Sveitarfélagið mitt . Fréttir og fundarýni.

5 júní 2010.
Talsverðar breytingar eru nú fyrirhugaðar á þessari vefsíðu sem verður helguð sveitarstjórnarmálum og framgangi þeirra í sveitarfélaginu ásamt fréttum úr sveitinni..

Rétt er að vekja athygli á að hér er alltaf efst á síðunni það nýjasta sem sett er inn og gjarnan vitnað í eitthvað neðar.

Telji einhver sig þurfa að koma að leiðréttingum eða athugasemdum við það sem hér birtist sendir hann mér þær i tölvupósti og ég set þær hér inn

21 jan. 2013.

 Fagmennska eða fúsk????

 Það verður ekki deilt um það að sitjandi sveitarstjórn tók við góðu búi í upphafi kjörtímabils.  Sveitarfélagið algjörlega skuldlaust og hellingur af peningum til í peningahúsinu.

 Lausafjárstaðan var m.ö.o. um 1.000.000 kr á íbúa sem er ekki átakanlega slæmt.

Og ekki nóg með það, heldur voru sumir tekjustofnarnir vannýttir og einn tekjustofninn, sorphirðugjöld hefur ekki verið nýttur, þrátt fyrir þokkalega þjónustu sveitarfélagsins í þeim málaflokki í áratugi.

  Eins og kemur fram hér að neðan í ársgömlum pistli lá þó ljóst fyrir að reksturinn myndi þyngjast og í lok síðasta kjörtímabils höfðu menn horft á leiðir til að mæta því.

  Nú var hinsvegar horft öðrum augum á hlutina og um annað að hugsa en halda sjó í tekjuöflun, þegar fyrir lá að sinna margfalt skemmtilegri hlutum.

 Árið 2011 endaði með um 28.000.000. kr. taprekstri. 

 Þegar velta sveitarfélagsins er innan við 90.000.000. er þetta býsna myndarleg tala og viðsnúningurinn í rekstrinum,  ja allavega eftirtektarverður.

 Svo allrar sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að það er allra veðra von í þessum rekstri.

 Ef maður svo rennir yfir tölurnar með jákvæðu hugarfari þá verður góðlátleg niðurstaða mín sú, að tæplega tveir þriðju þessarrar upphæðar sé svona " verjanlegt" tap.

 En þá standa samt eftir um 10 millur. Það er eftir sem áður stór upphæð í þessum rekstri .

 Eins og ég benti á í pistlinum í fyrra virðist ávöxtun peninganna í bankakassanum í engu hafa verið sinnt.

 Þeir lágu bara þarna á sínum óverðtryggðu reikningum eins og fé án hirðis, geymsluaðilanum vafalaust til mikillar ánægju.

 Það er fyrst í mai 2012 sem bókuð er samþykkt um að verðtryggja hluta upphæðarinnar. Það virðist hinsvegar miðað við upphæðina, vera einhverskonar málamyndagjörningur.

 Það hefði síðan verið eðlilegur hlutur í þeirri stöðu sem var augljós síðla árs 2010 að fara að leggja á sorphirðugjöld fyrir kostnaði við sorphirðu.

 Það komst ekki í verk enda þurfti að búa til gjaldskrá og auglýsa hana svo allt væri nú skothelt.

Það vannst heldur ekki tími til þess árið 2011.

Ég veit ekki hvort náðist að koma auglýsingu um gjaldskrá frá sér í tíma á síðasta ári en það hefur þá allavega staðið tæpt.

 Það átti einungis eftir að ganga formlega frá hagræðingu í bókhaldsvinnu sveitarfélagsins í lok síðasta kjörtímabils.

Ný sveitarstjórn mátti hinsvegar ekkert vera að slíku sýsli, enda atvinnuskapandi að hafa nokkra í hlutastarfi að dunda við að raða fylgiskjölum í möppur og borga reikninga. Skemmtilegra að fjalla um og afgreiða tvo ársreikninga setta upp af sitthvorum aðilanum o.sv. frv.

 Gott mál að setja pening í það, þessi ár.

Mér sýnist að þessir þrír liðir hafi komið sirka 10 millum í lóg þetta eina ár og náttúrlega tikkað allt árið 2012, nema hluti af lausafénu sem er þó vonandi verðtryggt  síðan í maí.

 Nú geta menn haft mismunandi skoðanir á fjármálastjórn sveitarfélags og ég veit að þennan pistil eiga eftir að lesa einhverjir sem eru ósammála mér í því, að hér hafi menn ekki verið að vinna vinnuna sína..

 Þegar kom að því að sveitarstjórnin ákvæði laun sín fyrir árið 2013 bar oddviti upp þá tillögu að laun hans vegna oddvitastarfa og laun annarra fyrir fundarsetu  myndu hækka um u.þ.b. 40 %.

Tillagan var samþykkt umræðulítið með einu mótatkvæði.



26 Jan. 2012.

  Nú fer að styttast í tveggja ára afmæli sveitarstjórnarinnar og í tilefni þess að
fjárhagsáætlun fyrir 2012 var að skríða saman hjá þeim, er rétt fara aðeins yfir
stöðuna.

    

  Fjárhagsáætlunin ber það með sér sem vitað var, að rekstur sveitarfélagsins er að þyngjast. Þar munar mestu í útgjöldum að hreppurinn yfirtók rekstur skólans eftir erfiða samninga við Borgarbyggð og ber fulla fjárhagslega ábyrgð á honum en Borgarbyggð greiðir fasta upphæð á nemanda.

 Í tekjunum munar mest um hrun í vaxtatekjum en lausafjárstaðan hefur löngum verið sterk og stórbatnaði við velheppnaða  jarðasölu um mitt ár 2008.
 
 Þetta litla sveitarfélag er með áætluð rekstrargjöld um 89.2 millur en tekjur er áætlaðar um 84.5  m. og rekstrartap um 4.6 m.

  Þessi staða er uppi þrátt fyrir að taka eigi upp sorphirðugjöld í sveitarfélaginu og foreldrum yngstu barnanna verður ekki lengur boðið uppá gjaldfrían leikskóla.

  Vaxtatekjurnar stóðu ekki einungis undir þessari þjónustu heldur undir hluta af þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið stóð í.

Árið 2009 voru vaxtatekjurnar 18. 3 m. og munar um minna í þeim tölum sem eru uppi á borðum hér.

 Þegar skólinn var yfirtekinn lá fyrir að hægt væri að ná fram ákveðinni hagræðingu í rekstri hans bæði við bókhald og stjórnun.

  Einhverra hluta vegna hefur þetta ekki verið gert og í dag er þetta pínulitla sveitarfélag með 2 gjaldkera í hlutastarfi að möndla með þessar tölur sem sjást hér að ofan. Það eru tveir aðilar að reikna út þau laun sem greidd eru og sá þriðji að greiða hluta þeirra ásamt þeim reikningum sem ekki tilheyra skólanum. Siðan er bókari í hlutastarfi við að bóka inn fylgiskjölin og gera reikninga sveitarfélagsins einn fyrir skólann og annan fyrir annan rekstur.

 Ég held að ekki sé hægt að gera þetta flóknara.

 Það er síðan ámælisvert svo ekki sé sterkar að orði komist, að ávöxtun lausafjárins virðist ekkert hafa verið sinnt. Í stað þess að vera á tánum að fylgjast með og semja um sem hagstæðust vaxtakjör hafa peningarnir 
legið inni á óverðtryggðum reikningum rétt eins og enginn væri morgundagurinn. 

Áhugavert að skoða það mál síðar.

 Það hefur vakið sérstakan áhuga minn að tekin hafa verið upp algjörlega ný vinnubrögð í framkvæmdastjórn sveitarfélagsins.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að þau hafi ekki hvorki þekkst í Eyja eða Miklaholtshreppi sálugu, blessuð sé minning þeirra, né í Eyja- og Miklaholtshreppi, fyrr en nú.

 Oddviti hefur alltaf verið framkvæmdastjóri sveitarfélagsins/félaganna og borið hitann og þungann af þeim framkvæmdum sem í gangi hafa verið eða átt að vera.

Þó framtakssemin og eftirfylgnin hafi kannski verið misjöfn hjá þeim blessuðum.

 Nú er orðið býsna erfitt að átta sig á hver stjórnar hverju en það er þó ljóst að oddvitinn er orðinn hálf utanvelta í því sem verið er, eða á hugsanlega að gera.

 Það virðist t.d. vera búið að  koma á fót nokkurskonar byggðaráði þriggja hreppsnefndarmanna sem funda saman um ákveðin ( eða óákveðin) verkefni. 

 Erindisbréf þeirra er ekkert til, enda ekki gert ráð fyrir slíku í samþykktum sveitarfélagsins. Að öllum líkindum eru ekki skráðir fundargerðir á slíkum fundum og ljóst að þær ákvarðanir sem þar eru teknar koma sterkar inn á sveitarstjórnarfund enda meirihluti sem ber þær fram og nánast formsatriði að bóka niðurstöður slíkra funda.

 Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir óbreitta íbúa að oddvitinn er ekki í þessari 3 manna yfirhreppsnefnd.

 Já , það gæti verið áhugavert að skoða árangurinn af þeirri  fjögurra manna framkvæmdastjórn sem nú virðist fara með stjórnsýsluna ýmist sundur eða saman, eftir svona 2 ár.

 Hvort þetta sé ofstjórn, stjórnleysi eða þarna sé fundin besta leiðin til að sýsla með sveitarsjóð í svona míní sveitarfélagi.

Það er smá geigur í mér með þá niðurstöðu.

 
  

 

    
  

_______________________________________________________________________
14 - 02 -2011.

 Nú tel ég  fullreynt að sveitarstjórnin sé ákveðin í að brjóta rétt á íbúunum með því að auglýsa ekki sveitarstjórnarfundina.  Þannig kemur hún í veg fyrir að þeir  sem áhuga hafa á að fylgjast með afgreiðslu ýmissa málaflokka geti það þrátt fyrir lögbundinn rétt til þess.

 Þessu máli hefur því verið vísað til innanríkisráðuneytisins og hefur verið tekið til meðferðar þar.

Svo er að sjá hvað kemur út úr því?

27 - 01- 2011

  Dag skal að kveldi lofa og mey að morgni, kom mér í hug þegar ég las efstu línuna í síðustu færslu.
Ástæða þess oflofs sem þar kemur fram var eftirfarandi klásúla í íbúabréfi
oddvita.

 
" Stefnt er að því að senda fundargerðir út í tölvupósti eftir hvern fund. Jafnframt senda út fundarboð með drögum að dagskrá, en fyrirvari á því getur verið stuttur. "

 Siðan hafa verið haldnir a.m.k. 3 fundir. Einn var allur lokaður vegna eins liðar á dagskrá.
Annar var ekki boðaður til íbúa ( án nokkurrar vitrænnar skýringar) og sá þriðji sem var boðaður til sveitarstjórnarmanna með tveggja daga fyrirvara var boðaður til íbúa með þriggja tíma fyrirvara með netpósti.

 Að sjálfsögðu er óþarft að taka fram að fundargerðir eru ekki sendar út.

 Með öðrum orðum liggur það skýrt fyrir að oddviti ætlar að halda áfram að hunsa stjórnsýslulög ásamt skýrum samþykktum sveitarfélagsins. Hvað honum og þeim tveim sveitarstjórnarmönnum sem bera ábyrgð á honum í þessu starfi gengur til er mér algjörlega óskiljanlegt.

 Þetta er alveg sérstaklega alvarlegt mál vegna þess að það er fyrsti varamaður í sveitarstjórn sem fer fram á það að stjórnsýslulegur réttur hans sé virtur.

Nú verður styttra í næsta innlegg hér, því það er orðið löngu tímabært að afgreiða útúrsnúning og bull í margnefndu íbúabréfi .


17- 12- 2010

 Nú er allt að færast í rétt horf með fundagerðir og fundarboðun sveitarstjórnafundanna
sem er gott mál. Það er hinsvegar umhugsunarefni að á sama tíma og nágrannar okkar í Borgarbyggð ræða það í fullri alvöru að útvarpa beint frá bæjarstjórnarfundum, hrekkur okkar ágæta sveitarstjórn úr einu víginu í annað til að komast hjá því að fá sveitunga sína í einhverjum tilvikum sem áheyrendur á fundina.

Næstsíðasti fundur var t.d. "allur" lokaður   vegna eins dagskrárliðar sem hugsanlega féll undir trúnaðarmál. Slíks eru engin dæmi í sögu sveitarfélagsins  og trúlega annarra sveitarfélaga, enda brot á stjórnsýslulögum sem kveða með skýrum hætti á um, í hvaða tilvikum fundir skuli lokaðir.

 Rétt er að taka fram að ég persónulega hef aðallega áhuga á að fylgjast með 3 málaflokkum hjá sveitarfélaginu og læt að sjálfsögðu ekki ganga á rétt minn í þeim efnum. 

 Nú styttist í jólin og rétt að bíða framyfir þau að leiðrétta a.m.k. 2 atriði til viðbótar í síðasta íbúabréfi en síðan er vonandi hægt að fara að nota þessa síðu í það sem hún var/er hugsuð til, eins og fram kemur í hausnum hér fyrir ofan.

Ég vil svo þakka þeim fjölmörgu sem stöðugt líta hér við áhugann  og óska þeim Gleðilegra jóla, og að sjálfsögðu árs og friðar

22- 11- 2010

 Áður en ég sný mér að því rétta enn frekar af " rangar fullyrðingar" vil ég vekja athygli á niðurlagi íbúabéfsins sem er svohljóðandi. Leturbreyting er mín.

Stefnt er að því að senda fundargerðir út í tölvupósti eftir hvern fund. Jafnframt senda út fundarboð með drögum að dagskrá, en fyrirvari á því getur verið stuttur. Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að víkja frá þessu þegar lokaðir fundir eru haldnir. Sama á við um fundi boðaða með skömmum fyrirvara. Þessi háttur hefur ekki verið viðhafður áður og aldrei rætt í fyrri sveitarstjórnum, en krafa kom fram um þetta frá fyrrverandi sveitarstjórnarmanni.

 Það er aldeilis afleitt ef sveitarstjórn telur sig hafna yfir samþykktir sveitarfélagsins sem  eru afdráttarlausar.

12. gr.
Oddviti skal hafa sent hreppsnefndarmönnum fundarboð hreppsnefndarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum þannig að þau gögn berist þeim í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir hreppsnefndarfund.
13. gr.
Dagskrá hreppsnefndarfundar skal vera aðgengileg íbúum hreppsins þegar hún hefur verið samin, svo sem á auglýsingatöflu hreppsins, skrifstofu hreppsins á venjulegum afgreiðslutíma eða með öðrum hætti sem hreppsnefndin ákveður.
14. gr.
Oddviti skal senda hreppsnefndarmönnum fundarboð aukafundar í hreppsnefnd þannig að það berist þeim ásamt dagskrá a.m.k. sólarhring fyrir fund.

 Varðandi síðustu greinina er kveðið á um í samþykktum að halda skuli einn fastan fund mánaðarlega  kl. 21.

17-11 2010

Það er frábært að sveitarstjórnin skuli svara kalli tímans og galopna fyrir upplýsingar til okkar óbreyttra. En þetta er ein af kröfum þeirra sem sjá fyrir sér nýtt Ísland þó það gamla virðist ætla að verða býsna lífseigt. Og upplýsandi og gott að fá svona íbúabréf.
Sjá hér  neðar .

Takk fyrir það.

 Það rifjaðist hinsvegar upp fyrir mér við lestur bréfsins  að í ýmiskonar rökræðum í eldgömlu og góðu dagana kom fyrir að mér þótti á mig halla.

Þá greip ég oft til útúrsnúninga eða einhvers bulls.

 Oddviti vísar nokkrum sinnum  í bréfinu í " rangar fullyrðingar " sem komið hafi fram.

Ætla má að þar eigi hann við ýmsar staðreyndir sem ég hef fitjað uppá hér neðar á síðunni.
 Ég mun taka tíma í það síðar (eitthvert kvöldið þegar mér leiðist) að fara yfir þau mál en tek hér eitt dæmi úr bréfinu.

 " Ranglega hefur verið fullyrt að sveitarfélagið hafi lagt hluta verðsins inn sem hlutafé í hitaveitufélagið og lánað afganginn verðtryggt en vaxtalaust. Sveitarfélagið hefur ekkert lagt til hitaveitunnar utan þær 12 milljónir sem framkvæmdirnar voru metnar á sínum tíma." 

  Þarna er oddvitinn að fjalla um aðkomu sveitarfélagsins að Hitaveitu Eyja og Miklaholtshrepps og ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en það sé ekki hluthafi í hitaveitunni.

 Sveitarfélagið á  hinsvegar 33.149 % hlut í hitaveitunni en af því eru 6.630 % vegna Breiðabliks.
Hitt, 26.519 % eignahlutur er vegna hluta af borholuframkvæmdum sem lagt var inn sem hlutafé að nafnvirði 1.600.000 kr.
Afgangurinn af áætluðum framkvæmdakostnaði við borholuna vegna veitunnar  var lánað henni með verðtryggðu en vaxtalausu láni.
Það lán stóð í 16.155.000 kr. um síðustu áramót.

 

 

Íbúabréf 15- 11  (Nú er bara allt að gerast)

Ágætu sveitungar!

 

Sendi ykkur fundargerðir sveitarstjórnar það sem af er þessu kjörtímabili.

Meiningin var að senda út bréf síðla sumars, en þegar ljósritunarvél hreppsins fór að stríða mér varð ekki af því þá. Því sendi ég þetta í tölvupósti núna þrátt fyrir þann annmarka að ekki eru allir nettengdir.

 

Lögum samkvæmt tekur ný sveitarstjórn við 15 dögum aftir kosningar, sem fóru fram 29. maí sl. Víða urðu miklar breytingar á skipan sveitarstjórna. Var það einnig svo hér í sveit.

Einn gaf ekki kost á sér til endurkjörs og tveir aðalmenn úr fyrri sveitarstjórn skipa nú varasæti. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim ágæt störf fyrir sveitarfélagið á liðnum árum, um leið býð ég nýja sveitarstjórnarmenn velkomna til starfa.

 

Fjölmargar hamingjuóskir með kosninguna bárust, bæði til mín og annarra sveitarstjórnarmanna og vil ég þakka fyrir það.

 

Á fyrsta fundinum fór fram kosning oddvita, varaoddvita, skoðunarmanna og í einstaka nefndir. Helsta breytingin var að nýtt fólk var sett í störf skoðunarmanna. Ástæðan er sú að fyrir fjórum árum var þess ekki gætt við kjör skoðunarmanna og varamanna þeirra að sveitarstjórnarmenn, bæði aðalmenn og varamenn eru ekki kjörgengir sem skoðunarmenn. Sama á við um starfsmenn sveitarfélaga og undir það fellur starfsfólk grunnskólanna. Þá eru makar þessara aðila vanhæfir til starfans skv. úrskurði ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Þetta er ástæðan fyrir breytingunni en hefur ekkert með hæfni þess ágæta fólks að gera, sem sinnti starfinu með sóma.

 

FJÁRMÁL:

 

Sveitarfélagið stendur ágætlega fjárhagslega. Engar langtímaskuldir hafa hvílt á sveitarfélaginu síðan mér tókst í minni fyrri oddvitatíð að fá niðurfellt víkjandi lán sem tekið var vegna borunar eftir heitu vatni í Eiðhúsalandi, en sú lántaka og heitavatnsleitin fóru fram fyrir mína tíð sem oddviti.

 

Um hver áramót geta verið skammtímaskuldir. Hægt er að hafa áhrif á þær með því að greiða öll laun, staðgreiðslu og launatengd gjöld vegna desembermánaðar auk reikninga sem borist hafa fyrir áramót.

 

Þá skiptir máli að greiða reikninga og staðgreiðslu ekki síðar en á eindaga ásamt því að ávaxta innstæður sveitarsjóðs með sem hagkvæmustum hætti.

 

Rekstrarforsendur sveitarfélagsins hafa versnað eins og allra sveitarfélaga í landinu, m.a. vegna efnahagsástandsins.

 

 

AÐALSKIPULAG:

 

Unnið er að því að ljúka því máli.

 

VATNSBÚSKAPUR:

 

Settir voru þrír hreppsnefndarmenn í það að kanna þessi mál, þ.e. neysluvatnsmál hjá íbúum, frekari öflun á heitu vatni og með hvaða hætti er hægt að koma til móts við þá íbúa sem ekki tengjast hitaveitu, s.s. með uppsetningu á varmadælum.

Á þeim þurrkasumrum sem verið hafa undanfarin ár hefur borið á vatnsskorti á einstöku bæjum. Sveitarstjórn fannst því rétt að athuga þessi mál og hugsanlegar úrbætur í þeim efnum.

Heitt vatn er takmarkað í Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps. Áhugi hefur verið á því að afla meira vatns og fyrir liggur tillaga jarðfræðings um staðsetningu nýrra hitastigulshola í Eiðhúsalandi ásamt tilboði verktaka í slíka borun. Þetta er undanfari borunar eftir viðbótarvatni. Ekkert hefur verið ákveðið í þessum efnum.

Þær hugmyndir sem uppi hafa verið um boranir eru ekki líklegar til að skila það miklu viðbótarvatni að hægt sé að leggja hitaveitu um alla sveitina auk þess sem kostnaður við það er verulegur. Því hefur verið horft til þess að fá varmadælur í staðinn en þær hafa verið í örri þróun á síðustu árum.

Ljóst er að veruleg áhætta fylgir borunum eins og sást best á þeim borunum sem fóru fram á árunum 2000 - 2001, en fyrstu holurnar gáfu ekkert vatn. Þá fór stór hluti sveitarsjóðs, auk víkjandi láns og styrkja, í þær framkvæmdir þannig að sveitarfélagið hafði ekki bolmagn til frekari borana.

Því var ráðist í það þegar ég tók við starfi oddvita árið 2002 að nýta það vatn sem þegar var til staðar, í næsta nágrenni holanna, í stað þess að láta það renna út í mýrina engum til gagns. Hitaveitufélag var stofnað og setti sveitarfélagið nýtanlegan hluta framkvæmdanna inn í félagið á kostnaðarverði, enda fengi það vatn í Breiðablik án árgjalda.

Ranglega hefur verið fullyrt að sveitarfélagið hafi lagt hluta verðsins inn sem hlutafé í hitaveitufélagið og lánað afganginn verðtryggt en vaxtalaust. Sveitarfélagið hefur ekkert lagt til hitaveitunnar utan þær 12 milljónir sem framkvæmdirnar voru metnar á sínum tíma. Á þessum árum höfðu margir áhuga á að tengjast hitaveitunni en vatnsskortur hamlaði því.

Því velti ég fyrir mér á vordögum 2005 hvort hægt væri að afla meira vatns án áhættu fyrir sveitarfélagið. Ég nefndi það við Ólaf Ólafsson á Miðhrauni hvort hann væri tilbúinn að bora eftir meira vatni á sinn kostnað með nýrri tækni, svokallaðri stefnuborun sem talin var árangursríkust aðferða við borun við svona erfiðar aðstæður. Það var mat jarðfræðings að möguleiki væri á því að ná tugum sekúndulítra með þessari aðferð. Næðist ákveðinn lágmarksárangur við borun, helst ekki minna en þreföldun núverandi vatnsmagns og allt þar framyfir væri plús fyrir hitaveituna, þá fengi Ólafur Laxárbakkann í staðinn. Ólafur var áhugasamur um þetta en málið strandaði á dræmum undirtektum innan sveitarstjórnarinnar.

Ranglega hefur því verið haldið fram að komið hafi tilboð í Laxárbakkann og hann yrði greiddur með borun eftir heitu vatni sem áætlað var að kostaði 15 - 20 milljónir. Sú borun sem þarna var rætt um hefði kostað mun meira. Fyrir tveimur árum fékk Ólafur tilboð í slíka borun á milli 70 - 80 milljónir, en eins og hann sagði sjálfur keypti hann Laxárbakkann fyrir svipað verð án allrar áhættu sem fylgdi borun. En hvort ætli hefði verið betra að fá meira heitt vatn eða eiga peninga á banka eins og nú er þegar vextir eru svo lágir að álitamál er hvort um raunávöxtun er að ræða?

 

SAMEINING SVEITARFÉLAGA:

 

Stefna ráðuneytis sveitarstjórnarmála og Sambands ísl. sveitarfélaga hefur verið sú að stækka sveitarfélögin og fækka þeim. Nýr ráðherra sveitarstjórnarmála hefur lýst yfir að hann muni ekki þvinga fram sameiningu með lögum. Engu að síður verður unnið að þessu áfram. Þar skiptir verulegu máli að tryggja stöðu Laugargerðisskóla líkt og gert var í sameiningarviðræðum 2004 - 2005.

Ég kannast ekki við að hafa verið deigur í baráttunni fyrir Laugargerðisskóla. Ekki kannast ég, eða annað sveitarstjórnarfólk á Vesturlandi, heldur við fund um framtíðarskipulag grunnskóla á Vesturlandi, en fullyrðingar hafa komið fram um að slíkur fundur hafi verið haldinn og miður heppileg ummæli tveggja sveitunga okkar á þeim meinta fundi gagnvart framtíð Laugargerðisskóla.

Ein af meginforsendum fyrir búsetu í sveitum er góður grunnskóli og mun sveitarstjórnin gera sitt til að svo megi vera.

 

LOKAORÐ

 

Stefnt er að því að senda fundargerðir út í tölvupósti eftir hvern fund. Jafnframt senda út fundarboð með drögum að dagskrá, en fyrirvari á því getur verið stuttur. Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að víkja frá þessu þegar lokaðir fundir eru haldnir. Sama á við um fundi boðaða með skömmum fyrirvara. Þessi háttur hefur ekki verið viðhafður áður og aldrei rætt í fyrri sveitarstjórnum, en krafa kom fram um þetta frá fyrrverandi sveitarstjórnarmanni.

 

Með bestu kveðjum til ykkar allra

 

Hjarðarfelli 15. 11. 2010

Guðbjartur Gunnarsson

 

 

3-11-10
 Það er verðið að vinna að upplýsingarmarkmiðum síðunnar og vonandi fara hlutirnir að skýrast fljótlega.


10-10
                    SKULDASTAÐA SVEITARFÉLAGA. (aðeins  20 skuldminnstu.)

 Þessi niðurstaða er skemmtileg og gengur í dálítið aðra átt en lygarógurinn sem komið var á flot fyrir síðustu kosningar um fjármálaóreiðu á sveitarsjóð.

  
STUNDUM GETUR VERIÐ SKEMMILEGT AÐ VERA SÍÐASTUR/NEÐSTUR Á AFREKALISTANUM.



   11-09.2010.                                 Hroki og yfirlæti.

 Það er mjög skýrt í sveitarstjórnarlögum hvernig boða skuli sveitarstjórnarfundi, þannig að áhugamenn um framkvæmd lýðræðisins geti fylgst með gangi mála smbr. klásúluna hér neðar.
 Í Samþykktum Eyja og Miklaholtshrepps er jafnframt kveðið skýrt á um það sama.

 Þrátt fyrir tölvupóst og samtöl frá a.m.k 2 aðilum hefur oddviti og sveitarstjórn algjörlega hunsað þessu skýlausu ákvæði það sem af er kjörtímabili.

 Þetta er ákaflega dapurlegt dæmi um valdhroka og yfirlæti gagnvart íbúum sveitarfélagsins, þó það komi í sjálfu sér ekki á óvart miðað við feril oddvitans í umgengni við stjórnsýslulögin. Nú hafa verið haldnir a.m.k. 4 hreppsnefndarfundir án lögmætrar boðunar. Það er ekki góður fyrirboði um komandi kjörtímabil ef almennir íbúar verða að ná fram sjálfsögðum mannréttindum gagnvart sveitarstjórn með stjórnsýslukærum.

    Það virðast þó vera ýmsir áhugaverðir hlutir í gangi ef einstakir sveitarstjórnarmenn eru farnir að bjóða íbúum nærliggjandi sveitafélaga heitt vatn til afnota úr væntanlegri
borun.??

Já, nú stefnir því í bréfaskriftir ef bæði þarf að senda stjórnsýslukæru og kalla eftir fundargerðum leynifundanna.
 
En þá fer kannski að komast hreyfing á þessa síðu mína.

 Rétt er að taka fram vegna allra þeirra sem kíkja hér reglulega inn, að ofanritaður ásetningur um uppfærslu síðunnar er í fullu gildi. Hinsvegar fer engum sögum af  störfum sveitarstjórnar sem annaðhvort boðar ekki til funda með löglegum hætti eða heldur enga fundi. Ekki hafa heldur verið sendar út upplýsingar um nefndarkjör


Íbúum sveitarfélags skal kunngert með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.
Sveitarstjórn skal í upphafi kjörtímabils taka ákvörðun um hvernig fundir hennar eru auglýstir og með hvaða fyrirvara. Skal sú ákvörðun kynnt íbúum sveitarfélagsins með tryggum hætti, t.d. í dreifibréfi eða auglýsingu í staðbundnu fréttablaði.
Miðað skal við að sem flestir íbúar sveitarfélags hafi greiðan aðgang að auglýsingu um sveitarstjórnarfundi.
Þegar dagskrá sveitarstjórnarfundar hefur verið samin og send sveitarstjórnarmönnum skal hún vera aðgengileg íbúum sveitarfélagsins, svo sem á auglýsingatöflu sveitarfélagsins, skrifstofu sveitarfélagsins á venjulegum afgreiðslutíma eða með öðrum hætti er sveitarstjórn ákveður.

 En þetta hlýtur allt
að koma. 

14. 07."10.
                           Laxárbakkasala, heitavatnsborun og Hitaveita E. - og  M.

 Það hafði legið fyrir lengi að Laxárbakkinn yrði seldur í fyllingu tímans.
Meðan hlunnindatekjurnar gáfu ásættanlega  ávöxtun á þann pening sem talinn var liggja í jörðinni var ástæðulaust að flýta sér að því.
 Yfirvofandi sameining sveitarfélagsins við önnur, hefði þó átt að halda mönnum á tánum að losa þetta fjármagn í tíma.
 Það var nokkur áhugi á þessari sérstæðu jörð og í minni oddvitatíð bárust nokkrum sinnum fyrirspurnir um jörðina.
  Á næstsíðasta kjörtímabili bárust tvö kauptilboð í Laxárbakkann sem voru rædd í sveitarstjórn með óformlegum hætti.
 Það fyrra var upp á ákveðna upphæð frá ótilteknum kaupanda gegnum lögfræðing.
Það var full samstaða um það að hafna þessu tilboði og auglýsa jörðina þegar kæmi að sölu.
 Þrátt fyrir þetta sá oddviti ástæðu til þess að reifa annað tilboð talsvert seinna frá tilgreindum kaupanda.
Þar var díllinn sá að kaupandinn greiddi jörðina með borun eftir heitu vatni á Eiðhúsum.
Þá hafði verið í sveitarstjórn umræða í nokkurn tíma að bora eftir vatni og lágu fyrir áætlaðar kostnaðartölur í það, upp á 15 - 20 .000.000.
Ekkert kom fram um nánari útfærslu á þessu tilboði.
 Eftir afdráttarlausa andstöðu eins nefndarmanns var málið ekki rætt frekar og urðu menn miskátir með þau málalok.

 Þegar ég heyrði ávæning af þessu fór ég að velta fyrir mér þörf fyrir heitavatnsborun.
Það var búið að stofna  Hitaveitu um það vatn sem upp hafði náðst og leggja hitaveitu um langhagkvæmasta  hitaveitusvæði  gamla Miklaholtshreppsins.
 Hitaveitunni var lokað með hlutafélagasamningi og þannig frá gengið að afar litlar líkur eru á útvíkkun hitaveitunnar þó meira vatn náist.
 Einfaldlega vegna þess að stofngjöld nýrra félaga yrðu tvöfalt eða margfalt hærri en í upphafi vegna hagkvæmniforgjafar upphaflegra stofnaðila.
Hafi því verið haldið fram af einhverjum, við stofnun hitaveitunnar að hún yrði bara stækkuð næðist meira vatn, hefur viðkomandi farið ansi frjálslega með staðreyndir.

Ég ætla ekki að segja að sú ákvörðun að fara af stað með hitaveituna hafi verið óskynsamleg á þessum tíma.
Heldur ekki að  hún verið skynsamleg.
Staðreyndin liggur hinsvegar fyrir og menn verða einfaldlega að horfast í augu við það.

Hafi einhverjum dottið í hug að setja milljónatugi í borun án þess að nokkuð lægi fyrir um nýtingarmöguleika er það vægast sagt, óhugnanlega þröng sýn á hagsmuni íbúanna.

Hitavatnsréttindin eru óumdeilanlega gríðarlega verðmæt eign í hækkandi orkuverði og orkuþörfin ásamt síaukinni þekkingu og bættri tækni við boranir munu verða til þess að þessi orkupottur mun verða nýttur í fyllingu tímans.

Eftir skoðanaskiptin um þetta borunartilboð í Laxárbakkann, var  ekki minnst á frekari sölu  jarðarinnar það sem eftir lifði kjörtímabils.

 Fljótlega á síðasta kjörtímabili var svo tekin samhljóða ákvörðun um að setja jörðina á sölu hjá viðurkenndum fasteignasala.
Sett var ofurverð á jörðina og og að lokum, stóðu eftir tveir áhugasamir tilboðshafar.
Það er ljóst að oddvitanum tókst að halda virkilega vel á málinu til enda og landað var sölu sem var langt umfram væntingar ýmissa " hollra " ráðgjafa.

 Vaxtatekjurnar af jarðaverðinu fyrsta árið eftir sölu var vel yfir 10.000.000.kr.
 Veiðitekjurnar af jörðinni fyrir sölu var vel innanvið 300.000. kr á ári.

   24- 06- 2010                  Slakur verkstjóri eða ......?

Ég datt ungur inn í sveitarstjórnarmálin.

Og varð oddviti óþarflega fljótt.

 En fullur áhuga á sveitarstjórnarmálunum og fannst bara gaman að fundunum þó það ætti eftir að breytast.

 Bókhaldið var þó það sem fór mest í mínar fínustu og reið baggamuninn þegar ákvörðun var tekin um  að þetta væri gott og best að hætta.

 Þar að auki fannst mér alltof  margir fundanna vera algjörlega tilgangslausir.

Og það var töluverður léttir að losna útúr þessu, geta snúið sér að öðrum áhugamálum og  virt málaflokkinn  fyrir sér úr hæfilegri fjarlægð.

Síðan eru liðin 4 kjörtímabil.

Það var á öðru kjörtímabili  frísins, sem  gangur mála hjá sveitarstjórninni fór að fara í pirrurnar á mér.

Og alltaf bætti heldur í.

Ég hitti kunningja minn, Borgfirðing,  úr sveitarstjórnabransanum.
Hann hafði þá nýlega setið fund um framtíðarskipulag grunnskóla á Vesturlandi þar sem tveir sveitungar mínir hefðu m.a. mætt.

 Hann sagði mér að þeirra innlegg á fundinn hefði verið að allt benti til þess að Laugargerðisskóli yrði aflagður innan einhverra ára vegna fækkunar nemenda.

 Þessi gamli baráttujaxl í dreifbýlismálum sagði að fundarmenn hefðu nú bara litið hver á annan við þessar yfirlýsingar.

 Við vorum báðirr  þeirrar skoðunar að grunnskólinn sé það vígi sem dreifbýlið á að verja meðan stætt er.
 Það er rétt að vera vel inn í þróun skólans og vera undirbúinn dýfum í nemendafjölda og hvernig bregðast eigi við þeim.

En að koma af stað umræðu um hugsanlega lokun er vont. Bæði gagnvart starfsfólki . foreldrum, nemendum og yfirhöfuð fyrir svæðið í heild.

 Það á að berjast og tapist baráttan er sest niður og unnið úr því.

Annað mál af sama meiði var leikskólinn.

 Nýtingin á honum  var lítil því þessi börn á leikskólaaldri voru kannski að mæta 1 - 2 daga í viku sem þýddi afleita nýtingu.

Þó leikskólagjaldið væri bara á svipuðu róli og gerðist í þéttbýli  voru þetta upphæðir sem skipti máli fyrir ungu foreldrana í sveitinni.
Eftir klúður í rekstraruppgjöri drógu a.m.k. einir foreldrar svo börn sín útúr leikskólanum.

 Það var ekki af illvilja eða nísku sem sveitarstjórnin gerði ekkert í málinu heldur af einhverju áhugaleysi á málaflokk sem mér fannst vera eitt af fjöreggjum sveitarinnar.

 Það kom svo ekkert á óvart að þegar ég rétt impraði á því, nýendurreistur í hreppsnefnd, að hafa leikskólann gjaldfrjálsan, þá  var það samþykkt nánast umræðulaust.

 Það voru blikur á lofti um sameiningu sveitarfélaga og mér fannst að það þyrfti að drífa í ákveðnum hlutum í því sambandi.
Það stressaði þó greinilega ekki  sveitarstjórnarmennina mína.
Verkefni sem þó  fóru inn á framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun voru þar óunnin rétt eins og enginn væri morgundagurinn.

Og það var sitthvað fleira, því þegar menn verða fúlir er allt tínt til.

 Jarðeign sveitarfélagsins, Laxárbakki  hafði staðið undir sér með hlunnindatekjum meðan jarðarverð var lágt. Nú voru breyttir tímar, jarðarverð komið upp úr öllu valdi og ávöxtun innistæðna líka.

Þó söluverð jarðarinnar væri óljóst var þó hverjum manni ljóst sem þekkti til þessara mála að sveitarfélagið væri að tapa 5 -10 milljónum á ári að liggja með jörðina óselda.

 Ég ákvað semsagt að reyna að komast inn í sveitarstjórn að nýju eftir þriggja kjörtímabila hvíld og hrista aðeins upp í málunum.

Og gerði það.

 

Blogg skrifað 9.6.2010 kl. 21:49 af svanur

Eyja og Miklah.hr. Krassandi kosningar.

 Hér í sveitinni hefur verið óhlutbundin kosning eða persónukjör lengur en elstu menn muna.

Þessi útfærsla á lýðræðinu hefur bara virkað ágætlega, og þó það séu aldrei allir sáttir við niðurstöðurna þá hefur þetta ágæta sveitarfélag/félög gengið bara þokkalega bæði fyrir og eftir sameiningu.

   Sumir kjósa með ýmis sanngirnissjónarmið að leiðarljósi, til að fá sem mesta dreifingu á milli manna og málefna. Aðrir sameinast um að ná inn þessum eða hinum  og sumir hafa húmorinn í hávegum og setja ólíklegustu nöfn á seðilinn sinn.

 Ég minnist þess til dæmis í denn, þegar allt í einu var settur niður grunnskóli í Eyjarhreppinn og talsverður hópur nýbúa var sestur að í bændasamfélaginu, þá myndaðist mikil samstaða um það í sveitinni, að skólinn skyldi eiga a.m.k. einn fulltrúa í sveitarstjórn, og var svo lengi.

 En nú er árið 2010 og allt að breytast í sveitinni eins og annars staðar.

 Þegar talið var uppúr kjörkassanum þá kom allt í einu í ljós að búinn hafði verið til alvöru listi í sveitinni. Hann hafði þó ekki verið kynntur nema hæfilegum hluta íbúanna enda vitum við það í sveitinni að sígandi lukka er best og rétt að taka ekki of stór skref í einu.

 Þeir sem stóðu að Miðhraunslistanum höfðu erindi sem erfiði og náðu inn þeim mönnum sem að var stefnt og tóku síðan með sér í leiðinni þann fjórða, sem kom það mjög á óvart að vera allt í einu kominn á fullskipaðan list.

 Það voru tveir hópar sem sem tóku sig saman með þessum fína árangri .

Annarsvegar Hjarðarfellsættarlínan í sveitinni og aðilar tengdir henni. Þeirra fulltrúar eru þeir Þröstur á Stakkhamri og Guðbjartur á Hjarðarfelli.

Hinsvegar fjölskyldan á Miðhrauni ásamt starfsmönnum fiskverkunarinnar þar. Þeirra fulltrúi í sveitarstjórn er Sigurður á Miðhrauni og ljóst að þeim listamönnum hefur að sjálfsögðu þótt það löngu tímabært að koma honum inn úr kuldanum.

 Ég get alveg fallist á það með þeim félögum að litlu skipti þó 4 fulltrúanna séu allir úr sama horni sveitarfélagsins og sama hvaðan góðir sveitarstjórnarmenn koma. Og allir eiga að geta sameinast um góða hluti. 

 Komi upp einhver ágreiningsmál er hinsvegar vont að þræðirnir eða baklandið liggi þröngt á sama blettinum.

 Það er tvennt sem mér líst ekki nógu vel á hjá þessum ágætu sveitungum mínum.

Annarsvegar eru atriði sem ég mun ekki ræða hér. Ef/þegar þau poppa upp á kjörtímabilinu mun verða fjallað um þau annarsstaðar hér á heimasíðunni.

 Hinsvegar finnst mér það dálítið mikið óheppilegt að af þessum 4 fulltrúum Miðhraunslistans og 5 hreppsnefndarmönnum, eru 3 hluthafar í Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps. Rétt er þó að ítreka það að einn þessara hluthafa , Hrefna á Vegamótum, er þarna í boði þeirra félaga og ef ég þekki hana rétt, er hún kannski ekki mjög hamingjusöm með þessa óvæntu þróun mála.

 Í sveitarfélaginu eru reknar 2 hitaveitur. Hitaveitan Kolviðarnes sf.  sem er í Eyjarhreppnum var alfarið komið upp og rekin  af eigendum sínum án nokkurra styrkja frá sveitarfélaginu.

 Um hina veituna, sem er álíka að stærð gegnir öðru máli.

 Sveitarfélagið boraði eftir vatni, virkjaði það og lagði að borholunni, veg og rafmagn.

Þegar Hitaveita Eyja og Miklaholtshrepps var stofnuð var búið til sanngjarnt verð á þessar framkvæmdir.

Sveitarfélagið lagði síðan hluta verðsins inn í félagið sem hlutafé en lánaði félaginu afganginn.

Ég er algör talsmaður þess að sveitarfélög komi að þjóðþrifastarfsemi eins og lagningu hitaveitna.
En  ég er líka algjör andstæðingur þess að sveitarstjórnir mismuni þegnum sínum.

 Það getur verið ákaflega óheppilegt þegar stjórnarformaður hitaveitufyrirtækis, sem er að semja um lán og lánakjör, og oddvitinn séu  einn og sami maðurinn.

 Og  enn óheppilegra þegar 2 hluthafar  til viðbótar eru í sveitarstjórninni sem samið er við.

Rétt er þó að taka fram að ég tel fullvíst að hluthafar hafi gætt góðra stjórnsýslureglna og vikið sæti við afgreiðslu þessara mála.

 En það var líka  afleitt og raunar grafalvarlegt í þessari stöðu,  þegar skautað var framhjá góðum almennum bókhaldsreglum um skýr skil á milli sveitarsjóðs og framkvæmda við eitthvað hf. félag út í sveit.

Þannig var það þegar  þessari ágæta hitaveitu var komið á koppinn og nú er verið að endurvekja þessa óheppilegu stöðu.

Fyrrnefnt lán var til ótiltekins tíma, að vísu með verðtryggingu en vaxtalaust.

Það vefur þó miskunnarlaust upp á sig og mér finnst það vera að vaxa hitaveitunni yfir höfuð.

Vaxtaeftirgjöfin á sl. ári gæti hafa verið hátt í 1.000.000 kr en hefur væntanlega verið 2 til 3 sinnum hærri þegar okurvextirnir stigu sem hæst á skerinu.
Þetta er álíka upphæð og við Kolviðarnesmenn eru að reka hitaveituna okkar fyrir árlega.

 Ég var þó, og er reyndar enn þeirrar skoðunar að grípa þyrfti til sértækra aðgerða til að loka þessu skuldamáli með þolanlegum hætti fyrir alla aðila, sérstaklega ef koma mun til sameiningar sveitarfélagsins við önnur..

Til þess að það sé hægt, þarf að nást um það góð samstaða bæði í sveitarstjórn og í samfélaginu.

Þessi samþjöppun á sveitarstjórninni inná hitaveitusvæðið er ekki jákvætt innlegg í þá lausn.

 Þó mér komi það ekki beint við, finnst mér að Guðbjartur á Hjarðarfelli skuldi félögum sínum, hinum almennu notendum veitunnar, skýringu á því, hversvegna hann tók þá ákvörðun í aðdraganda kosninga, að slá út af borðinu möguleikum á slíku samkomulagi á þessu kjörtímabili.

Rétt er að taka fram að þeim sem gera vilja athugasemdir við þessa söguskýringu mína, geta hvort heldur sem er, sett þær inn í athugasemdir hér fyrir neðan eða sent mér tölvupóst. Sé það gert mun sá póstur verða birtur neðanmáls við þetta blogg.

Í guðs friði.emoticon

 

                                             Ný sveitarstjórn tekin við.

       Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldinn að Breiðabliki í dag 14 júní..

          Nýr oddviti Guðbjartur Gunnarsson var kosinn með 3 atkvæðum.

Skipað var í nefndir og ráð sveitarfélagsins.

Þarna var m.a. sett upp fræðslunefnd til að fjalla um gunnskólamálin ofl.

Í hana voru kosin . Guðríður Pétursdóttir, Katrín Gísladóttir og Eggert Kjartansson.
                               Ekki liggur fyrir erindisbréf nefndarinnar.

Fráfarandi oddviti mætti á fundinn og setti nýju hreppsnefndina inn í þau mál sem eru í gangi.

 Þar er efst á borðinu frágangur á leiksvæði skólans með lagfæringu á plani og uppsetningu þeirra tækja sem til eru. Þá verður keypt lítið krakkakot á völlinn og komið upp girðingu kringum hann . Þessu á að vera lokið fyrir veturinn.

 Síðuhöfundur óskar sveitarstjórninni til hamingju með þennan áfanga og nýkjörnum oddvita með verkstjórnarstarfið.

 Þarna eru á ferðinni öflugir einstaklingar og nái þeir vel saman um hagsmunamál fyrir heildina eru við
íbúarnir í góðum  málum. 
                         
                                     Íbúabréf frá Eggerti Kjartanssyni.

 

Ágætu íbúar. 

Nú að loknum kosningum taldi ég rétt að senda ykkur nokkrar línur en ég hef verið í hreppsnefnd síðan 1994. Að loknum kosningum 2006 komu tveir nýir inn í hreppsnefnd sem báðu mig að taka að mér að vera oddviti og gerðu mér ljóst að það yrði tekist á í hreppsnefnd ef ég ekki tæki þetta að mér. Þeir voru með ákveðnar hugmyndir um að farið yrði með markvissum hætti í ýmsar aðgerðir og verkefni til að tryggja sem best hagsmuni íbúanna áður en til frekari sameiningar sveitarfélaga kæmi og voru með mótaðar hugmyndir í þeim efnum. ( leturbr. síðustjóra)  Það sem réði úrslitum hjá mér var að ég taldi betra að vera umdeildur fyrir eigin verk en standa alltaf á milli manna og miðla málum.

 

Margt er búið að  gerast á síðustu 4 árum og miklar sveiflur í okkar umhverfi, nágrannasveitarfélög farið úr að vera í góðri fjárhagslegri stöðu í mjög slæma, tapað peningum og skuldir hækkað. Árin 2008 og 2009 voru erfið og ekki sjálfgefið hvernig þau myndu þróast fyrir okkar sveitarfélag, var mikið í sambandi við starfsfólk Sparisjóðs Mýrasýslu sem og ráðamenn þjóðarinnar til að geta sem best gætt að eignum sveitarfélagsins.

 

Okkar sveitarfélag hefur ávalt haft góða stjórn á peningamálum og í lok árs 2005 var í sjóði okkar 204 þusund á íbúa, lok árs 2006 340 þúsund á íbúa. Það var mikill léttir fyrir mig að á þessum umbrotatímum var hægt að verja og auka eignir okkar með þeim hætti að í lok árs 2008 og 2009 eigum við í sjóðum um eina miljón á íbúa og engar skuldir en það gerir okkur að eitt af best stöddu sveitarfélögum landsins fjárhagslega ásamt því að vera í ýmsum framkvæmdum. Eigið fé í árslok 2005 var 77.3 milj þar af handbært fé 28.9 milj. Í lok árs 2009 var eigið fé 199.8 milj Þar af handbært fé 141.6 milj. Er ég mjög ánægður með að skila af mér sveitarfélaginu í þessari stöðu og að við höfum náð að framkvæma marga hluti fyrir íbúa á þessum árum.

 

Það er hins vegar þannig í mínum huga að ríkidæmi Eyja og Miklaholtshrepps fellst fyrst og fremst í þeim mannauð sem er í sveitarfélaginu, gott og blessað að eiga peninga, en mannauðurinn er það sem skiptir okkur öllu máli og hvernig við virkjum hann til góðra verka.

 

Kosningar eru verkfæri lýðræðisins til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við að meta hvernig kjörnir fulltrúar hafa sinnt sínum verkum. Það má öllum vera ljóst og þá sérstaklega mér að þegar ég fæ 33 atkvæði af 90 greiddum þá er það skýr vilji íbúa hér í sveit að minna starfskrafta er ekki óskað í sveitarstjórnarmálum. Virði ég að sjálfsögðu ykkar vilja og geri það með bros á vör um leið og ég óska nýkjörnum hreppsnefndarmönnum til hamingju með kjörið og velfarnaðar í störfum fyrir íbúa sveitarfélagsins.

 Mikilvægt er að við hlúum að okkar samfélagi í sátt og samlindi og eflum hvort annað til góðra verka.

 Með kærri kveðju,

 Eggert Kjartansson

Hofsstöðum.

 Eins og fram kemur hér að ofan var lagt upp með verkefnalista í upphafi síðasta kjörtímabils. sjá hér neðar. Nánar verður farið yfir hvernig þeim reiddi af en óhætt er að segja að kúvending varð á framkvæmdum og jafnframt á rekstri sveitarfélagsins eins og kemur fram í afkomutölum hér fyrir ofan.

 

 

                  

          Nokkrir punktar um verkefnalista komandi kjörtímabils.(Upphaf kjörtímabils 2006.)

 

Grunnskóli.

 

A.     Leita eftir samningi við Borgarbyggð um rekstur næstu ára.Í framhaldi af því yrði allra leiða leitað til  að tryggja varanlegan grunnskóla  á sunnanverðu nesinu m.a. yrði leitað eftir viðræðum við Snæfellsbæ um málið.

 

 

Framkvæmdir.

 

1.Tímasetja ljósastauraframkvæmd.

 

2.Kanna kostnað við lagningu bundins slitlags á plön við íbúðarhús(félagsheimili)

   og slitlag á vegi 1-200 metra næst þeim.

 

3.Hitavatnsleit.Kannaðir verði hvaða kostir eru í stöðunni við leit að meira vatni.Þegar þeir liggja fyrir ásamt kostnaðaráætlun verði málið kynnt á íbúafundi ,þar sem leitað yrði eftir viðhorfum íbúa til málsins.

 

4.Taka sem fyrst ákvörðum um hvort skynsamlegt sé að selja Laxárbakkann t.d. til fjármögnunar á einhverjum framkvæmdum sem gæti nýst íbúum svæðisins til langs tíma.

 

5.Ljúka aðalskipulagi

 

6. Koma á örgjörvasambandi á árinu

 

 

Annað.

 

1.  Marka stefnu sveitarfélagsins gagnvart hitaveitunum.Á það að eiga aðild að þeim eða ekki.?

 

2.Rafmagnssparnaður vegna dýrrar orku .Ef áhugi væri hjá íbúum gæti sveitarfélagið staðið að könnun á orkunotkun og hvort hægt væri að ná fram orkusparnaði með einhverjum aðgerðum sem gætu verið styrktar af sveitarfélaginu.??

 

3.Leikskóli festur í sessi og niðurgreiðslur vegna hans auknar.

 

4. Sveitarfélagið stendur nú á krossgötum eftir sameiningu Kolbeinstaðarhrepps og Borgarbyggðar. Stefnt verði að a.m.k 2 almennum fundum á kjörtímabilinu helst árlegum

þar sem m.a. yrði farið yfir það sem á döfinni er og  framtíðarhorfum velt upp.

 



 

 

 

  Eyja- og Miklaholtshreppur  er dæmigert dreifbýlissveitarfélag á sunnanverðu Snæfellsnesi og telur um 130 - 140 íbúa. Þar er Laugargerðisskóli  staðsettur  en þangað sækja jafnframt börn úr Kolbeinsstaðarhrepp í Borgarbyggð.
Þjónustumiðstöðin á Vegamótum er vestarlega í sveitinni.
Auk hefðbundins búskapar eru tamningar og hrossarækt að festa sig í sessi í sveitinni, en þar hafa verið byggðar upp myndarlegar hestamiðstöðvar sem eru að skapa nokkur ársstörf.

Hér munu verða birtar fundargerðir  sveitarstjórnar, og stjórnar Laugargerðis ásamt ýmsum fréttum af framkvæmdum á vegum hreppsins.+

Áttundi fundur 2010 var haldinn að Breiðabliki 26. maí kl. 21:00.

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson og  Jón Oddsson.

 

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

 

Dagskrá:

 

Til afgreiðslu:

1.      Ársreikningur Laugargerðisskóla lagður fram. Hann var síðan samþykktur athugasemdalaust.

2.      Ársreikningar sveitarfélagsins v/2009 seinni umræða. Farið yfir athugasemdir frá síðasta fundi. Eftir nokkrar umræður var reikningurinn samþykktur samhljóða.

Helstu niðurstöðutölur;

·        Rekstrartekjur            kr. 68.619.027,-

·        Rekstrargjöld             kr. 81.647.964,-

·        Fjármagnstekjur        kr. 16.686.089,-

·        Hagnaður ársins        kr. 3.657.152,-

 

Eigið fé                                   kr. 199.876.738,-

Eigið fé og skuldir samtals    kr. 201.525.406,-

 

3.      Kjörskrá lögð fram. Engar athugasemdir hafa komið fram og var kjörskráin samþykkt. Á kjörskrá eru 51 karl og 46 konur samtals 97.

4.      Bréf frá starfsmönnum Laugargerðisskóla og varðar leiksvæði og lóð skólans. Samþykkt að fá fagaðila að hanna leiksvæðið  þannig að hægt verði að koma lagi á leiksvæðið fyrir veturinn.

5.      Málefni DAB. Fyrir fundinum lá tölvupóstur frá Borgarbyggð um framkvæmd á byggingu hjúkrunarheimilis við DAB og síðan rekstur þess. Var óskað eftir viðræðum um framkvæmdirnar. Samþykkt að fara í þessar viðræður.

 

Til kynningar:

1.      Fundarboð um nefnd vegna málefna fatlaðra og myndun þjónustusvæða.

 

Önnur mál.

1.      Samþykkt að sækja um framlag úr styrkvegasjóði til að lagfæringar á veginum að Rauðamelskirkju og að plani við Rauðamelsölkeldu.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

 

Svanur Guðmundsson            ( sign )

Guðbjartur Gunnarson           ( sign )

Halldór Jónsson                      ( sign )

Jón Oddsson                           ( sign )

Eggert Kjartansson                 ( sign )



                   Fundargerðir  sveitarstjórnar árið 2010/09.

Sjötti  fundur 2010 var haldinn að Breiðabliki 26. apríl kl. 21:00.

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson,  Jón Oddsson, Kristín Björk Guðmundsdóttir skólastjóri og Sigrún Ólafsdóttir reiknishaldari skólans.

 

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

 

Svanur ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

Skólamál:

1.      Viðhald Laugargerðisskóla og lóðar.

·        Tilboð í gólf og veggi í eldhúsi skólans með epoxy efni. Samþykkt að taka þessu tilboði í gólfið og athuga með að setja efnið á sturtur í herbergisálmum.

·        Fyrir fundinum lágu þrjú tilboð í eldhúsborð úr stáli. Samþykkt að taka tilboði Blikksmiðju Guðmundar að upphæð kr. 625.893,-

·        Stefnt að því að stækka leikvallarstæðið, jafna það og hækka að mön. Stefnt að því um miðjan maí.

 

Fleira ekki gert vegna skólahalds og þessar bókanir lesnar upp og samþykktar, síðan yfirgáfu áheyrnarfulltrúar fundinn.

 

Kristín Björk Guðmundsdóttir

Sigrún Ólafsdóttir

 

Fundargerðir:

1.      Fundargerð aðalfundar DAB frá 20. Apríl.

2.      Fundargerð frá fundi um eflingu á sveitarstjórnarstiginu frá 29.03

3.      773 fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

4.      Fundargerð stjórnar SSV frá 13.04

5.      14. Fundargerð skipulags og byggingarnefndar frá 20. Apríl. Fundargerðin samþykkt.

6.      Fundargerð skólanefndar Fjölbrautaskóla Vesturlands frá 13. Apríl.

 

Til afgreiðslu:

1.      Tilboð í stóla fyrir Breiðablik. Afgreiðslu frestað.

2.       Beiðni um styrk vegna útgáfu af Snæfellskortinu kr. 50.000,-. Beiðnin samþykkt.

3.      Bréf frá Þórði og Áslaugu á Syðra Lágafelli og varðar lóð undir ræktunarstöðina. Samþykkt að skoða málið með þeim.

 

Til kynningar:

1.      Ársreikningar SSV

2.      Ályktun frá Lögreglufélagi Vesturlands

3.      Bréf frá Þjóðskrá.

4.      Fundarboð á aðalfund Menningarráðs Vesturlands 5. Maí

5.      Bréf dagsett 16. Mars frá Skipulagsstofnun og varðar greiðslu vegna aðalskipulags.

6.      Bréf dagsett 19. Mars frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga og varðar endurgreiðslu á hækkuðu tryggingargjaldi.

 

Önnur mál:

·        Nettenging. Oddviti fór yfir stöðuna en verið er að setja upp öflugri sendi að Brúarási. Oddvita falið að ýta á eftir lokum málsins.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið.

 

Svanur Guðmundsson

Guðbjartur Gunnarsson

Halldór Jónsson

Jón Oddsson

Eggert Kjartansson

 



Fimmti  fundur 2010 var haldinn að Breiðabliki 15. febrúar kl. 21:00.

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson og  Jón Oddsson. Einnig voru mættir áheyrnarfulltrúar í skóla og fræðslunefnd Laugargerðisskóla þau Kristín Guðmundsdóttir skólastjóri, Sigrún Ólafsdóttir gjaldkeri, Sigurður Jónsson fulltrúi kennara og Sigríður Sigurðardóttir fulltrúi skólaráðs.

 

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Svanur ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

1.      Skóladagatal. Skólastjóri kynnti skóladagatal sem var lagt fram til umræðu og samþykktar. Eftir nokkrar umræður var skóladagatalið samþykkt eins og það var lagt fyrir.

2.      Viðhald Laugargerðisskóla og lóðar. Farið yfir framkvæmdatillögur en nú var búið að setja verð á ýmsa framkvæmdahluti. Samþykkt að fara að vinna við leikvöll, keyra möl og setja niður leiktæki. Oddvita falið að athuga með smáhýsi. Dæla yrði sett niður í borholu sem fyrst. Svanur og Halldór sjá um það.

3.      Reikningar v. fæðis í Laugargerðisskóla. Reikningshaldari fór yfir málið, samþykkt að endurskoða greiðslukerfi vegna fæðisreikninga. Sigrún gerir tillögu um það fyrir næsta fund.

 

Þessar bókanir lesnar upp og samþykktar, síðan yfirgáfu áheyrnarfulltrúar fundinn.

 

Sigríður Jóna Sigurðardóttir

Sigurður Jónsson

Kristín Björk Guðmundsdóttir

Sigrún Ólafsdóttir

 

 

Fundargerðir:

1.      772. Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2.      Fundargerð aðalfundar Ferðamálasamtaka Vesturlands.

3.      Erindisbréf  Framkvæmdaráðs Snæfellsnes.

4.      Fundargerð Framkvæmdaráðs Snæfellsness frá 8. mars

5.      Fundargerð samgöngunefndar SSV frá 12. mars

6.      Fundargerð aðalfundar héraðsnefndar

7.      Fundargerð skólanefndar Fjölbrautarskóla Vesturlands frá 24. febrúar.

 

Til afgreiðslu:

1.      Ferðablað Vesturlands 2010, beiðni um auglýsingu. Samþykkt.

2.      Greinargerð um heimilisiðnaðareldhús að Breiðarbliki. Samþykkt að fara í málið

3.      3. ára fjárhagsáætlun 2011-2013, seinni umræða. Áætlunin samþykkt eftir nokkrar umræður.

4.      Staðan vegna DAB kynnt.

 

 

 

Til kynningar:

1.      Ársreikningur Sorpurðunar Veturlands fyrir 2009

2.      Skýrsla stjórnar Sorpurðunar Vesturlands v. 2009

3.      Skýrsla um grænt bókhald Sorpurðunar Vesturlands 2009

4.      Umsagnir um þingmál 425,426 og 427.

5.      Fundarboð á fund um eflingu sveitarstjórnarstigs á Vesturlandi

6.      Ársreikningar hérðaðsnefndar Snæfellinga v. 2009

7.      Fjárhagsáætlun héraðsnefndar Snæfellinga v. 2010

8.      Arðgreiðsla frá Sorpurðun Vesturlands hf.

9.      Bréf dagsett 5. mars 2010 frá HSH

10.  Fundarboð á aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga ohf  2010 26. mars

11.  Staðgreiðsluuppgjör 2009

 

Önnur mál:

1.      Plastgámar í hreppnum. Verið að skoða með að breyta um gáma og kostnaðartilboð væntanlegt.

2.      Oddvita falið að kanna nánar ýmsa rekstrarþætti Laugargerðis í samræmi við umræður á fundinum.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

 

Svanur Guðmundsson

Guðbjartur Gunnarsson

Halldór Jónsson

Jón Oddsson

Eggert Kjartansson

Fjórði  fundur 2010 var haldinn að Laugargerði 11. Mars 2010 

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson,  Jón Oddsson og Kristín Björk Guðmundsdóttir skólastjóri.

 

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Svanur ritaði fundargerð.

 

Farin var vetfangskönnun um húsnæðið og leikvallarsvæði. Að því loknu var sest niður og farið yfir viðhaldsáætlun staðarins. Kristínu falið að gera tillögu um stærð leikvallar og tilhögun á staðsetningu leiktækja. Framkvæmdaáætlun var síðan forgangsraðað. Ákveðið að fá verð á þær framkvæmdir sem brýnastar eru og leggja fyrir fund fljótlega.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

 

Svanur Guðmundsson

Guðbjartur Gunnarsson

Halldór Jónsson

Jón Oddsson

Eggert Kjartansson

Kristín Björk Guðmundsdóttir



Þriðji  fundur 2010 var haldinn að Breiðabliki 15. febrúar kl. 21:00.

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson og  Jón Oddsson. Einnig voru mættir áheyrnarfulltrúar í skóla og fræðslunefnd Laugargerðisskóla,  þau Kristín Guðmundsdóttir skólastjóri, Sigrún Ólafsdóttir gjaldkeri, Halla Guðmundsdóttir fulltrúi kennara og Sigríður Sigurðardóttir fulltrúi skólaráðs.

 

Oddviti setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Svanur ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

Skólamál:

1.      Farið yfir málefni Laugargerðisskóla. Samþykkt að loka fundinum meðan væri verið að fjalla um þennan málslið. Eggert og Kristínu falið að vinna að málinu áfram.

2.      Fjárhagsáætlun skólans.  Farið yfir áætlunina, samþykkt að forgangsraða verkefnum og fá kostnaðartölur á þau fyrir næsta fund.

3.      Umsókn um skólavist. Afgreiðslu frestað fram yfir kennarafund. Oddvita falið að kanna lagalega skyldu sveitarfélagsins til að taka við utansveitarnemendum.

 

Þessar bókanir lesnar upp og samþykktar, síðan yfirgáfu áheyrnarfulltrúar fundinn.

 

Sigríður Jóna Sigurðardóttir

Halla Guðmundsdóttir

Kristín Björk Guðmundsdóttir

Sigrún Ólafsdóttir

 

 

Fundargerðir:

1.      Fundargerð SSV frá 3. Febrúar 2010.

2.      771 fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

3.      Fundargerð héraðsráðs Snæfellinga frá 8. Febrúar 2010.

4.      Fundargerð 37 fundar Menningarráðs Vesturlands frá 28. Janúar 2010 lögð fram.

 

Til afgreiðslu:

1.      Bréf dagsett 9. Febrúar 2010 og varðar yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Samþykkt

2.      Menningarsamningur Vesturlands drög. Engar athugasemdir geraðar við drögin

3.      Þriggja ára fjárhagsáætlun Eyja- og Miklaholtshrepps, seinni umræða. Umræðunni frestað.

4.      Bréf dagsett 12. Febrúar frá SSV og varðar eflingu sveitarstjórnarstigs - sameiningarmál.  Samþykkt að taka þátt í þessu verkefni. Oddviti tilnefndur í nefndina.

5.      Bréf frá Margréti Björk Björnsdóttir atvinnuráðgjafa og varðar heimilisiðnaðareldhús að Breiðabliki. Samþykkt að oddviti kanni þetta mál nánar.

 

 

Til kynningar:

1.      Bréf dagsett 9. Febrúar og varðar Frumkvöðul Vesturlands 2009.

2.      Fundarboð á aðalfund Héraðsnefndar Snæfellinga 2. Mars.

3.      Íbúaskrá sveitarfélagsins frá 1. Desember 2009 lögð fram. Íbúar 1. Desember 139 samtals.

4.      Ársreikningar Menningarráðs Vesturlands v. 2009 lagðir fram

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

 

Svanur Guðmundsson

Guðbjartur Gunnars861-5940.son

Halldór Jónsson

Jón Oddsson

Eggert Kjartansson



Annar fundur 2010 var haldinn að Breiðabliki 25. janúar kl. 21:00.

 

Mættir: Eggert Kjartansson, Halldór Jónsson, Guðbjartur Gunnarsson, Svanur Guðmundsson, Jón Oddsson, Sigrún Ólafsdóttir, reiknishaldari Laugargerðisskóla og Kristín Guðmundsdóttir skólastjóri Laugargerðisskóla.

 

Oddvirti setti fund og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega Sigrúnu og Kristínu.

Svanur ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

Til afgreiðslu:

1.      Drög að þjónustusamning  við Borgarbyggð um skólamál. Oddviti fór yfir lokaferli samningsdraganna og samninginn eins og hann lá fyrir. Að loknum nokkrum umræðum var samningurinn samþykktur samhljóða eins og hann lá fyrir.

2.      Drög að samkomulagi um slit á byggðarsamlagi um Laugargerðisskóla. Samkomulagið var samþykkt samhljóða eins og það lá fyrir.

3.      Fjárhagsáætlun v. Laugargerðisskóla. Sigrún fór yfir og útskýrði áætlunina. Seinni umræða tekin með áætlun sveitarfélagsins.

4.      Kosið í skólanefnd. Samþykkt að sveitarstjórn fari með störf skólanefndar fyrst um sinn. Fulltrúar foreldra og kennara mæti á fund með nefndinni eins og verið hefur. Nú yfirgáfu Sigrún og Kristín fundinn.

5.      Fjárhagsáætlun Eyja- og Miklaholtshrepps  v. 2010 seinni umræða.

·        Innlánsvextir, farið yfir vaxtakjör sem hljótast vegna inneigna.

·        Laun nefnda 2010. Óbreytt frá fyrra ári

·        Síma og skrifstofukostnaður 2010. Óbreytt frá fyrra ári

·        Laun oddvita 2010. Óbreytt frá fyrra ári

·        Styrkbeiðni, bréf dagsett 18. Janúar 2010. Samþykkt að styrkja slökkviliðsmenn í Borgarbyggð um kr. 25.000,-

·        Bréf dagsett 21. Desember frá Umhverfisráðuneyti og varðar beiðni um styrk vegna minkaveiða 2010. Samþykkt að leggja kr. 25.000,- í minkaveiðiátak á Snæfellsnesi.

Farið var rækilega yfir fjárhagsáætlunina og hún síðan samþykkt.

ü  Rekstrartekjur samtals          kr. 75.870.000,-

ü  Rekstrargjöld samtals                       kr. 77.981.789,-

ü  Áætlað rekstrartap 2010        kr.  2.111.789,-

 

6.      Þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp fyrri umræða. Samþykkt til seinni umræðu.

7.      Beiðni um að afskrifa útsvar frá Sýslumanni Snæfellinga. Samþykkt

 

Fundargerðir:

1.      Fundargerð samráðsfundar sorpsamlaga frá 23. Nóv. 2009

2.      Fundargerð samráðsfundar sorpsamlaga frá 19. Okt 2009

3.      Fundargerð samráðsfundar sorpsamlaga frá 21. Sept 2009

4.      36. Fundur menningarráðs Vesturlands frá 21. Desember 2009

5.      Fundargerð frá stjórnarfundi í Sorpurðun Vesturlands frá 25.11.2009

6.      Fundargerð frá stjórnarfundi í stjórn SSV frá 8.12.2009

 

Til kynningar:

1.      Bréf dagsett 15. Desember frá Sorpurðun Vesturlands

2.      Fundarboð á sameiningarfund 3. Febrúar.

3.      Bréf frá Umhverfisstofnun og varðar endurgreiðslu vegna minkaveiða 2009

Flettingar í dag: 148
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398344
Samtals gestir: 36195
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:28:49
clockhere