16.07.2010 21:56

Einn og hálfur á blogginu.

Þetta var nokkuð skemmtileg ferð sagði ég við kunningja minn.

Það var fyrir óralöngu síðan og ég var að segja honum frá hestaferð sem ég var nýkominn úr.

Hvað var svona skemmtilegt spurði hann.

Nú það var talað svolítið, gerðar nokkrar vísur, sungið smá og dúllað við að laga nokkur hross svaraði ég.

 Voruð þið mörg spurði hann og þagði síðan lengi, þegar ég sagðist nú bara hafa verið einn.

Þú hefur þá verið einn og hálfur sagði hann svo eftir langa umhugsun.

Ég svaraði ekki svona ósvífni.

 Þetta er dálítið svona á blogginu hjá mér.

Ég tala við sjálfan mig í einsemdinni hér,  geri stundum vísu ef tilefni gefst en sem betur fer kemst sönglið ekki til skila á netinu, enda myndi það þýða áhorfshrun.

Og stundum leyfi ég ykkur að fylgjast með þegar ég dúlla svolítið í hundunum mínum.


 Skessa frá Hæl var fyrsti  hundurinn sem ég dúllaði dálítið mikið við.

 Mér líður ákaflega vel með þetta, annars væri ég ekki að standa í þessu.

Þó mér líði oft ákaflega vel einn með sjálfum mér, þá finnst mér alltaf skemmtilegt að fá eitt og eitt comment og einstaka stimplun í gestabókina.

 Það er ákaflega breiður hópur sem heimsækir mig hér og þó ég hefði upphaflega séð fyrir mér bændafólkið að fylgjast með gangi mála, þá er umtalsverður hluti þeirra sem kíkja hér öðru hvoru inn, ekta þéttbýlisbúar.

Gaman að því.

 Og símtölin sem ég hef fengið eru af margvíslegustum toga.
Mörg þeirra tengjast hundum en önnur eru um ólíklegustu málefni.

Sá sem hringdi síðast í mig var sunnlendingur að fá ráðgjöf um hvar hann ætti að kaupa lífhrút vestan varnargirðingar. Ég kannaðist við hann af afspurn og tók þessu erindi að sjálfsögðu ljúfmannlega og benti náttúrulega sérstaklega á þá sem versla bygg af mér.
Sunnlendingurinn sagðist kíkja reglulega inn á síðuna mína og þetta væri besta
 " hestabloggsíða " landsins. !
Eftir á að hyggja botnaði ég reyndar ekkert í samhenginu á þessu.

Það kemur stundum fyrir að ég fæ einkapósta um eitthvað bloggefnið, ýmist með spurningum um nánari úskýringar eða einhverjum vangaveltum um efnið.

M.a. hafa 4 þungavigtamenn í félagsmálum bænda séð ástæðu til að gera þetta.

Sumir þessarra pósta ættu fullt erindi sem athugasemd við viðkomandi blogg en ég virði það að sjálfsögðu ef menn vilja síður blanda sér beint í umræðuna.

 Flettingarnar á síðunni minni eru mjög hjartastyrkjandi og segja mér það að gestirnir nenna að lesa löngu bloggin og skoða eitthvað sem þeim finnst áhugavert hjá mér.

Þar kemur mér mest á óvart stöðug umferð um sveitarfélagssíðuna mína þar sem 20 - 40 flettingar á dag eru algengar.

Já, mér hefur svo sýnst að þegar menn eru sestir niður og farnir að skrifa um bloggið sitt, þá sé stutt í að það leggi upp laupana.emoticon 

 Og nú er allt hey komið í plast, mín heittelskaða komin heil til byggða úr gönguferðinni og engin vandamál í kortunum.emoticon 

Flettingar í dag: 737
Gestir í dag: 119
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420737
Samtals gestir: 38357
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 23:29:32
clockhere