21.06.2008 08:59

Heyskapur og fuglalíf!


     
         Ósamkomulag á tjörninni hvar yfirborðið er í lágmarkshæð, samt ekki sögulegu.
Hvort það er dóttir eða tengdadóttir sem er mætt á svæðið og hvor aðilinn veldur áreitinu verður hver og einn að spá í. Fleiri myndir í albúmi.


  Ég var löngu hættur að hafa tölu á ungunum sem spruttu út úr óslægjunni og hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa á undan sláttuvélinni.Yngri bóndinn sem sló Vallarfoxið með knosaravélinni slapp greinilega mun betur útúr fuglaflórunni.  Stelksungarnir voru mun hlaupalegri en hrossagaukarnir sem kúldruðust áfram og voru skæðir með að fela sig í grasinu þegar átti að fjarlægja þá af túninu. Ég fór gætilega með fyrstu ungana, fór ofaní skurðinn og lagði þá á bakkann á rýgresisakrinum. Þegar stoppin voru orðin nokkur í hverjum hring fengu þeir sína fyrstu flugferð yfir skurðinn og þessir litlu hnoðrar lentu mjúklega hinumegin skurðarins. Það var gaman að sjá að viðbrögðin voru nánast nákvæmlega eins hjá þeim öllum. Þeir hlupu af stað í átt frá mér og skurðinum en voru fljótir að átta sig á því að rýgresið var skammt á veg komið og veitti þeim ekkert skjól . Þá var tekin vinkilbeygja og þeir stungu sér síðan inn í graskragann sem var á skurðbakkanum.  Fuglalífið í sveitinni er með meiri blóma en gerst hefur á háa herrans tíð og stokkendurnir á tjörninni hjá mér eru nú tvær með sinn flotann af ungunum hvor.
 Þeim lendur stundum saman með miklum látum eins og góðum nágrannakonum sæmir.
 Það tókst að rúlla fyrsta heyskapnum samkvæmt áætlun þrátt fyrir að beltalás gæfi sig í rúlluvélinni og eftir að búið var að umstafla fyrningunum var farið að keyra rúllunum heim í gær. Í þeim er þvílíkt gæðafóður að það slær út því fyrsta í fyrra, sem sló út gæðin frá árinu áður o.sv.frv.  Enda forsendan fyrir því að kýrnar mjólki til að standa undir dótakaupunum og náttúrulega rollubúskapnum. Nú er spáð í langtímaspána og velt vöngum yfir hvenær rétti tíminn er að taka restina af fyrri slætti af kúaheyinu.
 Það á aðeins inni í þroskanum en tapist það í viku óþurrk er bóndinn í slæmum málum.
   Reyndar er regnleysið aðeins farið að slá á sprettuna en ég er illa svikinn ef að rætist ekki duglega úr því áður en lýkur.  Rigningarsumarsspáin er nefninlega enn inni hjá mér þó hún rætist vonandi ekki.

     Nú verður reynt að komast á bak um helgina og grenjavinnslupistillinn er væntanlegur á síðuna þegar síðasta grenið hefur verið kannað.   
Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 422397
Samtals gestir: 38501
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 00:01:40
clockhere