinu kom í dag og fyrsti áburðarfarmurinn á morgun en þetta er hluti af vorboðunum, þó þeir fiðruðu séu skemmtilegri og ódýrari. Nýræktirnar eru komnar með græna slikju sem verður hvanngræn um leið og gerir smádembu því nú er mykja á öllum túnum til að gefa þeim nú gott start fyrir sumarið. Og kalið sem ég var að angra mig á öðru hvoru í vetur virðist ekki hafa komið við á þessu svæði þetta árið.7-9-13 bank.

  Sem sagt, eins og ég hef alltaf sagt tóm sæla og hamingja.(en pínu kalt.)

21.04.2008 19:07

Botnlaus blíða og bílasmíði.

 Í endurminningunni (framarlega í henni) voru vorin alltaf góð. Þau voru svona eins og líðandi blíðukafli, logn og hlýtt, þegar verið var að fara innanum lambféð sem bar náttúrlega oft útivið. Þá var stundaður hjarðbúskapur, beitt allan veturinn, svona eins og  tekið verður upp eftir nokkur ár þegar hlýnunin er farin að virka og aðföngin verða svo dýr að rollubændurnir hafa ekki efni á áburði og olíu. Reyndar er aðeins hugsanlegt að minnið sé eitthvað að svíkja mig en þetta er allavega fínt svona. Það var síðan verið að keyra skeljasand í dag og trúlega á morgun, því nú er biðstaða meðan klakinn fer úr ökrunum. Svo verður allt brjálað.

  Nú er komið inn myndaalbúm sem allir hafa gaman af að sjá, af bílasmíðinni hjá Atla.
Þarna sést hvernig hægt er að fara frekar flókna leið til að koma sér upp pallbíl í sveitinni. Það getur svo sem alltaf tekið sinn tíma en hér var  rúmt ár tekið í ferlið, að vísu með hléum. Þetta er semsagt loksins komið Árni minn og skoðaðu þetta nú vel.
Flettingar í dag: 546
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419503
Samtals gestir: 38185
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:50:05
clockhere