Færslur: 2008 Júlí

27.07.2008 23:33

Bændareiðin.



  Það var lagt upp frá Miklholti um tvöleitið eftir þegnar veitingar þar. Við vorum tímalega fyrir fjöruna og menn slakir.
 Riðið var niður með Laxá í Stakkhamarsnes. Þaðan fjöruna vestur að Tröðum þar sem enn voru þegnar veitingar. Síðan var fjaran riðin til baka að Stakkhamri.




 Þetta voru um 100 manns sem allir komu heilir heim þrátt fyrir að nokkrir stigu af baki með öðrum hætti en ætlað var. Hér sést hluti hópsins staldra við meðan nælt er skeifu undir hana Kórinnu.



 Já, þetta er lífið og hreint ekki leiðinlegt.



        Á Stakkhamri beið okkar mikil veisla sem er eiginlega ólýsanleg.
Bændareiðin þetta árið var í boði hjónanna á Miðhrauni 1, Hrísdal og Vegamótum.
 Næsta ár kemur til kasta okkar syðst í sveitarfélaginu að gera eitthvað í málunum.
Þá reynir á breiðu bökin.

 Já og takk fyrir mig. (fleiri myndir í albúmi.)


25.07.2008 21:20

Hvolpabú og bændareið.

    Sestir að í sumarbústaðnum. Þeim leist vel á hálminn en fannst dálítið heitt í dag.

 
Það var skrópað í girðingarvinnunni eftir hádegi í dag og komið upp gerði fyrir hvolpana, þó þeir séu aðeins um mánaðargamlir. Það er strax orðinn blæbrigðamunur á þeim og verður gaman að spá í þá næsta mánuðinn.

 Og þetta verður annasöm/erfið helgi hjá mér, bændareiðin á morgun og brúðkaup á sunnudaginn. (Ekki ég). Þar sem bændareiðin endar á Stakkhamri geri ég svo ráð fyrir að seinni fjaran á sunnudeginum/kvöldinu verði síðan notuð til að koma hestaflotanum heim.

  Það eru bókaðir yfir 100 manns í bændareiðina og þar sem riðnir verða um 35 km. má ætla að verði tveir hestar á mann. Þarna verður því mikill floti á ferðinni og greitt farið milli stoppa, því reiðleiðin er aldeilis frábær. (Sjá lýsingu á reiðtúr síðustu helgar.)

 En það er ljóst að bændur verði í nokkrum minnihluta þarna.

24.07.2008 23:25

Skógrækt?



      Það eru fjölbreytilegt land sem lendir innan girðingarinnar. Holt, mýrarsund og fallegar brekkur sem vonandi sleppa við gróðursetningu.


     Dalsmynni sf. er með skógræktarsamning við Vesturlandsskóga og til að fullnusta hann þarf að girða af 20 ha. spildu ofan túns. Þessa dagana standa því yfir miklar girðingaframkvæmdir hjá okkur Höllu Sif. Girðingarstæðið er ekki upp á margar stjörnur, melar og mishæðir svo það verður góður dagur þegar síðasti staurinn verður kominn á sinn stað.
    Í dag byrjuðum við að draga út vírinn en þetta verður rafmagnsgirðing.

Veðrið í kvöld var svo alveg meiriháttar stafalogn og hlýtt. Mín heittelskaða gat ekki stillt sig um að koma og fylgjast með þegar ég var kominn með sláttuorfið í hendurnar að snyrta lautina, þar sem hvolparnir verða hafðir í seli næstu vikurnar. Trúlega hefur hún aldrei séð mig handleika sláttuorf fyrr.

   Nei, getur það annars verið??
Flettingar í dag: 1404
Gestir í dag: 141
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429383
Samtals gestir: 39656
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 04:16:59
clockhere