Færslur: 2009 Ágúst

30.08.2009 22:59

Almættið, borholudæla og landbúnaðarsýning.

  Hann er með okkur í þessu ,sagði Rauðkollstaðarbóndinn  með lotningarfullum rómi og leit auðmjúkur til himins.emoticon 

 Dagurinn í dag (sunnudagur)var fullbókaður eins og alltaf  hjá mér ýmist við leik eða hörkupúl.

Eftir mjaltir var drifið í að skipta um borholudælu hitaveitunnar en kominn var tími á eftirlit á þeirri gömlu og tímabært að prufukeyra þessa nýju fyrir byggþurrkunarvertíðina.

 Þegar sú gamla var komin í hendurnar á okkur nánast lak hún í sundur vegna tæringar á festingum á toppstykkinu. Mátti því engu muna að hún hyrfi okkur niðurí borholuna með ótilgreindum afleiðingum.

 Það var þá sem ofangreind orð féllu um almættið og velvild þess í garð okkar óverðugra.



 Svona leit þetta út en það eru 4 ryðfrí flatjárn sem festa  dæluna við toppstykkið og 3 þeirra voru ónýt svo dælan hefði einungis hangið á rafmagnskaplinum ef illa hefði farið.



 Nýja dælan er sú fyrsta sem Ásafl ehf. flytur inn en þeir leituðu að djúpdælum fyrir heitt vatn, fyrir okkur og eru nú komnir með umboð fyrir tvö góð merki.

 Þegar þessu var farsællega lokið var brunað á landbúnaðarsýninguna í Borgó.
Það var fínt og nóg eftir að smakka af allskonar góðgæti þó líða færi á sýninguna.

 Ég lét smalahundasýninguna ekki framhjá mér fara en Harpa á Hæl og Guðmundur í Miðhúsum (Kaðalsstöðum ) sáu um hana af mikilli snilld.

 Harpa var þarna með Soo, sem þau Jói fluttu inn fulltamda frá Englandi. Hún sýndi síðan ótaminn ársgamlan hund, Kost frá Móskógum sem er undan innfluttum foreldrum, úr sama goti og Dáð mín.


 Kostur,Soo og Hrókur en Guðmundur er náttúrulega alltof langur í annan endann fyrir svona mynd.
Þetta er afleit mynd af henni Soo sem er lítil en gullfalleg tík.

 Guðmundur var með Hrók sem er gæddur sömu hæfileikum og Whyskíið og Vaskur að batna sífellt með árunum. Þetta var snilldarsýning hjá þeim en mér fannst nú skemmtilegast að sjá hvolpinn ótaminn vinna flott að fénu án nokkurra skipana.

Mér finnst svo að helgarnar þyrftu að vera svona helmingi fleiri yfir sumarmánuðina svo eitthvað vit væri í þessu brauðstriti.emoticon

29.08.2009 20:40

Fjárhundakeppni í Miðengi Grímsnesi.

  Það var brakandi blíða í Landskeppni fjárhunda í Miðengi í dag og fór vel um gesti og keppendur.



 Nýstofnuð smalahundadeild  Sunnlendinga stóð að þessu af miklum myndarskap og að lokinni keppni og aðalfundi í dag var síðan mikil hlöðuveisla á staðnum.

 Hundarnir eru sífellt að verða betri með hverju árinu sem líður og þarna voru t.d. mættir til leiks 8 unghundar. (Yngri en 3 ára).

 Ég hef ekki fyrr séð svona marga góða unghunda mæta í keppni.

Í unghundakeppninni urðu efst Gísli í Mýrdal með Kötu frá Daðastöðum með 56 stig.

 Það verður þó að segjast að kindurnar voru í erfiðara lagi.

Þó maður haldi því fram að ef hundarnir ráði ekki við allar aðstæður séu þeir ekki nógu góðir, þá er aldrei gaman að horfa á keppni þar sem allt er í basli. Og stigafjöldinn verður frekar slakur í heildina.

Þetta var algeng sjón í keppninni. Hér standa kindurnar framan í Snilld með þráasvip á andlitinu/sviðunum. Þær sóttu yfirleitt stíft útúr brautinni í átt að bænum og fæstir hundanna voru að höndla þessar aðstæður vel.

 Þetta var fyrri keppnisdagurinn fyrir A og B flokkana.

Efstir eftir þetta fyrra rennsli voru Varsi á Eyrarlandi og Mac í A flokki með 86 stig og í B fl. voru jafnir með 46 stig þeir Valli í Grundarf. með Snót og Reynir á Hurðarbaki með Tútú frá Daðastöðum sem er nú reyndar aðeins rúmlega tveggja ára. Hún lenti einnig í öðru sæti í unghundaflokki.


                     Mac í góðri sveiflu.

  Þær Tútú og Kata(efst í unghundafl) eru systur úr sama goti frá Daðastöðum undan Soffíu og Dan.

 Þarna sá ég í fyrsta sinn Mac og Dot í keppni en þau voru flutt inn tamin og vön úr keppnum úti.

 Þau skáru sig nokkuð úr fyrir mikla þjálni og hlýðni og það var gaman að sjá mýktina í vinnunni hjá Dot. Mac virkaði sem öruggari og harðari karakter
 Dot að ná kindunum til baka inní braut og að fyrsta hliði í þríhyrningnum.

 Þar sem ég verð ekki í keppninni á morgun( sunnudag) var Vaskur skilinn eftir heima. Hann hefði þó hugsanlega virkað í þessum rollum því árásargirnin hefur fengið að njóta sín hjá honum þegar þörf krefur, eftir því sem aldurinn færist yfir hann.

 Þær Dáð og Snilld fengu að spreyta sig í unghundunum en voru ekki nógu harðar til að halda stjórninni yfir þessum sunnlensku frekjudósum. Dáð á eftir að ná góðum tökum á þessum aðstæðum en  Snilld er aðeins meira spurningarmerki.

 Þetta var fínn dagur og gaman að rifja upp stemminguna á landsmóti en ég komst ekki í fyrra.

28.08.2009 21:33

Vatnsbúskapurinn í kreppu.

 Malbiksbúinn sem gengur að  heitu og köldu vatni vísu í krananum sínum á trúlega erfitt með að ímynda sér baslið sumstaðar í sveitinni við að hafa þessa lífsnauðsyn örugglega við hendina.

 Þar eru ýmist sameiginlegar vatnsveitur eða einkaveita á bæjunum. sumir bora eftir vatninu og dæla því síðan upp o. sv frv.

 Þegar gerir svona langvarandi þurrkakafla lækkar jarðvatnshæðin og þá geta hin öruggustu vatnsból allt í einu farið að daprast.

 Hérna er vatnið sótt í þrælskemmtilega uppsprettu um km. leið inn í fjall og eftir að hafa horft á vatnið vella uppúr jörðinni síðustu 50 og eitthvað árin taldi ég þetta öruggasta vatnsból á , ja ég veit ekki hverju.

 Hérna vall vatnið uppúr skriðunni, kúturinn var settur ofan á lindina og allar götur síðan hefur verið  stöðugt umframrennsli úr lindinni en mismikið.



 Nú fer allt vatn í hæðartankinn sem stendur til boða úr lindinni sem mér fannst reyndar alveg rosalega hrein og fín en ég hef ekki kíkt þarna ofaní síðan þetta var tengt fyrir um 8 árum.

 Hingað fer vatnið síðan í þennan millilið sem er til að minnka fallið/hæðina á lögninni sem er með 5 kg þrýsting inní hús. Vegna minna vatns úr lindinni góðu  hefur þetta litla forðabúr verið að tæmast öðruhvoru síðustu dagana .þegar notkun er mikil.

 Vegna þess að lindin er ekki að taka yfirborðsvatn úr sínu næsta umhverfi( neðst í brattri hlíð) má reikna með að taki verulegan tíma fyrir hana að jafna sig þó nú fari að rigna í alvöru.

 Það eru svo að berast sögur víða að af mun verri dæmum heldur en þetta og heilu sveitarfélögin eru jafnvel í vondum málum og sum þeirra þurfa reyndar ekki langvarandi þurrka til.

 En það er nú ekki hægt að kenna víkingunum okkar um þessa kreppuna.emoticon

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398310
Samtals gestir: 36193
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 06:08:33
clockhere