Færslur: 2010 September

08.09.2010 07:19

Þresking hafin á fullu.

 Við Yrkjamenn þurfum að vera nokkuð grimmir við okkur með þroska og þurrefnisstig byggsins við þreskingu.

 Bæði fer umtalsverður hluti uppskerunnar í sölu  þar sem vissar gæðakröfur eru gerðar og síðan er illa þroskað bygg dýrt og ódrjúgt í þurrkun.

 Í hitabylgjunni sem nú stendur yfir gengur þroskinn hratt og nú er hver akurinn á fætur öðrum að verða tilbúinn í þreskingu.



 Fallegt og velþroskað kornið er því farið að streyma í vagnana, þurrkarann og síðan í geymslusílóin með yfir 70 % þurrefni við uppskeru.

Eina sem angrar okkur er að of mikill áburður ( N ) hefur verið notaður sumstaðar í þessari árgæsku sem lýsir sér í gríðarlegri sprettu, seinna þroskastigi og legum á sumum akranna.



 Þessir gróskumiklu akrar sem litu svona út í júlílok eru farnir að gulna verulega en miklar legur hrjá þá og svo er alltof mikið grænt í þeim enn.



 Við erum ekki farnir að taka byggið inn á gólf enn, en það gæti orðið í vikunni ef okkur líst ekki á langtímaspána.

 Ef allt næst upp þá stefnir í uppskerumet og í fyrsta skipti í rækunarsögunni stefnir svo í að við náum sáðkorni til að nota næsta vor.



Það er mikils virði,  því þó maður beri sig mannalega hér á síðunni stendur allt í járnum í byggræktinni og margt dapurt uppskeruárið að baki.

05.09.2010 06:22

Hrossaræktin. Allar stóðhryssurnar sónaðar með fyli.

Ég er mikill hentistefnumaður í hrossaræktinni og geng að henni með hæfilegu kæruleysi.

 Eftir að ég dubbaði einu hryssuna sem ég átti eftir, Von frá Söðulsholti  upp sem ræktunarhryssu hef ég alfarið haldið mig við dálítið sérstaka stóðhesta fyrir hana.

  Hún hefur síðan látið koma krók á móti bragði og rauða hryssan sem ég hef beðið eftir er ókomin enn.

Í vor var það rauðstjörnótt hestfolald undan Sigri frá Hólabaki.



 Hann ber nafnið Dreyri frá Dalsmynni og þess er beðið á hverju kvöldi, svona með hinum kvöldbænunum að hann fá lit föðursins, appelsínugult fax og dökk, dökkrauðan lit á skrokkinn.

Að sjálfsögðu fer hann svo ýmist um á brokki eða tölti.


Sigur frá Hólabaki er sérstakur á litinn og reiðheststýpa sem ég sækist eftir.Nú fer að koma í ljós hvernig hann skilar því til afkvæmanna.

 Von er semsagt fengin og í þetta sinn með Arði frá Brautarholti og hvort það verður 6. hesturinn hjá henni kemur vonandi í ljós í fyllingu tímans.

  Afgangurinn af stóðhryssunum þetta árið er Fjóla frá Árbæ sem ég á þriðjungshlut í. og nú var komið að mér að halda henni.



 Það er búið að staðfesta  í henni fyl undan Fláka frá Blesastöðum.

 Undan Von á ég svo 3 ótamda fola og yngri dóttirin þann fjórða.

Þeir eru undan Parker, Hágangi, Eldjárn og Sigri og kannski getur einhver þeirra komist nálægt því að fylla skarðið eftir þennan hér fyrir neðan sem aldrei verður þó fyllt. Hann er enn hóstandi eftir sumarið og mun því ekki komast í göngur þetta haustið.



 Hyrjar Otursson frá Dalsmynni er kominn á aldur og verður ekki járnaður oft  enn.

03.09.2010 19:18

Bann við lausagöngu búfjár á Skógarströnd.- Hafnað af sveitarstjórn.

 Eftir því sem eyðijörðum eða jörðum sem nýttar eru til annars en hefðbundins búrekstrar fjölgar hitnar í umræðunni um lausagöngu búfjár.

 Skógarströnd  sem liggur á norðanverðu Nesinu og tilheyrir Dalabyggð er að stórum hluta komin í eyði.
Þar hefur hópur landeigenda stofnað " Landgræðslufélag* og er eitt af markmiðum þess að girða af mestan hluta Skógarstrandar til að losna við ágang sauðkindarinnar sem er að stærstum hluta í eigu vina minna á Austurbakkanum. Að ætla má með landgræðslu og skógrækt í huga.

 Rætt er um að girða frá sjó til fjalls, eftir háfjallinu og síðan til sjávar aftur .


Horft norður Stóra Langadalinn. Ekki mjög spennandi girðingarstæði ef farið yrði hátt á fjallgarðinn..

Innan þessarar girðingar yrðu allar jarðir frá og með Stóra Langadal til og með Vörðufelli eða um 12 bújarðir.

 Tekist hafði samkomulag við Vegagerðina um að hún kæmi að málinu. Hún skilyrti þá aðkomu hinsvegar með því að sveitarstjórn bannaði lausagöngu búfjár innan girðingar.

 Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 24. ágúst sl var samþykkt samhljóða tillaga Byggðaráðs að hafna  lausagöngubanni  búfjár á Skógarströnd.


Nokkrar eðalrollur með austurbakkablóð í æðum að njóta lystisemda skógræktarinnar í Hrossholti.

Þetta er umræða sem á eftir að aukast verulega næstu ár sérstaklega í héruðum þar sem fjárbúum hefur stórfækkað með tilheyrandi breytingum á landnýtingu.

 Meira að segja hér í Eyjarhreppnum er farið að ræða þetta með ákveðinn hluta niðurlandsins. Þá myndi lausagöngubannið gilda t.d frá 10. júní til 20. sept.

 Innan þess svæðis eru þó forhertar rollukonur eins og Dalmynnis og Kolviðarnesfrúrnar.

 Hernaðurinn frá " aðkomurollunum"  er bara kominn svo gjörsamlega úr böndunum að
trúlega verður að gera eitthvað róttækt ef kyrrð á að komast á magasýrur vesturbakkamanna.

Nú er það svo spurningin hvort landeigendur á Ströndinni gefa skít í vegagerð og sveitarstjórnir og girða.

Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418017
Samtals gestir: 37954
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 10:54:31
clockhere