07.12.2010 23:17

Mjólkurkvótauppboðið. " Fullkomnun fáránleikans."

 Það var þungt hljóðið í bóndanum sem hringdi í mig í gær.

 Hann sagðist hafa bundið miklar vonir við nýtt kerfi í mjólkurkvótaviðskiptum enda löngu hættur að reyna að kaupa framleiðslurétt gegnum það gamla.( Ætla ekki að hafa eftir það sem við vorum sammála um þar.)

 Nú hugsaði hann sér gott til glóðarinnar enda búinn að leggja fyrir síðustu ár allnokkra upphæð í tilvonandi kvótakaup.

 Hann hringdi í þjónustufulltrúann sinn í bankanum og bað um bankaábyrgð út á innnistæðuna sína sem yrði þá fryst á meðan.

 En þá fór allt í klessu.

 Þjónustufulltrúinn upplýsti hann um það, að því miður yrði umsókn um bankaábyrgð vegna kvótatilboðs að leggjast fyrir "lánanefnd" sem starfaði í aðalbankanum í Rvík.

 Til þess að hún tæki málið fyrir yrði að liggja fyrir úttekt á rekstri bóndans, hvað hann ætlaði að kaupa mikið magn og hversu hátt hann myndi bjóða í hvern lítra mjólkur.
Því miður skipti engu þó hann ætti inni fyrir kaupunum, svona væri kerfið.

Aðspurður sagði hann að bankinn tæki 1/2 % af upphæðinni í þóknun og hann hélt nokkra tölu um það, að sú upphæð myndi nú ekki duga fyrir kostnaði bankans við þetta umstang allt.

 Síðan yrði bóndinn að leggja fram þinglýsingarvottorð (innan við 5 daga gamalt) til að sanna að hann hefði yfir lögbýli að ráða. Það myndi kosta nokkur þúsund.

Þegar bóndinn spurði  dolfallinn hvers vegna kaupandi greiðslumarks sem ætti fyrir kaupunum þyrfti að sýna þinglýsingarvottorð til viðbótar við allt hitt ruglið benti bankamaðurinn honum á að spyrja Jón Bjarnason að því.

 Þetta gerði hann þrátt fyrir að Jón hafi margsýnt það í sjónvarpsviðtölum að hann er snillingur í að svara ekki beinskeyttum spurningum.

 Og bóndanum sem nokkrum mínútum áður hafði fundist það minnsta mál í heimi fyrir bankann hans að gefa bankaábyrgð út á innistæðu sem yrði fryst, meðan ábyrgðin stæði, féll nú allur ketill í eld.
Ekki bætti það ástandið ef bankamaðurinn sem þjónustaði trúlega alla kvótabjóðendur og kvótaseljendur á svæðinu, væri kominn með yfirsýn yfir bæði sölu og kauptilboð viðkomandi bænda.  Eins gott að hann stæði undir þeirri ábyrgð.

 Þar með þakkaði hann þjónustufulltrúanum samtalið og lagði á.

Hvað gera bændur svo spurði ég ?

 Ætli ég taki bara ekki út 5 millurnar mínar fyrir næsta uppboð, fari með þær í plastpoka á Selfoss og biðji Sverri fyrir þær framyfir uppboðið.

Það væri fullkomnun fáránleikans.

Best að hafa þær í þúsundköllum bætti hann svo við.

 Ég ætla svo að bíða með að vitna í samtal bóndans sem þurfti á bankaláni að halda til að gera kauptilboð í mjólkurkvóta.

En óneitanlega læðist sá grunur að mér að möppudýrin hafi algjörlega sleppt fram af sér beislinu þegar kvótauppboðsreglunum var snarað yfir á íslenskuna.

 Og einhverra hluta vegna er hagsmunagæsla okkar bændanna afar hljóðlát um framkvæmdina??

 

 
Flettingar í dag: 1968
Gestir í dag: 119
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432896
Samtals gestir: 39922
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 09:37:09
clockhere