Færslur: 2012 September

28.09.2012 21:43

"Held til fjalls með hesta mína og hunda"

Það voru góð skipti á miðvikudaginn að skipta yfir af fjórhjólinu yfir í fjallaklárana.

Um morguninn var " Rauðkollstaðarafrétturinn " smalaður og síðan var lagt í Dalsmynnisfjallið.

Fjallavættirnir mínir tóku vel á móti mér og sýndu mér sitthvað fallegt eins og þeir gera reyndar alltaf þegar ég slepp til þeirra úr ruglinu.



 Dalsmynnislandið er auðsmalað þó þar eins og annarstaðar sé stutt í baslið.


 Fyrir miðju er Hvítuhlíðarkollur sem teygir sig nokkurnveginn rennisléttur uppað Svörtufjallamúlunum.
Vinstra megin eru Tungurnar( Geithellistungur) sem liggja að Svörtufjöllum og Skyrtunnu sem skilur á milli Skógarstrandar og Dalsmynnis.

 Hér  er reyndar ég staddur uppi í Seljadalnum vestan Núpár og horfi yfir innsta hluta Dalsmynnislandsins.

 Í gær var vesturhluti Núpudalsins smalaður en Hafursfellið markar vesturhliðina.


Þórarinsmúli næst,Eyjalágar með Þríhnjúka t.v. Tungurnar austan Núpár, sem á upptök sín í Leirdal fjærst fyrir miðri mynd.

 Hér horfum við yfir innsta hluta hans ,Eyjalágarnar með Skyrtunnu og Svörtufjöll hulin skýjum.



 Selsfjallið( vesturhlið Hafurfellsins og innaf því) var smalað í dag og hér sést safnið þar koma niður eftir velheppnaða tangarsókn  smalanna.


 Þar er sett upp aðhald innan Skógræktargirðingar frá Miklaholtsseli og fénu ekið til byggða.
Því fer hinsvegar stöðugt fjölgandi og ljóst að nú dugar ekki kerruakstur lengur. Ekki er ólíklegt að eigendur þess velflests, vinir mínir á austurbakkanum fái að axla ábyrgðina á þessu lausafé sínu, enda vafalaust meira en tilbúnir til þess.

 Þó nýtt fjárhús Dalsmynnisbænda eigi aðeins í land með að vera tilbúið, var samt skellt upp aðstöðu til að umsetja það lausafé sem yrði í umferð þessa smaladaga.



 Hér er safn fimmtudagsins komið í hús og steypuplattarnir fyrir gjafagrindurnar nutu mikilla vinsælda.


 Og þó rekstrargangurinn væri frumstæður og rubbað upp á tveim tímum svínvirkaði hann um það er lauk. Sú reynsla sem fékkst þessa daga mun svo hafa verulega góð áhrif á hönnun réttar og innirögunar um það er líkur.

  Þarna fóru í gegn vel á fjórða hundrað aðkomufjár þessa daga eða álíka margt og Dalsmynnisféð.

Það er  svo virkilega ánægjulegt að upplifa  hvað féð fór að renna greiðlega í gegnum þetta kerfi eftir fyrstu ferðina.

18.09.2012 21:17

Hvíta gullinu komið í hús.

Nú var komið að Dalsmynningum að fá þreskidótið í akrana svo hamarinn og hallamálið voru sett til hlés og byggræktinni helgaður dagurinn að mestu.



 Hér er það Kunnari akurinn sem er tekinn til bæna, stönglarnir grænir enn og þurrefnið ekki nema um 69 %. Annars var þurrefnið á bilinu 70 - 80 % í uppskeru dagsins. Hún mætti gjarnan vera hærri en er samt góð á þessum vígstöðvum.



 Og byggvagnarnir voru teknir til kostanna og þreskivélarnar fengu að snúast með góðu eða illu.



 Það var orðið búsældarlegt í skemmunni okkar Yrkjamanna um það er lauk og eins gott að þurrefnisprósentan var í hærri kantinum því stæðan var komin " aðeins" útfyrir blásturskerfið.




  Haustið 2010 var metuppskera hjá  ræktendum hér en nú er útlitið enn betra.( Best að gleyma sem fyrst síðasta hausti.)
 Aldrei áður hefur uppskeran hér verið svona jafngóð milli akra og ræktenda og nú.



 Sáðbyggið sem tekið var í upphafi þreskingar bíður þess að verða spíruprófað og spennandi að sjá
útkomuna úr því.


 Svona vagnar eru að skila inn á stöð um 6 t. af fullþurrkuðu byggi og var þreskt í 7 slíka hér í dag.
Það er 60  + % haustuppskerunnar ef allt skilar sér.

 Nú á eftir að þreskja um 20 ha. hjá ræktendahópnum í gamla Eyjarhreppnum (Yrkjum ehf) og ef það næst allt er ljóst að hér verða slegin bæði  uppskeru og gæðamet og var tími til kominn að menn uppskeri nú eins og þeir sái.

16.09.2012 20:32

Þverárrétt 2012. fyrri leit.

 Féð var með flesta móti í Þverárrétt í dag en þar var réttað féð úr austurhluta gamla Eyjarhreppsinins eftir leitir á Svínafelli,  Y. Rauðamelsfjalli og víðar i gær.


 Úr leit á Rauðamelsfjalli.

 Það fé sem þarna kemur fyrir er að langmestu leiti frá vinum mínum á Austurbakkanum,
sem ýmist er upprekstrarleyfi fyrir eða kemur í eigin boði.



 Safngirðingin var sæmilega nýtt í þetta sinn og féð vel hvílt fyrir réttarharkið.
 


 Það þarf að reka safnið nokkur hundruð m.  frá girðingu í rétt og stundum hefur gengið á ýmsu en nú gekk allt eins og í sögu.



 Og Bjöggi mættur galvaskur í dráttinn.


 Hér er hringurinn farinn að þrengjast utanum síðustu kindurnar.


 Alltaf sami spenningurinn að reka í rétt en hér halda allir ró sinni.


 Sultuslakir með féð er að koma sér inn.


 Réttarveggirinir eru misjafnlega greiðgengir fyrir féð en þessi hluti réttarinnar er samt enn minna haldið við en öðrum hlutum hennar.



 Aron Sölvi  hélst vakandi í þetta sinn og hér er hann mjög hamingjusamur því Helga í Haukatungu hafði laumað einhverju í munn og báðar hendur á kappanum.



 Og hrossa,bygg og skógræktarbóndinn í Söðulsholti kom að sjálfsögðu ríðandi í réttina með fríðu föruneyti enda sérlegur aðdáandi sauðkindarinnar og óhefts frelsis hennar í lendum skógarbænda.


Flettingar í dag: 101
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 443
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 398297
Samtals gestir: 36193
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:22:39
clockhere