30.11.2016 20:47

Að tryggja fjárhundinn.

Eitt af alltof mörgum áhugamálum sem hafa fylgt mér nokkuð lengi er að geta tryggt hundana mína.  

 Vildi bara geta gengið inn í tryggingarfélagið mitt og tryggt smalahundinn rétt eins og smalaklárinn.
  Þegar ég fór að kanna þetta fyrir  svona 10 árum var mér bent kurteislega á að til þess að geta tryggt hund yrði hann að vera skráður í HRFÍ o.sv.frv. 
 Impraði á þessu öðruhvoru  við þjónustufulltrúann minn  sem var mér algjörlega samála. 
 Hún hélt málinu síðan við með umræðu við þungavigtarliðið á höfuðstöðvunum en komst ekkert áfram. 

  Fyrir 4 árum þegar Korka var farin að sýna hvað í henni bjó  og ég hafði misst föður hennar Tinna frá Staðarhúsum í slysi,,ákvað ég að herða róðurinn.  Það endaði með því að ég komst í beint samband við aðalhundakonu tryggingarfélagsins míns.  
 Sú upplýsti mig fljótlega í samtalinu um að hún væri stjórnarmaður í HRFÍ og gjörþekkti málaflokkinn. 
  Óþarft er að tíunda viðhorf HRFÍ til BC fjárhunda sem ræktaðir eru án þeirrar handleiðslu enda áttaði ég mig fljótt á því hvernig okkar samskipti myndu enda. 

 Hún féllst þó á það að eðlilegt væri að bændur gætu tryggt fjárhundana sína.
    Svona fyrir hvolpsverðinu og uppeldiskostnaði, annað væri erfitt að samþykkja. 

  Skyldi því, ja- talsvert mikið í milli í verðmætamati okkar á góðum fjárhundi.

  Lauk þar með tilraunum mínum til fjárhundatrygginga í það sinn. 

  Nú kom að því að ég fer að selja tamda hunda.  Verðmætið var misjafnt en varð fljótlega það hátt að kaupendum var ráðlagt að tryggja þá ef það næðist. 
 
 Þá gerðist það að þegar hamingjusamur hundseigandi birtist með reikning fyrir smalahundi var hann tryggður vafningalaust eða lítið  Þetta þótti mér firn mikil  en ánægjuleg  og fljótlega þróaðist þetta þannig að tamdir hundar voru seldir með heilbrigðisskoðun dýralæknis og reikningi og dugði þetta til tryggingar hundsins.  

Í sumar kom svo að því að ég flutti inn taminn hund.  Þetta var töluverð fjárfesting og  dálítið hærri tölur en sjást í hundabraski  hér innanlands.  
  Samkomulag sem ég taldi mig hafa við tryggingarfélagið mitt stóðst ekki þegar á reyndi og lauk þeim samningum með því að mér var boðin trygging sem átti að vera algjört þak á "markaðsvirði " taminna fjárhunda. 

Rétt að taka fram að " þakið " var mjög ásættanleg upphæð  að mínu mati fyrir innanlandsmarkaðinn.

  Já " markaðsvirði"  er lausnarorð sem mikið er notað hjá agentum tryggingarfélaga í verðlagningu fjárhunda. 
  Nú stóð svo heppilega á að komið var að nokkuð reglulegu útboði trygginga hjá búinu.  
Drifið var í lokuðu útboði til 3 félaga og þar var  m.a. hundurinn góði settur á föstu verði með tilheyrandi útskýringum. 
  Niðurstaðan úr útboðinu var sú að búið er komið með hagstæðan tryggingarpakka, Sweep tryggður í bak og fyrir og fullt samkomulag um  aðrar hundatryggingingar sem óskað yrði eftir. 

  
   

  Það var ekki slæm tilfinning þegar ég renndi við hjá nýjum umboðsmanni á föstudaginn,  dró heilsufarsvottorð fyrir hana Korku mína upp og gekk frá tryggingu fyrir hana . 
  Líftryggingu, sjúkrakostnaðartryggingu  og ræktunartryggingu. 

  Reyndar er hún ómetanleg svo líftryggingarupphæðin var mjög hófleg.emoticon  Það var kannski sjúkrakostnaðartryggingin sem ég var mest að spá í eftir að hafa heyrt ótal hryllingssögur um þann málaflokk hjá kollegum.

 Nú , svo er bara að vona að aldrei muni reyna á tryggingarnar emoticon

26.10.2016 07:59

Af hrútum , - og hraðri starfsmannaveltu.

   Þó gerningar augnabliksins staldri kannski óþarflega stutt við á harða diskinum droppar þar stundum upp eitthvað sem ég hef upplifað, - jafnvel næstum   aftur  á miðja síðustu öld emoticon

   Eitt af mörgum uppáhalds í húsdýraflórunni  í den var hrútafloti heimilisins.
 Þeir urðu að vísu misgóðir vinir mínir enda misskemmtilegir í umgengni.

 Sumir þeirra urðu rígfullorðnir enda gæðaeftirlitið og kröfugerðin frekar slöpp miðað við þann harða heim sem afkomendur þeirra búa við í dag.emoticon
  
 Fyrirtæki sem þekkt eru fyrir hraða starfsmannaveltu er oft frekar illa þokkuð en hrússarnir eiga sér hinsvegar formælendur fáa þó meðalaldur þeirra fari hratt lækkandi á þessum síðustu og verstu emoticon

  Það er einkum tvennt sem veldur því.

Annarsvegar  virðist hrútastofninn standa sérlega veikur fyrir kvillum sem þekktust ekki ,- allavega hér,- fyrir nokkrum árum.

 Þar eru kregða, barkabólga og einhver óupplýst uppdráttarsýki drýgst.

 Hinsvegar er það tæknin sem miskunnarlaust vegur og metur kynbótahæfaleika gripsins hratt og örugglega  um leið og afkomendurnir eru komnir í gegn um ásetningsúrtakið og  hvíta húsið , - þau sem enda þar..


  Hér er hrútafloti Dalsmynnis sf. komandi vetur ( mínus 1 seldan ).

 Sá veturgamli á myndinni átti 50 afkomendur sem enduðu í hvíta húsinu.

Meðalþyngd þeirra var um hálfu kg. meiri en félaga hans og jafnaldra sem átti 39 lömb í samanburðinn. Auk þess  kom hann betur út í gerð og fitu.

 Ég minnist þess reyndar ekki að hafa séð svona afgerandi mun milli hrúta í uppgjöri og hjá þessum Saumssyni og kollekum hans, heimaræktuðum eða sæðisstöðvarhrútum.


                                      Nagli Saumsson

  Nú er það bara spurningin hvort hann stendur af sér félaga sína næsta haust ,- ef hann missir ekki heilsuna vegna einhverra nýmóðins krankleika.

Já , Þetta var öðruvísi skemmtilegt í gömlu góðu dagana.


18.10.2016 08:25

Að vera góður í hausnum.

 
 Ég hef þá ófrávíkjanlegu skoðun að það sem er milli eyrnanna á hundunum mínum sé það sem skiptir langmestu máli. 

 Ef hausinn á þeim er ekki í lagi þá henta þeir mér ekki í það sem ég ætla þeim.

Í vetur var ég í sambandi við erlendan kollega , hafði skoðað myndbönd af hundi sem hann átti og ég hafði áhuga á.     
 Síðan sent honum nokkrar spurningar um  hitt og þetta sem ekki var hægt að meta á myndböndum.

 Svarið var stutt og laggott.

 Hann er góður í hausnum, - mjög góður. Og það eru engin vandamál í samskiptum og umgengni. .

 Ég spurði einskis frekar. emoticon

  Ég var að setja saman stutt myndband í gær og velti því fyrir mér í leiðinni að þarna  væru í akssjón nokkur grundvallaratriði sem mér finnst svo mikils virði.

   Þarna sést Korka í um 600 - 800m. úthlaupi fyrir tvær tvílembur. 

Aðstæður voru þannig að hún staðsetti kindurnar en síðan sá hún ekkert til þeirra fyrr en rétt í lokin. Þá höfðu þær hækkað sig í hlíðinni og um leið og hún áttar sig á því er tekin 90 gr. beygja upp til að halda áætlaðri fjarlægð. 

  Tvílemburnar voru sitt úr hvorri áttinni, önnur frá Dalsmynni, hin sunnan af Mýrum.  Ekkert sem hélt þeim saman. 
  Vinnulagið sem hún sýnir bæði í úthlaupi og því að halda þeim saman er meðfætt þó það hafi slípast til og þjálfast upp í tímans rás.  

  Þarna sést líka hvað flestar skipananna frá mér eru í raun óþarfar því Korka er alveg með þetta allt í eðlinu. 

  Á síðustu sekúndunum sjást vel viðbrögðin þegar önnur kindin ræðst á Korku.

  Köld,ákveðin og yfirveguð og kindinni sleppt um leið og hún gefur eftir. 

Allt meðfætt og ómetanlegur eiginleiki ;) 

Á þessu andartaki heyrist vel þegar ég gef ósjálfrátt skipun um að " taka í "og
 " sleppa ". 
 Algjörlega óþarfar skipanir enda komu báðar of seint.

  En þetta eru ósjálfráð viðbrögð smalans, brennd í hausinn á honum eftir áralanga vinnu við hundatamningar. emoticon

  Ég hef svo aldrei átt hund sem mér hefur þótt nógu ákveðinn en Korka er býsna nærri því. 

  


                            Komnar í höfn .

 Þið sem eruð í hundahugleiðingum ættuð að pæla í þessu myndbandi.

Vinnulaginu , vinnufjarlægðinni og þessari ákveðnu en stresslausu framgöngu. 

 Sem betur fer er talsvert til í BC flórunni hérlendis sem hefur svona gen í hausnum.

Svo er náttúrulega  ekki verra að hausinn á okkur, þessum tvífættu sé ekki til vandræða .emoticon

 Já , og myndbrotið er.  HÉR
 

 
Flettingar í dag: 601
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 688
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 2727040
Samtals gestir: 400815
Tölur uppfærðar: 8.12.2016 09:05:52
clockhere