Færslur: 2008 Desember

12.12.2008 22:12

Betri bú og dótabúð.


  Þessi strangi dagur byrjaði nokkuð vel, því að loknum morgunverkum mættu hér tvær blómarósir frá Búvest. Dalsmynni sf. er orðinn þáttakandi í verkefninu  " betri bú " og þær voru að koma með fóðuráætlanir og rekstraryfirlit yfir búreksturinn.

  Við látum tölvuna um að stjórna kjarnfóðurgjöfinni. Henni eru gefnar skipanir um ákveðið gjafakerfi fyrir og fyrst eftir burð og síðan skammtar hún bygg og fóðurblöndu eftir nythæðinni.
Kjarnfóðurbásinn er tveggja hólfa og talvan sér um að skipta byggi og
fóðurblöndu milli kúnna.

  Af sparnaðarástæðum var skipt um kjarnfóður í haust,hætt við háprótinblönduna og farið í DK 20 .
Eftir að Lena var búin að rýna í þetta fram og til baka og setja áætlunina upp með mestu mögulegu byggfóðrun, kom í ljós að þetta var rétta blandan. Kýrnar sem fara hæst um og yfir 40 l. á dag eiga þó að fá tiltölulega lítið bygg í fóðrinu en byggið verður aðalkjarnfóðrið upp í um 30 kg . dagsnyt. Ef þessi áætlun verður látin virka hér er þó ljóst að kjarnfóðurgjöfin mun minnka talsvert í heildina. Þar sem það sem af er vetri hefur verið algjörlega súrdoðalaus verður fróðlegt að sjá hvað skeður ef fóðurstjórnandinn fer að fóðra samkvæmt þessu.

 Og úttekin á rekstrinum varð svo ekki til að skemma góða skapið.

  Það var hinsvegar farið að slá verulega á það þegar ég var búinn að aka austur á Selfoss í þvílíku saltslabbi langleiðina að það hálfa hefði verið nóg..

 Þegar betri helmingurinn er ekki með  til að viðra skoðaninr sínar á dótafíklum, er alltaf kíkt við í
dótabúðinni á Selfossi, þó ekki sé til annars en láta sölumennina ljúga einhverju að manni.
 Þegar ég kom inn í sjoppuna var það fyrsta sem ég sá, tölvuskjár sem stóð á afgreiðsluborðinu og sýndi stanslaust flettimyndir af allskonar dóti. Eftir að hafa horft hugfanginn á hvert glæsidótið á fætur öðru, fannst mér, ég eitthvað kannast við hlutina. Allt í einu rann upp fyrir mér að þarna var innihald myndaalbúmsins míns af "vélum og tækjum," af heimasíðunni minni ljóslifandi komið.

 Nú er bara að láta jólin líða og jafna sig eftir þau, áður en lögfræðingurinn minn verður tekinn með austur fyrir fjall, til að sýna mönnum þar, hvar Davíð keypti ölið (eða Bermúdaskálina).emoticon 
 

11.12.2008 20:49

Eyja- og Miklaholtshreppur.


  Þetta er týpískt dreifbýlissveitarfélag eins og þau voru mörg frameftir síðustu öld. Íbúafjöldinn á rólinu 130-  140 og allt í góðum gír. Svona sveitarfélag missir af þenslunni sem verður í  
 " góðærinu "  og verður ekki svo mikið vart við kreppuna þegar hún hellist yfir.

 Þó fjárhagstaðan sé mjög góð og þjónustustigið í góðu lagi er sveitarfélagið samt í verulegri útrýmingarhættu og á að öllum líkindum ekki mörg ár ólifuð.

  Við vorum að loka fjárhagsáætluninni fyrir næsta ár í gærkveldi og mesta óvissan var með jöfnunarsjóðinn. Áætluninni var lokað með lítilsháttar rekstrarafgangi en niðurstöðutölur í þessu örsveitarfélagi voru um 85.500.000. Innan þessarrar upphæðar er samt gert ráð fyrir um
18.000.000 kr. nýframkvæmdum á árinu. Þessi góða staða byggist m.a. á því að skuldirnar eru engar og jarðeign var seld á hárréttum tíma. Og þar sem sveitamönnunum er nægjusemin í blóð borin, voru markaðsreikningarnir sniðgengnir við ávöxtun söluverðsins.

  Reyndar var ég spurður að því um daginn hvort jörðin hefði verið greidd með hlutabréfum í Kaupþingi og vitnað í heimildarmann fyrir þeirri fullyrðingu. Ég svaraði að sjálfsögðu með því.,að sá hlyti að hafa rétt fyrir sér , þar til annað sannaðist.

  Hvernig skyldi svo Ísland vera í dag, ef það hefði verið rekið með nægjusemi sveitamannsins?emoticon

10.12.2008 08:53

Útigangur og olíuþefarar.


 Helgin og það sem af er vikunni hefur snúist um hrossin.  Mánudagurinn fór í að keyra út úr stíunum  í Hestamiðstöðinni sem voru orðnar vel fullar. Hálmurinn/skíturinn er keyrður í safnhaug sem er látinn brjóta sig í 1-2 ár svo er honum ekið í akrana og plægður niður. Reyndar er hefð fyrir því víða í sveitum að slíkir haugar verða að hólum í landinu.

 Í gær var stóðið síðan rekið heim og skipt niður í gjafahólfin. Reyndar á eftir að taka tryppin úr merarhópnum. Nú er semsagt allt komið á gjöf.
       Bakkus, Funi, Hrímfaxi og Háfeti voru   orðnir langeygir eftir þjónustunni.

 Tittirnir sem eru hér upp frá, fengu fyrstu rúlluna sína í gær. Þessir skrautlegu, eru hugsanlega falir ef menn, sem vanta gott reiðhestefni eða e.h. skrautlegt í ræktunina, hitta Einar í prúttstuði.



   Það er svo ekkert vandamál að láta Funa sýna réttu hollninguna ef því er að skipta.

Og rollurnar sem hafa haldið sig uppí klettum í haust og verið látnar óáreittar að mestu ákváðu allt í einu að nú væri nóg komið, og  fyrst Þorleifur sótti þær ekki væri best að koma sér sjálfar til byggða.
.


  Skýringin gæti þó legið í því að lambið sem var talið vera með kúlur reyndist kúlulaust og til lítils gagns að sinna þörfum ánna á þessum árstíma.

 Á mánudeginu mættu svo í Dalsmynni opinberir embættismenn til að kanna hvort bændurnir ækju hér um allar sveitir á litaðri olíu. Ekki hefur liðið átt von á góðu því þau komu 4  á tveimur bílum sem sýnir að það er ekki kreppusparnaður í þessum málaflokki.

  Sem betur fer fyrir þau, var eldri bóndinn í skítakstri á næsta bæ, en hann getur átt það til að vera afspyrnuleiðinlegur við svona fólk, sem er nú bara að vinna vinnuna sína.
 Þau sluppu því við að vera rukkuð um húsleitarheimildir og dómsúrskurði fyrir því, að vaða í annarra manna bíla, enda yngri bóndinn annálað prúðmenni með engilhreina samvisku, allavega hvað litaða olíu varðar.

 Já, við munum því ganga lausir enn um sinn,  Dalsmynnisbændur.emoticon

 
Flettingar í dag: 1948
Gestir í dag: 212
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429927
Samtals gestir: 39727
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 10:36:38
clockhere