03.09.2010 19:18

Bann við lausagöngu búfjár á Skógarströnd.- Hafnað af sveitarstjórn.

 Eftir því sem eyðijörðum eða jörðum sem nýttar eru til annars en hefðbundins búrekstrar fjölgar hitnar í umræðunni um lausagöngu búfjár.

 Skógarströnd  sem liggur á norðanverðu Nesinu og tilheyrir Dalabyggð er að stórum hluta komin í eyði.
Þar hefur hópur landeigenda stofnað " Landgræðslufélag* og er eitt af markmiðum þess að girða af mestan hluta Skógarstrandar til að losna við ágang sauðkindarinnar sem er að stærstum hluta í eigu vina minna á Austurbakkanum. Að ætla má með landgræðslu og skógrækt í huga.

 Rætt er um að girða frá sjó til fjalls, eftir háfjallinu og síðan til sjávar aftur .


Horft norður Stóra Langadalinn. Ekki mjög spennandi girðingarstæði ef farið yrði hátt á fjallgarðinn..

Innan þessarar girðingar yrðu allar jarðir frá og með Stóra Langadal til og með Vörðufelli eða um 12 bújarðir.

 Tekist hafði samkomulag við Vegagerðina um að hún kæmi að málinu. Hún skilyrti þá aðkomu hinsvegar með því að sveitarstjórn bannaði lausagöngu búfjár innan girðingar.

 Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 24. ágúst sl var samþykkt samhljóða tillaga Byggðaráðs að hafna  lausagöngubanni  búfjár á Skógarströnd.


Nokkrar eðalrollur með austurbakkablóð í æðum að njóta lystisemda skógræktarinnar í Hrossholti.

Þetta er umræða sem á eftir að aukast verulega næstu ár sérstaklega í héruðum þar sem fjárbúum hefur stórfækkað með tilheyrandi breytingum á landnýtingu.

 Meira að segja hér í Eyjarhreppnum er farið að ræða þetta með ákveðinn hluta niðurlandsins. Þá myndi lausagöngubannið gilda t.d frá 10. júní til 20. sept.

 Innan þess svæðis eru þó forhertar rollukonur eins og Dalmynnis og Kolviðarnesfrúrnar.

 Hernaðurinn frá " aðkomurollunum"  er bara kominn svo gjörsamlega úr böndunum að
trúlega verður að gera eitthvað róttækt ef kyrrð á að komast á magasýrur vesturbakkamanna.

Nú er það svo spurningin hvort landeigendur á Ströndinni gefa skít í vegagerð og sveitarstjórnir og girða.

01.09.2010 21:15

Heimsókn til Halla í Belgsholti.

 Við í bændastéttinni eru jafn misjafnir og við erum margir og sem betur fer finnast þar innanum algjörir snillingar í allskonar framfaramálum.

 Við meðaljónarnir förum stundum að heimsækja einhverja slíka til að hlaða batterýin og reyna að koma ýmsum fróðleik inn á harða diskinn sem er nú orðinn dálítið gloppóttur hjá undirrituðum.

 Að koma í Belgsholt og stoppa í svona 2-3 tíma er eins og að sækja vikunámskeið í margvíslegustu búnaðarfræðum.

 

 Hveitiakurinn með vorhveitinu sem sáð var 20 apríl er glæsilegur og er að gulna hratt þessa dagana.



 Það kom mér á óvart hvað þarna eru sterklegir stönglar og traustvekjandi fræfesta enda verður þessi akur ekki þresktur fyrr en seint.



 Halli er mikill aðdáandi Skegglunnar sem er hér  fullþroskuð hjá honum. Hann ræktar sitt sáðbygg sjálfur að mestu leyti og þar sem Skegglusáðkorn er ekki í boði lengur var m.a. erindið að fala af honum sáðbygg. Það stefnir í samninga um það.

 Nú er hann á fullu að hanna brennsluofn fyrir hálm til að skerpa á heita vatninu í kornþurrkuninni.



 Mér sýndist að það dæmi myndi ganga upp hjá honum áður en lýkur en hann áætlar að 1 fylling á  þessum 3 rúllu brennara muni duga í þurrkun korns af einum ha. 

 Áhugamenn um Skegglufræ ættu að bjalla í bóndann og skoða málið.

30.08.2010 07:04

Æsispennandi fjárhundakeppni.

Það er alltaf mikið lotterí að taka þátt í fjárhundakeppni.

 Ef smalinn er eitthvað strekktur þá skynjar hundurinn það og stressast líka upp. Kindurnar taka þetta hvorutveggja inn á sig, en oft er ekki á vandamál þeirra bætandi.

En þetta er alltaf jafnskemmtilegt.

Stundum er tilfinningin sú að maður komist ekki í verðlaunasæti vegna þess hversu vel gekk, heldur gekk félögunum bara enn verr.

Eins og sést á dómblaðinu hér fyrir neðan, gengur keppnin út á það að 4 kindum er sleppt í 2 - 500 m. fjarlægð eftir því  hvaða keppnisflokkur er í gangi.

Hundurinn er sendur út á hægri eða vinstri hönd. Hann á að koma hópnum beina leið til smalans  í gegnum 1 hlið á leiðinni, reka hópinn í hálfhring afturfyrir smalann sem má ekki hreyfa sig frá þeim stað sem hann er á.
Síðan á hundurinn að reka hópinn " þríhyrninginn" , frá smalanum gegnum hlið, síðan þvert yfir brautina framan við smalann út um annað hlið þar.

 Síðan kemur hundurinn hópnum áleiðis að smalanum sem nú má loksins yfirgefa sinn stað.
Þar á hundurinn að sýna að hann geti haldið hópnum að smalanum og keppendur í A fl. eiga síðan að  skipta hópnum í tvennt.

Að lokum er hópnum komið inn í litla rétt.

Keppendur fá 15 mín. til að ljúka þessu.

Hundurinn leggur af stað í brautina með 100 stig sem síðan saxast á við refsistig sem hann fær fyrir allt sem úrskeiðis gengur í brautinni.



 Hér er dómblaðið fyrir Snilld í B fl. þar sem hún fær refsistig fyrir að koma hópnum af stað, koma með hann og reka þríhyrninginn. Þetta er sunnudagsrennslið þar sem hún stóð efst en henni gekk öllu verr á laugardeginum.

Það voru samanlögð stig tveggja rennsla sem giltu til úrslita.

                                              Unghundaflokkurinn. 
Helgi og Snúlla frá Snartarstöðum í 3 sæti með ? stig. Svanur og Dáð frá Móskógum 2 sæti og 128 stig. Gunnar og Ólína frá Hafnarfirði með 143 stig ásamt eiganda Ólínu.

Ég keppti með Dáð sem er nýorðin 2 ára í unghundunum og þó mér gengi vel þar með 59 stig fyrri daginn og 69 þann seinni var Ólína frá Hafnarfirði og Gunni Guðm. mun betri . Ólína átti algjört snilldarennsli seinni daginn með 84 stig af 100 mögulegum. Það var sérstaklega frábært hjá þeim vegna þess að þarna er á ferð maður sem hefur aldrei átt kind.
Hundarnir í þessum keppnum eru sífellt að verða betri, sérstaklega í yngri flokkunum, enda eru að koma sterkir inn hundar út af hundum/tíkum sem flutt hafa verið inn síðustu árin og eru greinilega að bæta ræktunina. 

                                                B.flokkur.
 Halldór á Súluvöllum og Spori frá Breiðavaði með ? stig og 3 sæti. Svanur og Snilld frá Dýrfinnustöðum með 126 stig  2 sæti og Lísa og Skotta frá Daðastöðum í 1 sæti með 135 stig.

 Síðan var ég með Snilld 3 ára í B fl. þar sem hún var í öðru sæti. Það var sérstaklega ánægjulegt því Snilld er ekki mjög góður keppnishundur að upplagi.
 Vinnuáhuginn er gríðarlegur og í svona hasar getur allt farið úr böndunum.

Fyrir ári síðan fór ég með þessar tíkur í unghundakeppnina á laugardeginum en þá voru þær 1 og 2 ára. Þá lauk ég hvorugu rennslinu þar sem stefndi í átök við erfiðar kindur sem mér fannst ekki tímbært fyrir þær þá. Nú myndu þær höndla slíkar aðstæður.

Allt um Smalahundakeppnina  Hér.
Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419039
Samtals gestir: 38083
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 07:26:48
clockhere