09.06.2008 23:12

Höfuðlaus her eða þannig.

Heyrði í Svan áðan, hann hress í máli og hestaferð gengur vel. Heyrði ekki söng en tel víst að söngvatn sé nálægt.
Hér gengur allt vel þrátt fyrir fjarveru bóndans (nú eða vegna fjarveru bóndans). Ég útskrifaðist úr Grænni skóga náminu á laugardag. Þá var lokadagur, allir áttu að gera grein fyrir lokaritgerðinni sinni og svara spurningum úr henni. Þetta var feykilega skemmtilegt, ótrúlega ólíkar ritgerðir og sumar mjög spennandi. Sérstaklega var ég hrifin  af ritgerð sem hét Hrossabeit í skógrækt og er um beit hrossa til að halda niðri sinu í skógi. Ég skrifaði um Sauðfjárrækt og skógrækt  og reyndi að komast að því hvort sauðkindin sé þessi skelfilegi vágestur í skógi sem sumir telja eða hvort hægt sé að stunda þetta saman. Eftir ritgerðaflutning var svo farið að Fitjum í Skorradal og grillað og trallað.
Atli var orðinn afar þreyttur á kindum á túni svo við höfum verið að koma þeim upp í fjall í gær og dag. Núna eru bara 3 þrílembur og annað eins af lappaveikum/ljótum ám heima og ætli þær fái ekki að vera niðri á Eyrum fram eftir sumri. Mér sýndust lömbin bara nokkuð bústin svona flest. Einn gemlingur var búinn að týna lambi og það trúlega dautt því ekkert móðurlaust lamb hefur sést. Síðasta ærin bar svo á sunnudaginn og ætli hún og gemlingurinn sem bar á fimmtudag fari ekki út á morgun. Vonandi tekst mér að marka lömbin rétt. Ég hef lítið gert af því síðan ég víxlaði milli eyrna markinu okkar fyrir mörgum árum. Kannski ég láti duga að skella númeri í þau og sleppi því að marka. Annað eins hefur nú gerst.
Annars er ég í því að labba þessa dagana svona til að undirbúa gönguferðina sem styttist óðfluga í. Passa mig að nota ekki fjórhjólið þegar verið er að sækja féð. Búin að fara einu sinni upp á Dalsmynnisfjall og síðan er gönguhópurinn með fyrsta labbið á þriðjudagskvöldið. Þá á að ganga frá Snorrastöðum í Snorrastaðavinina.
Síðan stefnir allt í slátt og er viðbúið að þegar endurnærður húsbóndinn birtist á svæðinu að hann býsnist yfir framtaksleysi okkar hinna að vera ekki löngu farin að slá.
Flettingar í dag: 2105
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433033
Samtals gestir: 39935
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:17:25
clockhere