18.05.2008 05:18

Bannað að lofa veðurfarið!

 Ég hefði betur sleppt því að lofa veðurfarið, því rigningin sem í kortunum var í besta hófi fór alveg úr böndunum. Völtunin sem var á algleymingi á ökrunum, var reyndar hætt vegna úrkomunnar áður en lofið var slegið inn á lyklaborðið en uppúr hádeginu í gær var sáningu og tætingu slegið á frest þar til þornaði um aftur. Já byggsáningunni lýkur ekki í dag eins og til stóð en til þess að þurfa ekki að eyða helginni í frí eða einhverja aðra  vitleysu var farið að plægja upp restina af túnunum sem á að endurvinna svo hægt verði að sá rýgresinu með hraði í framhaldinu. Gærdagurinn var því með rólegra móti hjá mér. Erindi í Borgarfjörðinn var afgreitt og komið við í Bónus í leiðinni. Það sem varð til þess að tími fannst í það ferðalag var kaffiskortur sem brostinn var á í Dalsmynnisbúrinu. Maímánuður er mikill kaffimánuður hjá undirrituðum og nú er tryggt að kaffilaust verður ekki næstu dagana. Síðan var heimilið birgt upp af allskonar óhollustu sem er nauðsynleg á þessum árstíma og reyndar oftar þegar ég sé um innkaupin. Hinsvegar steingleymdi ég að koma við í Ríkinu sem fyllir mig áhyggjum af andlegu ástandi mín.  Heimasætan er svo mætt í sveitina, Púka og öðrum til mikillar gleði og þegar búin að standa fyrstu vaktina.

   Já nú þarf að upphugsa eitthvað  nauðsynlegt erindi í kaupstaðinn svo hægt verði að versla það sem gleymdist.

   
Flettingar í dag: 622
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420622
Samtals gestir: 38341
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 20:39:44
clockhere