04.11.2008 21:31

Perlubrúðkaup.




 Það var n.a. kalsarigning og leiðindaveður þegar mín heittelskaða og ég vorum pússuð saman í Rauðamelskirkju. Eftir að séra Einar hafði látið okkur lofa öllu mögulegu og ómögulega vorum við allt í einu orðin hjón. Í framhaldinu var frumburðurinn skírður og samkvæmt þessu, því bæði getinn og fæddur í synd. Það var síðan  nýmunstraður tengdapabbinn sem hélt dóttursyninum undir skírn og fórst það vel úr hendi eins og vænta mátti.


            Greinilega dálítill tími þessi 30 ár!

 Í dag eru 30 ár síðan þessir velheppnuðu gerningar áttu sér stað.

 Já, það hefur mikið verið lagt á konuna mína síðustu 30 árin.

  Það var ekki nóg með að taka mig á framfærslu sína, heldur var ég vanur því frá hótel mömmu að fara frekar létt útúr " kvennastörfunum", en stór systrahópur sá til þess að nokkuð " eðlileg " verkaskipting var á heimilinu.
 Það kom sér því vel fyrir frúna að hafa kennaramenntun í farteskinu við ögun hins værukæra eiginmanns.
 Það er svo  best að sleppa allri upptalningu á þeim brotum og brestum sem ég tel mig hafa á samviskunni eftir þennan tíma, svo ekki sé minnst á brot og brotabrot sem mér persónulega finnst ekki ámælisverð.
 Það sýnir hinsvegar þolinmæði og langlundargeð minnar heittelskuðu að á þessum tíma hefur hún nú aldrei lagt á mig hendur þó hana hafi örugglega oft langað til þess.

 Þó margt skemmtilegt sé nú óðum að hverfa í blámóðu fjarskans er sagan af síðbúna veislugestinum alltaf jafnfersk.

  Vinur okkar sem hafði verið að skemmta sér í bænum kvöldið fyrir brúðkaupið var svo " óheppinn " að keyra beint útúr einni beygjunni á leiðinni í sveitina.  Það var vel liðið á veisluna þegar honum var skutlað heim á hlað veislustaðarins af einhverjum miskunnarsömum . Þegar hann hitti þar utandyra einn veislugestanna, gerði hann sig eins virðulegan og honum var unnt, ræskti sig og spurði svo eilítið hásum róm.

  Afsakið, er það ekki hér sem verið er að gifta.? emoticon 


Já svo er ég ekki grunlaus um að þetta hafi verið dálítið erfiður dagur fyrir hana tengdamömmu.
 






Flettingar í dag: 364
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420364
Samtals gestir: 38305
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 12:08:16
clockhere