17.06.2008 00:28

´Lokadagur Sleppitúrsins.

  
                          Búið að lesta flutninginn og bara eftir að kveðjast .

Frá v. Jói,Gugga,Katrín,Dagný Stjáni,Halldóra,Einar,Svanur,Skúli,Auðun,Gunni og Jonni.Á myndina vantar Jón og Ingibjörgu.


Jón El. sem hafði trússað okkur af mikilli snilld fékk frí í dag en hann er með aðstöðu og hross að Teygingarlæk og ætlaði að ríða með okkur þaðan að Kirkjubæjarklaustri. Reyndar var þessi síðasta dagleið að hans undirlagi og kom á daginn að hann hafði verið tillögugóður þar.Jonni dæmdist til að taka við trússinu enda bóngóður eins og fyrri daginn.Við gengum frá smáhýsunum á Svínafelli , lestuðum kerrurnar og ókum síðan vesturfyrir Skeiðarársand að Hvoli, en þar skyldi gist næstu nótt.
  Eftir járningar og álagningarstúss var síðan riðið af stað og hafði Auðun fengið mjög nákvæma tilsögn um hvar ríða skyldi þennan spotta að Teygingarlæk.
 Strax urðu nokkur vandamál við að komast frá Hvoli . Öllum hrossum hafði verið ekið þangað og þegar þeim skyldi riðið burt kom í ljós að ekki var gert ráð fyrir hrossaumferð við ristarhlið bæjarins. Hófst nú mikil reið fram og aftur um moksprottin túnin því reksturinn var ekki í stoppistuði. En út komst allt að lokum og Auðun sem stundum finnst gott að ríða "götulausa græna jörð" leiddi okkur óðara eitthvað úrleiðis og fann allar hugsanlegar ófærur sem fundust á svæðinu. Endaði það með því að hann var einn í heiminum en við hin riðum aftur á veginn og síðan eftir réttu götunni þegar kom að henni. Þar hittum við" leiðsögumanninn" aftur sem lét sér þetta að kenningu verða og leiddi okkur rétta leið allt þar til Óli á Læk tók á móti okkur.
 Þar var okkur öllum boðið til bæjar og haldin mikil veisla. Rjómapönnukökurnar og heimabökuðu flatkökurna ásamt hangikjötinu og bleikjunni og bara nefndu það, allt heimagert ,sultan líka. Auðun óskaði síðan eftir að húsfreyjan "Magga" yrði kölluð úr eldhúsinu og benti síðan samferðakonum sínum á að þær skyldu taka hana sér til fyrirmyndar. Þá myndi þeim vel farnast. Ljóst að Anna Margrét var næstum hinumegin á Íslandi þá stundina. Nú var lagt á .Óli og tengdasonur hans riðu með okkur að Klaustri
og Óli sem er áttræður var þarna á brúnum 22 vetra klár sem járnaður hafði verið daginn áður. Fljótt kom í ljós að við aðkomupakkið, höfðum lítið í þá félaga að segja því þeir voru greinilega vanir einhverjum öðrum meðalhraða en við vestanmenn og förum við þó ekki alltaf rólega. Þegar ég ræddi þetta gætilega við Óla sagðist hann fá orð fyrir að fara stundum dálítið geyst, en hann stoppaði vel á milli .Sumir héldu því hinsvegar fram að hann væri lagður af stað aftur þegar þeir síðustu kæmu í áningarstað. Þennan dag riðum við jafnbestu reiðleiðirnar í ferðinni í frábæru veðri. Reyndar var laugardagurinn,Fornustekkir-Lækjarhús mjög góður hvað göturnar snerti en veðrið skemmdi talsvert fyrir okkur þá. Þarna var riðið neðan hrauns og síðan sléttar grundir og á hverjum áningarstað þuldi Óli yfir okkur endalausum fróðleik úr sögunni á svæðinu. Þessum frábæra reiðtúr var síðan slúttað með kvöldmat að Hótel Klaustri. Þegar komið var að Hvoli um kvöldið var algjörlega ótækt að fara strax inn úr vornóttinni og síðustu tónleikarnir haldnir undir berum himni í lognkyrri nóttinni.
 Það var hinsvegar hljóðbært í logninu og þrátt fyrir að trailerinn væri hafður á milli húss og söngfugla var búið að loka öllum gluggum á efri hæðinni á farfuglaheimilinu um það er lauk. Þeir voru náttúrulega galopnir þegar við risum fjallbrött úr rekkju uppúr 9 en herbergin áttu að rýmast fyrir kl. 10 og allir orðnir ólmir í að komast til síns heima.

        Já , þetta var bara alltílagi sleppitúr þetta árið.
Flettingar í dag: 1782
Gestir í dag: 112
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432710
Samtals gestir: 39915
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:30:43
clockhere