20.05.2008 04:15

Sauðburður/goðafræði!!


 Ég verð óneitanlega var við það að mín heittelskaða lítur mig tortryggnu rannsóknarauga eftir hina ógætilegu spurningu mín úr goðafræðinni. Eftir á að hyggja verður að viðurkennast að spurningin bendir til mjög alvarlegra bilana á harða diski undirritaðs sérstaklega ef haft er í huga að hann er/var sérstakur áhugamaður um málaflokkinn og er ekki ótrúlegt að endað verði í ásatrúaflokknum áður en lýkur.
 Það góða við þessa uppákomu er þó það, að frúnni er enn umhugaðra um velferð mína en fyrr (var í góðu lagi) þó hún sé ekki farin að ganga jafn langt í kröfu sinni um hvíldartíma mér til handa og stóri bróðir ríkið gengur gagnvart atvinnubílstjórum þessa lands.

  Af sauðburði er það hinsvegar að frétta að með heimkomu heimasætunnar fór allt að gerast og fjölgar nú fénu jafnt og þétt. Stærsta vandamálið í augnablikinu er óhófleg frjósemi og þegar ógæfusöm móðir missti einlembinginn sinn í fæðingu og tók tvö að sér í staðinn var það talsverður léttir. Hún tók upp á arma sína tvílembing undan júgurbólguá og þrílembing undan gamalær. Nú er lifað í stöðugum ótta um að lömbin verð þrjú í stað tveggja því þrílembumetið sem slegið var í fyrra er komið í verulega hættu. Þetta gerist þrátt fyrir að svokallað fengitímaeldi er löngu liðið undir lok í Dalsmynni, kjarnfóður( bygg) ekki gefið nema gemlingum eftir áramót og síðan eftir burð þar sem því verður viðkomið í jötuleysi nútímans.

  Það er svo óþarft að taka fram, að nú eru engar spurningar bornar upp við kvöldverðarborðið nema að vel ígrunduðu máli.

19.05.2008 04:58

Hann Funi frá Dalsmynni.

           
         Funi er tveggja vetra undan Von frá Söðulsholti (mf. Adam frá Meðafelli) og Parker frá Sólheimum. Þegar við Árni
( fyrrv.eig.Parkers) voru sveitungar og vinir í gamla daga gengu flest uppátækin hjá okkur upp. Það lítur ekki illa út með árangurinn af því þegar  við lögðum saman í púkk í hrossaræktinni. 
Þó ótrúlegt sé er enn laust undir Funa fyrir 2-3 hryssur( af 10.) í sumar
. (Fleiri myndir í albúmi.)

        Það er eitthvað að honum Funa sagði dóttirin í símanum og var dálítið áhyggjufull í röddinni.  Þó mér stæði málið nærri, finnst mér stundum vont þegar ég, á kafi í dagsins önnum, með slatta af vandamálum á bakinu þarf að taka inná mig einhver viðbótarvandamál. Þó ég afgreiði ekki málin að hætti Rómakeisara í den, verð ég stundum önungur til að byrja með. Dóttirin sem er alin upp við önugleika föðursins hélt þó ótrauð áfram og sagði að það væri komin gráleit slikja yfir annað augað á folanum og rynni mikið úr því. Ég veit ekki hvernig goðafræðin kom í hugann við þessi tíðindi en ósjálfrátt fór ég að velta fyrir mér hvort það hefði verið Óðinn eða áttfætti klárinn hans sem var blindur á öðru auga. Þar sem ég taldi ólíklegt að dóttirin hefði svar við þeirri spurningu, spurði ég hvort hún sæi einhverja áverka á eða við augað.Svo var ekki og þar sem hún hefur nokkurt álit á sjúkdómsþekkingu gamla mannsins, kvað ég uppúr með það, að skella ætti penicillíni í folann og ég myndi svo hringja í Rúnar (dýralækni) þegar ég kæmist í morgunkaffið. Áður en kom að því lágu fyrir frekari upplýsingar. Það væri lítið gat á hornhimnu augans og gráa slikjan væri útfrá því. Rúnari þótti þetta lítilvægt, ráðlagði meðferðina næstu dagana og eftir að ég hafði lagt nokkuð að honum staðfesti hann pencillínið í vöðva" svona til öryggis" þegar ég svo birtist í hesthúsinu með penicillinlyfið í augað lagði ég á herslu á, að það hefði verið hárrétt ákvörðun með sprautunina í upphafi og ætti að endurtaka hana á morgun.

    Ég held svo að mín heittelskaða hafi sannfærst um að ég væri endanlega kominn yfirum, þegar ég spurði uppúr einsmanns hljóði yfir kvöldmatnum hvernig það hefði verið með þá Óðinn og  Sleipni, hvor þeirra hefði verið blindur á öðru auga.

18.05.2008 05:18

Bannað að lofa veðurfarið!

 Ég hefði betur sleppt því að lofa veðurfarið, því rigningin sem í kortunum var í besta hófi fór alveg úr böndunum. Völtunin sem var á algleymingi á ökrunum, var reyndar hætt vegna úrkomunnar áður en lofið var slegið inn á lyklaborðið en uppúr hádeginu í gær var sáningu og tætingu slegið á frest þar til þornaði um aftur. Já byggsáningunni lýkur ekki í dag eins og til stóð en til þess að þurfa ekki að eyða helginni í frí eða einhverja aðra  vitleysu var farið að plægja upp restina af túnunum sem á að endurvinna svo hægt verði að sá rýgresinu með hraði í framhaldinu. Gærdagurinn var því með rólegra móti hjá mér. Erindi í Borgarfjörðinn var afgreitt og komið við í Bónus í leiðinni. Það sem varð til þess að tími fannst í það ferðalag var kaffiskortur sem brostinn var á í Dalsmynnisbúrinu. Maímánuður er mikill kaffimánuður hjá undirrituðum og nú er tryggt að kaffilaust verður ekki næstu dagana. Síðan var heimilið birgt upp af allskonar óhollustu sem er nauðsynleg á þessum árstíma og reyndar oftar þegar ég sé um innkaupin. Hinsvegar steingleymdi ég að koma við í Ríkinu sem fyllir mig áhyggjum af andlegu ástandi mín.  Heimasætan er svo mætt í sveitina, Púka og öðrum til mikillar gleði og þegar búin að standa fyrstu vaktina.

   Já nú þarf að upphugsa eitthvað  nauðsynlegt erindi í kaupstaðinn svo hægt verði að versla það sem gleymdist.

   
Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419039
Samtals gestir: 38083
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 07:26:48
clockhere