Færslur: 2010 September

20.09.2010 22:49

Smalaklárinn í skurð.

 Hann Neisti frá Dalsmynni er um margt sérkennilegur hestur. Hann var nokkurra daga gamall þegar ég sá hann fyrst og mér er það minnistætt þegar folaldið tók sig út úr hópnum í réttinni og gekk hiklaust beint til mín og hnusaði af mér.

 Allar götur síðan er hann ákaflega ófeiminn við mannfólkið og fær stundum frekjuköst eins og móðirin.
 Ég man nú ekki af hvaða tilefni ég gaf minni heittelskuðu hann en kannski vegna þess að þetta er nú ekki akkúrat mín hestatýpa.
 Hann er varahestur no. 2 sem smalahestur og var járnaður með hraði þegar þessir alvöru hóstuðu hvor í kapp við annan þegar átti að fara að þjálfa þá upp fyrir leitir.

 Einn af sérstæðum hæfileikum Neista er að hann vippar sér léttilegi yfir skurðgröfuskurði í fullri breidd detti honum það í hug.

 Slíka hugdettu fékk hann í dag.



 Hann hefur ekki verið að vanda sig því þetta var bara vesaldarskurður sem gamli maðurinn gæti kannski hoppað yfir ef á þyrfti að halda.


Hér var hann nú alveg búinn á því en þar sem þetta er afrennsliskurður hitaveitunna var þetta þó bara notalega volgt.


Það er svo eins gott að hann verði ekki lengi með strengi eftir átökin því nú styttist óðfluga í að bóndinn fara að leggja á fjöllin í kringum sig.

19.09.2010 04:57

Leitir í Norðurárdal.

 Oft hef ég á norðurleið rennt augunum inn Sanddalinn og heitið mér því að keyra einhverntímann þarna inneftir. Eins og um mörg önnur góð áform hjá mér hefur ekkert orðið úr því.

 Þegar Hvammsbóndinn hringdi í mig á dögunum og bauð mér í leitir tók ég því strax - í huganum, en dræmlega í samtalinu. Alltaf betra að láta ganga aðeins eftir sér.

 Laugardagurinn fór semsagt í það að smala Sanddalstunguna og Hvammsmúlann.

Og honum var ágætlega varið.


 Ég verð nú að láta þess getið í lítillæti mínu að í leitinni var slegið tvöfalt met. Tungan var leituð á skemmri tíma en dæmi eru um og leitarstjórinn minntist þess ekki að engin kind hefði sloppið á þessu svæði hér,  í fyrri leit.

 Hér er suðurendi Sanddalstungu, vestan hennar liggur Mjóidalur en Sanddalur að austan.
Þetta svæði er sakleysislegt að sjá og virðist auðsmalað en þegar fer að líða á leitina og féð er komið sunnarlega í dalina fer það að að leita upp og inneftir aftur.

 
Leitarslóðinn var nú býsna grófur á köflum en Sverrir og Patrolinn létu sig hafa það að koma leitarmönnum á gangnaskil.

Á leitarskilum borgfirðinga og dalamanna. Snjófjöllin í baksýn.

Ég mætti hinsvegar þungvopnaður til leiks á hjóli og með tvo alvöruhunda. Þetta teymi svínvirkaði svo á þessu svæði.

 Þarna kynntist ég nokkuð sérstæðum fjárstofni sem á nú samt trúlega ættingja hér vestra. Sjá hér.

 Þetta er ekki þykkvaxið fé,allt mislitt og í tveim - þremur reyfum. Það er ekki mjög félagslynt að eðlisfari og fer því gjarnan í allt aðrar áttir en kynsystur þeirra í leitum.



 Þessi hér að ofan er ágætt sýnishorn og rétt náðist á myndina þar sem henni lá talsvert á.

 Hér fyrir neðan  er hún svo komin til byggða en enn nokkuð sérsinna. Þetta eintak var alveg óvanalega mikil um sig og eðlileg í útliti miðað við frænkur sínar.


                                                                                                                                                                 Aðsend mynd.

Þessar kindur hlýddu samt hundunum sæmilega nema ein.

Ég veit nú ekki hvort hún ætlaði í hundana eða yfir þá, en óheppnin var með henni þennan daginn því bæði Vaskur og Snilld voru í útkallinu þegar hún lagði til atlögu.
  Mér sýndist hún vera á a.m.k. 70 km. hraða þegar hún yfirgaf átakasvæðið og stefndi meira að segja í hárrétta átt.

 Það voru uppundir tíu svona eintök sem létu hafa  fyrir sér en allar komust þær til byggða.


 Ég get svo reynt að friða alvöruvini landsins og gróðursins með því að fjórhjól á svona dekkjabúnaði og í höndunum á manni sem veit hvað hann er að gera, skilur eftir sig minni ummerki en tveir hestar.

 Hér er smalagengið svo komið yfir á Hvammsmúlann með Bauluna í baksýn. Þarna voru hundarnir ekki lengur orðnir til stórræðanna.

Það sem mér sýndist erfiðast í leitinni var glíman við að koma því fé sem lenti inn í skógarkjarrinu í Hvammsmúlanum áfram.

Þarna var verið að troða sér gegnum götulaust kjarrið og eins og leitarstjórinn sagði þurftu gangnamenn óspart á andlegri uppörfun að halda sem hann veitti þeim gegnum talstöðvarnar.

 Það er alltaf stór stund í lífi sauðfjárbóndans að sjá fé sitt koma af fjalli og hér er Hvammsbóndinn að yfirlíta hjörðina nokkuð sáttur við daginn.



Það munu væntanlega birtast hér landslagsmyndir úr leitinni áður en lýkur.



17.09.2010 22:48

Leitir og réttir framundan.

Nú fer allt að gerast í rollustússinu en hér í Eyjarhreppnum verður leitað á morgun og réttað í Þverárrétt á sunnudaginn.

 Og það gengur stundum mikið á í réttunum.

Og blogggestirnir mínir eru komnir í smalastuð því það eru margar heimsóknir í smalaalbúmin frá fyrri árum.

 Það er Rauðamelsfjallið og Svínafellið sem verða smöluð á morgun en það er nú fyrst og fremst vinir mínir á Austurbakkanum sem eiga það fé sem þar er.

 Félagi Arnar er greinilega búinn að taka á því í leitinni , annað ístaðið týnt og kominn með farþega.

 Hér er verið að koma niður í fyrra en nú lítur út fyrir toppveður í bæði leit og rétt.

Ég sem hef verið einn af föstum punktum tilverunnar á öðruhvoru þessara leitarsvæða eins lengi og elstu menn muna verð samt fjarstaddur á morgun.

 Og það er óvanalega mikill spenningur í loftinu því nú fer ég á alveg glænýtt leitarsvæði upp í Norðurárdal.
 Í gamla daga meðan á aðalvillimennskunni stóð, var ég í því að safna nýjum leitarsvæðum en það er nú eiginlega aflagt.

En það er nú enn toppurinn að komast á ferskt svæði.

Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414834
Samtals gestir: 37307
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 17:33:40
clockhere