Færslur: 2008 Janúar

10.01.2008 23:13

Halli frændi.


  Í dag fylgdi ég Halla fænda til grafar.

Halli var bróðir mömmu og  orðinn 81 árs gamall þegar hann lést.
Þó það það sé eðlilegur gangur lífsins að 81  árs gamall maður sem búinn er að tapa heilsunni falli frá, fer ekki hjá því að minningavídeóið á harða diskinum fari í gang þegar það gerist.
  Fyrir þrjátíu og eitthvað árum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem bíleigandi átti ég, sérstaklega til að byrja með hvern bílinn á fætur öðrum sem væru löngu komnir á haugana hefðu þeir verið uppi í dag. Þegar ég fór að óttast um líf þeirra,  var flikkað uppá þá eins og hægt var,skrapað  saman allt tiltækt skotsilfur og brennt í bæinn til að skipta upp eins og maður kallaði það.
Í einni slíkri ferð eru að komast á viðskipti, þegar í ljós kom að eitthvað vantaði uppá að tiltækt skotsilfur dygði fyrir milligjöfinni. Þar sem aðilar voru áhugasamir um að ná saman, bíleigendur vegna gruns um ótímabær endalok bifreiðanna og bílasalinn sem var sá eini græddi á gerningnum var ákveðið að loka gatinu með víxli. Þá vandaðist málið því sveitalúðinn var einn og vinalaus í bænum og greinilega lítið á hann treystandi án ábyrgðarmanns. Þá minntist ég þess að móðurbræður mínir tveir sem ég þekkti nánast ekki nema af afspurn ráku saman bifreiðaverkstæði í bænum og ákvað að leita ásjár þeirra.
  Þeir tóku mér vel og hlustuðu með athygli þegar ég uppburðarlítill, sveittur og stamandi bar upp erindið.Ég hafði ekki lokið framsögunni þegar Halli brosti út að eyrum , greip víxilinn úr höndunum á mér lagði hann á næsta bíltopp  og skrifað nafnið sitt  þar sem þurfti. Mörgum árum seinna þegar við Halli vorum orðnir vinir rifjaði ég þetta upp fyrir honum og spurði hvers vegna í ósköpunum hann hefði gert þetta athugasemdalaust. Halli glotti við eins og hann gerði þegar  alvarleiki lífsbaráttunnar var honum víðsfjarri ,sem var nú oftast og sagði að þó honum hefði náttúrulega ekkert litist á sveitamanninn,  þá vissi hann að pabbi stráksins væri algjör heiðursmaður og myndi draga hann á land ef illa færi.
 Áhugamál okka Halla lágu saman í veiðinni og þó hann væri drýgstur í skotveiðinni kom hann þó nokkrum sinnum með strákunum sínum eða öðrum félögum í Núpána. Mér verður oft hugsað til hans þegar  veiðimenn sem taka tvo tíma í að  græja sig í ána keyra svo uppeftir og niðureftir á tröllajeppunum sínum , veiða að sjálfsögðu ekkert og mæta svo grautfúlir í lokin og fullyrða að enginn fiskur sé í ánni. Halli kláraði úr pípunni sinni, fór í gömlu bússurnar sínar og Álafossúlpuna, frábað sér allan félagsskap og akstur og rölti í rólegheitum með ánni og náði alltaf fisk..

   Mér þótti vænt um það þegar Kári hringdi og bað mig um að bera kistuna með þeim frændunum og þegar kistan seig niður í gröfina kom upp í hugann þegar öðlingurinn lét eins og hann hefði unnið stóra vinninginn þegar hann bjargaði frænda sínum með víxillinn.

09.01.2008 11:54

Sjaldan er ein báran stök.


  Eftir gott heilsufarstímabil í fjósinu kom í Góa í mjaltabásinn með jógúrt í einum spenanum.(Bragðtegund óljós) Trúlega hefur hún orðið fyrir hnjaski frá einhverri stallsystir sinni.Lítið sást/fannst að júgrinu að öðru leiti og batahorfur því mjög góðar. Í næsta holli kom önnur með slæmt spenastig en það hefur verið nánast óþekkt í fjósinu sem betur fer.
 Vegna þess að stundum læt ég ógætileg orð falla um íslensku landnámskúna
þá get ég upplýst það, að ef þær væru alla eins og hún Góa myndi ég ekki kvarta eins mikið.

 Hún er orðin 7 ára gömul  og er nú á sínu fimmta mjaltaskeiði. Á því síðasta mjólkaði hún rúma 7000 litra og mun væntalega fara hærra núna ef ekkert kemur uppá. Því miður fer fyrir henni eins og öðrum kúm hér sem eru að skila nyt yfir meðaltalinu að júgrað slitnar niður sem aftur leiðir til mikilla vandræða við mjaltir og gerir kúnni erfitt fyrir með allar gönguferðir hvort heldur er til heilsubóta eða næringar. Það verður samt reynt að halda í hana eitt mjaltaskeið til viðbótar.
 Þetta er kýr sem skoraði hátt í dómi sem kvíga, fyrir júgur spena og mjöltun og myndi trúlega koma til greina sem nautsmóðir ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um það að haga skýrsluhaldi þannig að ekki verði sóttir "kynbótagripir" hingað.
 Já það verður  mjög langt langtímaverkefni að koma kúastofninum okkar í ásættanlega ræktun og alltaf mun obbinn af erlendum starfsbræðrum okkar vera langt á undan okkur í ræktuninni. Amen.

08.01.2008 10:30

90 % öryggi ??


 Eitt af því sem bóndinn er að glíma við í búrekstrinum er ræktunin á búpeningnum. Framá síðustu öld var þetta með líku sniðiog frá upphafi Íslandsbyggðar, menn baukuðu við þetta hver á sínu óðali og sóttu hrút  eða naut til nágrannans en stóðhestarnir héldu hver utanum sínar merar úti í víðáttunni eftir því hversu öflugir þeir voru.
 Nú er þetta þannig að í sauðfjár og nautgriparæktinni er víða byggt á "aðfluttu" erfðaefni við kynbæturnar og fjárstofnar eins og séra Guðmundarkynið hjá Bjarti í Sumarhúsum heyra víðast sögunni til.
 Vandamálið við þetta er að  menn hafa mismunandi skoðanir/áherslur á ræktunarmarkmiðum. Dæmi um það gæti verið kúabóndinn með básafjósið sem vill ekki það lausmjólka kýr að þær leki sig í básinn þegar róbótabóndinn þar sem kýrnar eru mjólkaðar nokkrum sinnum á dag og eiga að stoppa  stutt í mjöltun vill ekkert nema slíkar kýr. 
Annað dæmi gæti verið að draumahrossin mín eru stór falleg hross mjög viljug og flugrúm á brokki og tölti en skeiðið skiptir mig engu nema til að ná hinum markmiðunum..
Ræktandinn sem ég hitti í gær sagði mér hinsvegar að reiðhross sem hann gæti ekki lagt á skeið þegar hann vildi stoppuðu stutt í sinni eigu. 
 Ég trúi því að ræktandi sem leiðir saman valda góða einstaklinga sem hann þekkir baklandið hjá sé 90 % öruggur um ásættanlega útkomu . Tvö góð hross skili góðu hrossi o.sv.frv. Gott dæmi um hvað menn leggja á sig í þessari trú var þegar hundur var settur uppí flugvél austur á Egilstöðum,flogið til Reykjavíkur og síðan ekið vestur á Snæfellsnes til fundar við tík þar.Útkoman var ágætlega  ásættanleg.
 Hópurinn sem kom saman nú á haustmánuðum og stofnaði ræktunarfélag í kringum nokkurra mán. gamalt hestfolald sem stofnað var til með þessu hugarfari deilir örugglega þessari trú með mér. Til marks um það hvað spennandi hlutir eru svo að gerast í hrossaræktinni í dag er rétt að geta þess að þetta hestfolald var metið á sextán milljónir og eitt hundrað þúsund kr. í dæminu.
 
Flettingar í dag: 304
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418151
Samtals gestir: 37985
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 21:22:12
clockhere