01.01.2009 09:10

Gamlársdagur.

 


Það  snjóaði í logni hér heima og þegar komið var á austurbakkann bætti vel í snjókomuna. Þegar svo  kom suður á Mýrarnar birti til og við fengum fínt veður í bæinn.

  Það var verið að fara í árlegt afmæliskaffi hjá tengdapabba sem varð hvorki meira né minna en 91 árs.  Það lá vel á börnunum hans ( sem eru nú reyndar alls engin börn lengur), og viðhangendum þeirra. Reyndar þyngdi aðeins yfir samkvæminu þegar einhver ógætileg orð féllu um Jón Ásgeir en það birti fljótt til aftur og þetta varð hin ánægjulegasta stund. En það er nefnilega þannig með hana tengdamömmu að hún á sér tvo guði. Þennan alvöru og svo hann Jón Ásgeir, ( hann er nefnilega með svo falleg augu) . Þar sem það er óralangt síðan hvarflað hefur að mér að mótmæla tengdamömmu var það ekki ég sem olli þessu, heldur voru mágur minn og elsti sonur eitthvað að hnýta í hann blessaðan.

 Þar sem við gömlu, eldri bændurnir meinti ég , áttum að sjá um kvöldmjaltir var rúllað til baka um fjögur og aðaláhyggjuefnið var magamálið eftir hnallþórurnar hjá tengdó. Því heima í sveitinni gekk mikið á. Yngra settið í Dalsmynni og Hrossholtsbændur ætluðu nefninlega að efna til mikillar veislu um kvöldið þar sem boðið yrði uppá rjúpur og andabringur. Það voru því reyttar rjúpur af miklum móð og hamast við matseldina allavega frá hádegi. Það var reyndar tekinn tími í að smala  hrossahólfin og koma öllu heim í gerði, því væntanlega yrði órólegt í sveitinni áður en lyki.


                               Þessi snjór er að vísu ekki fyrir hendi lengur.

  Þar voru flóðljósin sett á og spiluð róandi tónlist, svo þau yrðu sem minnst vör við þegar síðustu peningarnir í sveitinni yrðu sprengdir í loft upp.


                                Ættmóðirin og langömmubarnið.

  Rjúpan og öndin voru algjört sælgæti, en þarna voru nokkur að bragða rjúpuna í fyrsta sinn. 


Það var síðan stafalogn og hljóðbært um kvöldið. og mikið sjó í gangi en héðan sést bæði  til Akraness og Reykjarvíkusvæðisins í góðu skyggni eins og í gærkveldi. Brennan okkar Eyhreppinganna bíður hinsvegar betri tíma.

  Öllum þeim sem hafa enst til að lesa þetta, óska ég gleðilegs árs og þakka kærlega fyrir það gamla. Þeir sem eru duglegir að kommenta fá sérstakar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á liðnu ári.emoticon 

  

30.12.2008 09:45

Sauðféð, tap eða?


  Hér er stunduð beingreiðslulaus sauðfjárrækt. Reyndar eru farnar að berast greiðslur gegnum gæðastýringingarkerfið en þær vega lítið  í dæminu.

  Ég held því hiklaust fram að sauðfjárbúskapurinn í Dalsmynni sé fyrst og fremst til að geðheilsan haldist eitthvað skárri en annars. Nóg er samt. Ef grannt er gáð bætir hún nú trúlega ekki geðheilsu yngri bóndans en þar er af nógu að taka enn,  áður en til vandræða horfi.



 Eftir að hafa skoðað afkomuna nokkur ár aftur í tímann er þó ljóst að þessi hliðarbúgrein er ekki arðvænleg . Botninum í afkomunni á því sem af er þessari öld, var trúlega náð í kringum 2004 og síðan hefur afkoman batnað þar til nú, að línuritið er farið að vísa niður á ný. 
  Féð er trúlega að borga kostnaðinn við fóðrið og annan greiddan kostnað en ljóst að vinnulaun og húsaleiga  eru lítil. Þar sem aðstaða til nautakjötsframleiðsu er ekki fyrir hendi á búinu,  er litið svo á féð komi í staðinn, enda óvíst að nautakjötsframleiðslan skili meiru.
 Aðalvandamálið er þó að fjárbúskapurinn er farinn að rekast á álagstoppana í akuryrkjunni, vor og haust. Nýtingin á niðurlandinu er svo farin að skarast, þar sem byggið er farið að koma upp áður en fénu er sleppt til fjalls og þreskingu ekki lokið þegar leitir hefjast og féð er tekið heim á ný.
.

 Þetta hobbý ber því engan aukakostnað og aðstaðan verður svo að kosta lágmarksvinnu.




 Flatgryfjunni er skipt í tvennt með jötu og yfir fengitímann er lokað fyrir enda jötunnar.



 Komið er með rúlluna á dráttarvél og hún skorin með vökvahnífnum.



  Þessari jötu var rubbað upp með hraði haustið sem fjárhúsum var breytt í fjós, og átti að endurnýjast sem fyrst. En  Jóhann Pétur liggur á hönnuninni sinni eins og ormur á gulli.
 Þetta kostar því heimsókn vestur með málband og myndavél svo endurnýjunin verði í lagi, nema þjónustan skáni eitthvað.



  Og hundarnir eru svo ljós punktur í tilverunni.

 Já , er maður ekki alltaf í tómu tjóni hvort sem er ??emoticon



29.12.2008 09:23

Jólaball litla fólksins.


   Það var orðið dálítið svartnætti í mannfjölgunarmálum í sveitinni á tímabili. Nú lítur þetta allt betur út og ungt fólk farið að setjast að í sveitasælunni. Unga fólkinu fylgja gjarnan lítil börn og eftir margra ára hvíld frá jólaballi litlu barnanna var það endurvakið  með stæl í gær.



   Hér eru Ingibjörg frá Hofstöðum, Hafdís Lóa frá M. Borg og litli Ayust frá Miðhrauni.

  Þetta er að sjálfsögðu orðið alþjóðlegt samfélag hér og börnin hafa kynnst í leikskólanum sem boðið er uppá 4 daga í viku yfir skólatímann.



  Hér er Perla á M. Borg að spjalla við Kötlu í Hrossholti, Ingu Dóru á Minni Borg. Lítil sem var gestkomandi á Borg og Hafdís Lóa og Gísli á Minni Borg.



 Giljagaur og Hurðaskellir
voru enn að þvælast um í sveitinni og kíktu við til að heilsa upp á þessi þægu börn.
 Finnbjörn litli sem var í heimsókn hjá afa og ömmu á Stakkhamri, var hvergi banginn við heimasæturnar í sveitinni.. 

 

  Já, þetta er ungt og leikur sér.

Flettingar í dag: 461
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419418
Samtals gestir: 38174
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:06:05
clockhere