Færslur: 2008 Júlí

18.07.2008 21:57

Rúllur og rýgresi


  

              Rýgresið/byggið slegið með knosaravélinni og skáranir látnir liggja óhreyfðirog rúllaðir þannig þegar hæfilegu rakastigi er náð,eða þurrkinn þrýtur..


 
Já byggið/rýgresið var slegið á þriðjudagsmorguninn og verður trúlega rúllað á morgun. Þó ekki væri sáð nema hálfum skammti af byggfræi var það ríkjandi í akrinum og komið að skriði. Það verður spennandi að vita hvernig kúnum líst á það í vetur. Nú verður köfnunarefni borið á og rýgresið vonandi slegið aftur og síðan mun það væntanlega nýtast til haustbeitar.
 Það var lokið við að koma hrossaheyinu í plast í dag og nú bíða 309 rúllur heimflutnings. Þær eru í 3 stærðarflokkum, 100 cm. í þvermál(enda í Rvík hjá Jonna og Halldóru) 120 cm. sem verða notaðar á tamningastöðinni í vetur og 140 cm. í útiganginn.( Trippi og fylfullt. )  Heyskapurinn fyrir annan útigang er ólokið og bíður enn um sinn.

  Danirnir sem komu til mín í gærkveldi spurðu um refaveiðar og byggrækt. Síðan spannst mikil umræða um ullarvöxtinn á sauðfénu á Íslandi. Sumar væru mjög snögghærðar , sumar með mikla ull en skrítnastar væru þær sem væru snögghærðar fremst en með mikla ull aftast???

  Já , það getur svo ekki margt komið í veg fyrir það, að ég verði í hnakknum næstu tvo dagana.

 

 

17.07.2008 20:36

Nýræktin


                Við  grasfræsáninguna er gamla sáðvélin tekin fram. Hún er sérhönnuð til línræktar og er nærri helmingi styttra milli frærásanna á henni en hefðbundnu sáðvélunum   sem þýðir að akurinn lokast mun betur.                           


  Þegar ákveðið var að einbeita sér að mjólkurframleiðslunni lá fyrir að stórbæta þyrfti gróðufarið á túnunum. Það eru þessvegna teknir í endurræktun 4-8 ha. á ári. Þetta fellur vel að byggræktuninni. Við höfum síðan sáð minnkuðum skammti af byggi með grasfræinu þegar akrinum hefur verið lokað til að fá einhverja uppskeru sáningsárið.
   Það er hinsvegar dálítið lotterí, því hætta er á skemmdum í nýræktinni ef blautt er um á uppskerutímanum eða ef ekki næst að hreinsa burtu hálminn. Í vor tók síðan yngri bóndinn af skarið með það að framvegis yrði grasfræinu sáð einu og sér.  Gærdagurinn (fyrriparturinn)var því tekinn í að loka rúmum fimm ha. sem búið var að finisera til. Það var mikill munur á að vinna þetta núna eða  þegar flotið var um þetta í vor, ýmist á plógstrengjunum eða lýginni. Nýgresið á síðan að vera komið vel upp fyrir veturinn og skila góðri uppskeru næsta sumar.(Ef þetta kelur ekki allt saman.)

   Það á svo að reyna að ljúka plöstun á hrossaheyinu á morgun ef ekki verður of hvasst.

15.07.2008 23:30

Hey og hrossahey.


                                            Stund milli stríða.
   Það er bara notuð merkjavara þegar verið er að sýsla eitthvað í kringum hestamiðstöðina.
                                       ( Ferguson og Pöttinger).
  Í þetta sinn klikkuðu veðurfræðingarnir ekki og það var kominn blásandi þurrkur um hádegi.  Við feðgarnir vorum hinsvegar í allskonar slugsi framyfir miðjan dag en þá var líka tekið á því. Dótið tengt og farið að rífa niður . Áður en lauk lágu um 18 ha.  með  misúrsérsprottnu (flott orð) grasi. Ef verkunin tekst vel verða samt hrossabændurnir hæstánægðir, enda þurfa hrossin hvorki að framleiða mjólk eða búa sig undir  kjötframleiðslu í vetur. Vonandi þornar þetta svo hratt og vel, því þessu dæmi þarf að loka á fimmtudag ef guð lofar.( Amen.)

  Mér er svo alveg hætt að lítast á hvað þetta sumar þýtur áfram.


 
Flettingar í dag: 478
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414126
Samtals gestir: 37233
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:51:13
clockhere