Færslur: 2008 Janúar

03.01.2008 22:01

Vorblíða í sveitinni.

 Já í dag var hér vorblíða 7 stiga hiti en blessuð sólin var samt fjarri góðu gamni.
 Snjórinn sem var nú laus í sér hverfur hratt og snjósleðafærið sem ekki á að haggast fyrir ofan ákveðna hæðarlínu á þessum árstíma lætur því miður undan eins og veikgeðja hundur fyrir óagaðri rollu (úr Kolbeinsstaðarhrepp.)
Það var farið í Borgarnes að útrétta hitt og þetta um leið og beygjutjakkurinn var sóttur þangað sem hann var í láni. Atli er kominn í mikinn ham við bílsmíðarnar því hann vill trúlega ekki upplifa annað snjótímabil með torfærutækið óklárt á verkstæðinu. Hann leit þó upp frá verkinu þegar ég fór að velta fyrir mér hugsanlegum plægingum ef hlýindin héldust. Það verður svo  kannað á morgun hversu mikill klaki er í jörð. Já það er í lagi að sólin haldi sig bak við skýin í nokkra daga í viðbót við alla hina svo ekki kólni.

02.01.2008 20:31

Litið um öxl.


  Við tókum rögg á okkur í dag og skráðum endanlega niður hvernig ærnar skiptust niður á hrútana,Veðrið var gott og rekstrargangurinn er utandyra og gekk þetta hratt fyrir sig.

  Þó maður velti kannski of lítið fyrir sér því sem betur hefði mátt fara er þó helst að það sé gert á áramótum og náttúrulega þegar rekstrarniðurstaða ársins liggur fyrir.
  Síðasta ár var býsna gott í sauðfénu frjósemi,heimtur og fallþungi allt í góðu lagi en hér er féð fóðrað án nokkurs kjarnfóðurs nema gimbrarnar fá um 80 gr af byggi á dag frá fengitíma og framúr.
Hjá kúnum var árið líka þokkalegt .Nytin fer hækkandi og yfirstandandi framleiðsluár lítur mjög vel út(miðað við kúastofninn). Í september kom júgurbólguskot í fjósið en það var tekið föstum tökum og nú er t.d. engin kú í meðferð.Inni í föstum tökum var m.a. að nota alltaf júgurhreinsilög í þvottinn og sótthreinsa spena að loknum mjöltum. Smá aukavinna sem venst ágætlega.Frumutalan helst í  kringum 150 þ. sem er talsvert undir meðaltalinu. Það eru keyrðar inn fjóra heyrúllur í einu á fóðurganginn,tvær vallarfox,há og rýgresi og þær duga í um 3 daga.Þetta eru að vísu alvörurúllur(140 cm .í þvermál).
 Það sem af er vetri hefur síðan ekkert súrdoðatilfelli komið upp sem er frábært.
Það sem helst angrar mann í daglegu umhirðunni eru mismjólka, fastmjólka, júgursíðar,  afurðalitlar og skapillar kýr sem maður verður að búa við
 meðan" meirihlutinn"  telur sér og öðrum trú um að þetta eigi að vera svona.
Reyndar lætur maður það ekki angra sig mikið en minnist á það öðruhvoru til að angra "meirihlutann" sem tekur það alltaf jafnnærri sér.

01.01.2008 23:20

Gleðilegt nýtt ár !!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna ! Hafið það sem allra best á nýju ári ....

Í gær á gamlársdag var maður rifinn á lappir um 8 leytið til að gera til fyrir níræðisafmælið hans afa í Reykjavík. Síðan var brunað í bæinn í svona líka "æðislegu" veðri, þó að ég hafi ekki mikið orðið þess vör því ég steinsvaf
Í afmælinu spændi maður í sig margréttuðum mat, kökum og kaffi, við sveitafólkið þurftum svo að drífa okkur heim til að ná mjöltum           


Ekki var veislunni svo lokið því um kvöldið var okkur boðið í mat til Atla og Guðnýjar á efri bænum... Þar fengum við enn meira að borða og svo var setið og horft á skaupið sem vakti mismikla lukku innan fjölskyldunnar flestum fannst það frekar þunnt, en það hafði sína punkta.
Þegar klukkan var farinn að nálgast tólf var Atli drifinn út í óveðrinu til að kveikja í einni tertu upp á stemminguna, Kolbrún Katla var svo dugleg að draga Atla og Guðnýju fram til að kveikja á stjörnuljósum fyrir sig þó hún væri dauðhrædd við að koma nálægt þeim (stjörnuljósunum  )                                                                                             

Öllum brennum var frestað í bænum ... og ef einhverjar voru planaðar í sveitinni var þeim örugglega frestað líka. En það á að vera þrettándabrenna í Söðulsholti næsta laugardag af einhverjum sérstökum ástæðum.

Í dag hef  ég ekki afrekað mjög mikið, ég sat og hjálpaði Dóra við að uppfæra Söðulsholtssíðuna og gera tenglalista sem ég mæli með að fólki kíki á. Ég fór síðan í ágætisgöngutúr með 8 hunda sem voru bæði héðan og gestkomandi , meira að segja Vaskur gamli nennti með mér því en eina ástæðan fyrir því hefur verið að húsbóndinn var ekki á staðnum

En annars bið ég bara að heilsa og hér og þar í þessu bloggi fáiði flugelda í mínu boði til að bæta upp fyrir hversu litlu var skotið upp í gær 
                                                                                                                                                                                   
Halla Sif :o)



Flettingar í dag: 1125
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 402866
Samtals gestir: 36620
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 19:02:10
clockhere