08.01.2008 10:30

90 % öryggi ??


 Eitt af því sem bóndinn er að glíma við í búrekstrinum er ræktunin á búpeningnum. Framá síðustu öld var þetta með líku sniðiog frá upphafi Íslandsbyggðar, menn baukuðu við þetta hver á sínu óðali og sóttu hrút  eða naut til nágrannans en stóðhestarnir héldu hver utanum sínar merar úti í víðáttunni eftir því hversu öflugir þeir voru.
 Nú er þetta þannig að í sauðfjár og nautgriparæktinni er víða byggt á "aðfluttu" erfðaefni við kynbæturnar og fjárstofnar eins og séra Guðmundarkynið hjá Bjarti í Sumarhúsum heyra víðast sögunni til.
 Vandamálið við þetta er að  menn hafa mismunandi skoðanir/áherslur á ræktunarmarkmiðum. Dæmi um það gæti verið kúabóndinn með básafjósið sem vill ekki það lausmjólka kýr að þær leki sig í básinn þegar róbótabóndinn þar sem kýrnar eru mjólkaðar nokkrum sinnum á dag og eiga að stoppa  stutt í mjöltun vill ekkert nema slíkar kýr. 
Annað dæmi gæti verið að draumahrossin mín eru stór falleg hross mjög viljug og flugrúm á brokki og tölti en skeiðið skiptir mig engu nema til að ná hinum markmiðunum..
Ræktandinn sem ég hitti í gær sagði mér hinsvegar að reiðhross sem hann gæti ekki lagt á skeið þegar hann vildi stoppuðu stutt í sinni eigu. 
 Ég trúi því að ræktandi sem leiðir saman valda góða einstaklinga sem hann þekkir baklandið hjá sé 90 % öruggur um ásættanlega útkomu . Tvö góð hross skili góðu hrossi o.sv.frv. Gott dæmi um hvað menn leggja á sig í þessari trú var þegar hundur var settur uppí flugvél austur á Egilstöðum,flogið til Reykjavíkur og síðan ekið vestur á Snæfellsnes til fundar við tík þar.Útkoman var ágætlega  ásættanleg.
 Hópurinn sem kom saman nú á haustmánuðum og stofnaði ræktunarfélag í kringum nokkurra mán. gamalt hestfolald sem stofnað var til með þessu hugarfari deilir örugglega þessari trú með mér. Til marks um það hvað spennandi hlutir eru svo að gerast í hrossaræktinni í dag er rétt að geta þess að þetta hestfolald var metið á sextán milljónir og eitt hundrað þúsund kr. í dæminu.
 
Flettingar í dag: 347
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424084
Samtals gestir: 38639
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 14:32:19
clockhere