10.01.2008 23:13

Halli frændi.


  Í dag fylgdi ég Halla fænda til grafar.

Halli var bróðir mömmu og  orðinn 81 árs gamall þegar hann lést.
Þó það það sé eðlilegur gangur lífsins að 81  árs gamall maður sem búinn er að tapa heilsunni falli frá, fer ekki hjá því að minningavídeóið á harða diskinum fari í gang þegar það gerist.
  Fyrir þrjátíu og eitthvað árum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem bíleigandi átti ég, sérstaklega til að byrja með hvern bílinn á fætur öðrum sem væru löngu komnir á haugana hefðu þeir verið uppi í dag. Þegar ég fór að óttast um líf þeirra,  var flikkað uppá þá eins og hægt var,skrapað  saman allt tiltækt skotsilfur og brennt í bæinn til að skipta upp eins og maður kallaði það.
Í einni slíkri ferð eru að komast á viðskipti, þegar í ljós kom að eitthvað vantaði uppá að tiltækt skotsilfur dygði fyrir milligjöfinni. Þar sem aðilar voru áhugasamir um að ná saman, bíleigendur vegna gruns um ótímabær endalok bifreiðanna og bílasalinn sem var sá eini græddi á gerningnum var ákveðið að loka gatinu með víxli. Þá vandaðist málið því sveitalúðinn var einn og vinalaus í bænum og greinilega lítið á hann treystandi án ábyrgðarmanns. Þá minntist ég þess að móðurbræður mínir tveir sem ég þekkti nánast ekki nema af afspurn ráku saman bifreiðaverkstæði í bænum og ákvað að leita ásjár þeirra.
  Þeir tóku mér vel og hlustuðu með athygli þegar ég uppburðarlítill, sveittur og stamandi bar upp erindið.Ég hafði ekki lokið framsögunni þegar Halli brosti út að eyrum , greip víxilinn úr höndunum á mér lagði hann á næsta bíltopp  og skrifað nafnið sitt  þar sem þurfti. Mörgum árum seinna þegar við Halli vorum orðnir vinir rifjaði ég þetta upp fyrir honum og spurði hvers vegna í ósköpunum hann hefði gert þetta athugasemdalaust. Halli glotti við eins og hann gerði þegar  alvarleiki lífsbaráttunnar var honum víðsfjarri ,sem var nú oftast og sagði að þó honum hefði náttúrulega ekkert litist á sveitamanninn,  þá vissi hann að pabbi stráksins væri algjör heiðursmaður og myndi draga hann á land ef illa færi.
 Áhugamál okka Halla lágu saman í veiðinni og þó hann væri drýgstur í skotveiðinni kom hann þó nokkrum sinnum með strákunum sínum eða öðrum félögum í Núpána. Mér verður oft hugsað til hans þegar  veiðimenn sem taka tvo tíma í að  græja sig í ána keyra svo uppeftir og niðureftir á tröllajeppunum sínum , veiða að sjálfsögðu ekkert og mæta svo grautfúlir í lokin og fullyrða að enginn fiskur sé í ánni. Halli kláraði úr pípunni sinni, fór í gömlu bússurnar sínar og Álafossúlpuna, frábað sér allan félagsskap og akstur og rölti í rólegheitum með ánni og náði alltaf fisk..

   Mér þótti vænt um það þegar Kári hringdi og bað mig um að bera kistuna með þeim frændunum og þegar kistan seig niður í gröfina kom upp í hugann þegar öðlingurinn lét eins og hann hefði unnið stóra vinninginn þegar hann bjargaði frænda sínum með víxillinn.
Flettingar í dag: 444
Gestir í dag: 148
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424181
Samtals gestir: 38713
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 21:44:28
clockhere