29.07.2008 20:35

Kvóti, dótakaup og heyskapur.!!

 Það fæst ekki fjárveiting fyrir þessum  þó flotið í afturbeltunum sé það sama og í 8 hjólum og trúlega rigningarhaust framundan!!!. 


         Mega útlendingar kaupa bújarðir á Íslandi spurðu dönsku bændurnir sem komu til mín í dag? Þeim þótt ég fá gott verð fyrir mjólkina mína. Það sló á áhugann að heyra verðið á kvótanum en landverðið óx þeim ekki svo mjög í augum.
 Það versnaði í því þegar spurt var um þennan mikla og dýra/nýlega vélaflota á mörgum býlanna sem þeir höfðu ekið framhjá. Ég  sagði sem satt var(aldrei þessu vant) að íslendingar upp til hópa væru dótafíklar. Í þeim hópi væru nokkur hluti bændanna.
Þetta var skemmtilegur hópur og þó ég hefði verið ræstur út í miðjum slætti með 30 mín. fyrirvara bauðst ég til að sýna þeim hvolpana mína. Gædinn .ísl. búsettur í Danmörku ákvað að kaupa hvolp af mér. Ég vil fá þennan sagði hann og strauk hvolpinum sem kom fyrstur til hans. Sá var því miður seldur .  Þú heyrir í mér þegar ég hef skoðað útflutningsmálin sagði  kaupandinn, en hann valdi sér samt ekki annan úr þvögunni.

  Já það var tekið til hendinni og slegið í dag. Hrossaheystúnin sem við Einar höfum hjá Trausta vini okkar í Skógarnesi,(um 15 ha.) og háin hér heima, var tekin líka. Hrossaheyið var orði trénað og verulega úr sér sprottið eins og vera ber. Háin var frá því að vera moksprottin og niður í helv. hörmung. Þetta var samt allt tekið því nú þurfa þessi tún að gera sig klár fyrir beitina sem fyrst. Kýrnar sem fyrst og seinna fer hluti af fénu þar inn..

Og um leið og slættinum lauk var farið að hóta rigningu á fimmtudagskvöld.

27.07.2008 23:33

Bændareiðin.



  Það var lagt upp frá Miklholti um tvöleitið eftir þegnar veitingar þar. Við vorum tímalega fyrir fjöruna og menn slakir.
 Riðið var niður með Laxá í Stakkhamarsnes. Þaðan fjöruna vestur að Tröðum þar sem enn voru þegnar veitingar. Síðan var fjaran riðin til baka að Stakkhamri.




 Þetta voru um 100 manns sem allir komu heilir heim þrátt fyrir að nokkrir stigu af baki með öðrum hætti en ætlað var. Hér sést hluti hópsins staldra við meðan nælt er skeifu undir hana Kórinnu.



 Já, þetta er lífið og hreint ekki leiðinlegt.



        Á Stakkhamri beið okkar mikil veisla sem er eiginlega ólýsanleg.
Bændareiðin þetta árið var í boði hjónanna á Miðhrauni 1, Hrísdal og Vegamótum.
 Næsta ár kemur til kasta okkar syðst í sveitarfélaginu að gera eitthvað í málunum.
Þá reynir á breiðu bökin.

 Já og takk fyrir mig. (fleiri myndir í albúmi.)


25.07.2008 21:20

Hvolpabú og bændareið.

    Sestir að í sumarbústaðnum. Þeim leist vel á hálminn en fannst dálítið heitt í dag.

 
Það var skrópað í girðingarvinnunni eftir hádegi í dag og komið upp gerði fyrir hvolpana, þó þeir séu aðeins um mánaðargamlir. Það er strax orðinn blæbrigðamunur á þeim og verður gaman að spá í þá næsta mánuðinn.

 Og þetta verður annasöm/erfið helgi hjá mér, bændareiðin á morgun og brúðkaup á sunnudaginn. (Ekki ég). Þar sem bændareiðin endar á Stakkhamri geri ég svo ráð fyrir að seinni fjaran á sunnudeginum/kvöldinu verði síðan notuð til að koma hestaflotanum heim.

  Það eru bókaðir yfir 100 manns í bændareiðina og þar sem riðnir verða um 35 km. má ætla að verði tveir hestar á mann. Þarna verður því mikill floti á ferðinni og greitt farið milli stoppa, því reiðleiðin er aldeilis frábær. (Sjá lýsingu á reiðtúr síðustu helgar.)

 En það er ljóst að bændur verði í nokkrum minnihluta þarna.

Flettingar í dag: 507
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419464
Samtals gestir: 38182
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:28:29
clockhere