12.12.2010 23:43

Vorblíða í myrkrinu, og frjósemisguðinn blótaður ákaft.

 Já. það er ekki hægt að kvarta yfir tíðinni en þegar er mismunandi mikið lágskýjað þá birtir aldrei allan daginn.

 Reyndar verður dálítið sóðalegt um, þegar rignir á þessum árstíma á frosna jörðina og hvolparnir sem eru að ólátast úti eins mikið og hægt er verða dálítið svona, lítið snyrtilegir í útliti.


 Langamman hefur nú ekkert gaman að því að passa þessa ólátabelgi.

 Þeim fækkar að vísu ört þessa dagana og ég er farinn að hálfsjá eftir þeim, því þessi aldur, tveggja mánaða er alveg meiriháttar skemmtilegur og þetta eru allt algjörir grallarar.

 En það eru kannski? bara svona  9 vikur í næsta got. Ef það gengur upp kemur aftur betri tíð með blóm í haga eins og alltaf.

 Nú er það spariræktunartíkin sem fær tækifæri að spreyta sig í kynbótunum.

 Og rollusæðingarnar eru á fullu þessa dagana og aldrei þessu vant eru að ganga 8 - 10 ær á dag sem er mjög fint fyrir svona örbændur eins og okkur.


 Já, já, þeirra tími kemur fyrr en varir.

 Kýrnar fara svo ekki varhluta af frjótæknunum sem eru nánast að koma daglega í fjósið nú um stundir.

 Já, bara nokkuð líflegt í sveitinni í svartasta skammdeginu.emoticon

09.12.2010 22:29

Fjárhúsúttekt að Hrísum í Flókadal.

Það er alveg sama hvað maður skoðar margar nýbyggingar, alltaf sér maður einhverjar nýjar útfærslur á tækni og vinnutilhögun.

 Eftir gott kaffispjall hjá Dísu og Dagbjarti þar sem rætt var um hross, hunda, kindur og síðast en ekki síst skáldskap ýmisskonar , var farið í fjárhússkoðun.


  Bassi litli frá Hæl er orðinn mjög áhugasamur,. Hann er undan Soo ( innfl) og Kost (innfl. foreldrar) frá Móskógum og ég spái honum miklum afrekum í lífinu.

 Þetta eru um 500 kinda hús, skipt niður í 32 kinda stíur, með 2 fóðurgöngum eftir endilöngu húsinu.



  Rúllunum er ekið fram með Sheffer liðlétting, 5 - 6 í einu á jötuna. Þegar bændunum finnst nóg étið er liðléttingurinn tekinn og moðinu ýtt beint út í sturtuvagn. Það er síðan nýtt í hross og uppgræðslu.



 Jötunum er skipt í sjálfstæðar einingar á milli gagnstæðra stía og færast saman eftir því sem ést. Einungis þarf að færa jötustokkana upp.



 Það er vel séð fyrir rekstrarþörfinni með gang  hringinn í kring um stíurnar ( með útveggjum) og einum í miðju hússins.


 Hér eru forystuær búsins. Mér leist vel á þá arnhöfðóttu sem var skynsamleg til augnanna. Hin var svona Austurbakkalegri.



 Og forystusauðurinn kemur sér vel þessa dagana þegar verið er að leita að ám til að sæða en hann er að sjálfsögðu vel ræktaður og teymist eins og hundur.



 Þessi myndarlega móbíldótta ær er ein sú afurðarhæsta á búinu.


 Það voru býsna mörg litaafbrigði sjáanleg þarna.



 Þessi botnótta var dálítið spes.



 Já það hefur víkkað ansi mikið sjónarhringurinn síðan ég byggði fjárhúsin og flatgryfjurnar árið 1977.

 Það er svo gaman að segja frá því að þegar þessi hús voru byggð kom byggingarflokkurinn frá Landstólpa fyrripart apríl mán.
 Þ. 18 maí voru síðan settar kindur inn í fullkláruð húsin.

07.12.2010 23:17

Mjólkurkvótauppboðið. " Fullkomnun fáránleikans."

 Það var þungt hljóðið í bóndanum sem hringdi í mig í gær.

 Hann sagðist hafa bundið miklar vonir við nýtt kerfi í mjólkurkvótaviðskiptum enda löngu hættur að reyna að kaupa framleiðslurétt gegnum það gamla.( Ætla ekki að hafa eftir það sem við vorum sammála um þar.)

 Nú hugsaði hann sér gott til glóðarinnar enda búinn að leggja fyrir síðustu ár allnokkra upphæð í tilvonandi kvótakaup.

 Hann hringdi í þjónustufulltrúann sinn í bankanum og bað um bankaábyrgð út á innnistæðuna sína sem yrði þá fryst á meðan.

 En þá fór allt í klessu.

 Þjónustufulltrúinn upplýsti hann um það, að því miður yrði umsókn um bankaábyrgð vegna kvótatilboðs að leggjast fyrir "lánanefnd" sem starfaði í aðalbankanum í Rvík.

 Til þess að hún tæki málið fyrir yrði að liggja fyrir úttekt á rekstri bóndans, hvað hann ætlaði að kaupa mikið magn og hversu hátt hann myndi bjóða í hvern lítra mjólkur.
Því miður skipti engu þó hann ætti inni fyrir kaupunum, svona væri kerfið.

Aðspurður sagði hann að bankinn tæki 1/2 % af upphæðinni í þóknun og hann hélt nokkra tölu um það, að sú upphæð myndi nú ekki duga fyrir kostnaði bankans við þetta umstang allt.

 Síðan yrði bóndinn að leggja fram þinglýsingarvottorð (innan við 5 daga gamalt) til að sanna að hann hefði yfir lögbýli að ráða. Það myndi kosta nokkur þúsund.

Þegar bóndinn spurði  dolfallinn hvers vegna kaupandi greiðslumarks sem ætti fyrir kaupunum þyrfti að sýna þinglýsingarvottorð til viðbótar við allt hitt ruglið benti bankamaðurinn honum á að spyrja Jón Bjarnason að því.

 Þetta gerði hann þrátt fyrir að Jón hafi margsýnt það í sjónvarpsviðtölum að hann er snillingur í að svara ekki beinskeyttum spurningum.

 Og bóndanum sem nokkrum mínútum áður hafði fundist það minnsta mál í heimi fyrir bankann hans að gefa bankaábyrgð út á innistæðu sem yrði fryst, meðan ábyrgðin stæði, féll nú allur ketill í eld.
Ekki bætti það ástandið ef bankamaðurinn sem þjónustaði trúlega alla kvótabjóðendur og kvótaseljendur á svæðinu, væri kominn með yfirsýn yfir bæði sölu og kauptilboð viðkomandi bænda.  Eins gott að hann stæði undir þeirri ábyrgð.

 Þar með þakkaði hann þjónustufulltrúanum samtalið og lagði á.

Hvað gera bændur svo spurði ég ?

 Ætli ég taki bara ekki út 5 millurnar mínar fyrir næsta uppboð, fari með þær í plastpoka á Selfoss og biðji Sverri fyrir þær framyfir uppboðið.

Það væri fullkomnun fáránleikans.

Best að hafa þær í þúsundköllum bætti hann svo við.

 Ég ætla svo að bíða með að vitna í samtal bóndans sem þurfti á bankaláni að halda til að gera kauptilboð í mjólkurkvóta.

En óneitanlega læðist sá grunur að mér að möppudýrin hafi algjörlega sleppt fram af sér beislinu þegar kvótauppboðsreglunum var snarað yfir á íslenskuna.

 Og einhverra hluta vegna er hagsmunagæsla okkar bændanna afar hljóðlát um framkvæmdina??

 

 
Flettingar í dag: 381
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419338
Samtals gestir: 38155
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 11:02:14
clockhere