Færslur: 2008 Júlí

05.07.2008 14:31

Annar göngudagur. Eskifell-Múlaskáli.


Illikambur, ekki neitt skelfilegur svona á myndinni.

Menn vöknuðu bara hressir eftir nóttina í Eskifellsskála. Þetta er nýr skáli og ekki alveg tilbúinn en er mjög skemmtilegur. Þarna er verið að koma upp fínni aðstöðu, skemmtilegt tjaldsvæði. Rotþró komin á svæðið en ekki niður þannig að vatnsklósett er ekki heldur kamar. Það er upplifun út af fyrir sig. Eftir að hafa smurt dagsnesti og gert annan farangur kláran í rútu sem ætlaði að koma honum á Illakamb, var lagt af stað um 10 leytið. Veðrið frábært til göngu, sól öðru hvoru og aðeins gola. Það er greinilega gott að hafa veðurfræðing með í för. Gengið var meðfram Jökulsárgljúfri, leiðin heitir inn Kamba. Þarna var víða gengið í líparítskriðum og þeim oft bröttum. Stundum enduðu þær í klettum neðst í gljúfrinu og get ég alveg viðurkennt að hjartað barðist og hnén urðu svona einhvern vegin mjúk. Best var að horfa stíft á tærnar og passa sig að fara ekki að skoða útsýnið! Þarna fór líparítið að skarta öllum mögulegum og ómögulegum litum og það var oft freistandi að grípa stein og stein en minnug Illakambs lét ég það alveg vera. Það þurfti oft að stansa og taka myndir eða fá sér vatn og næringu þannig að meðalhraðinn var ekki mjög mikill.  Á einum stað skiptist hópurinn í djarfa hópinn og hinn. Ef lesendur rekast á fyrirsagnir á borð við:"Djarfar náttúrulífsmyndir" þá voru þær teknar þarna. Til frekari upplýsinga get ég sagt að þarna kom við sögu einstigi, klettar með skriðu og langt niður. Sem betur fer er ég ekki djörf kona og fór aðra leið. Klukkan var farin að nálgast 6 þegar komið var á Illakamb. Þar var rútan og líka fjallahúsbíll eldri þýskra hjóna. Ég hitti þau reyndar ekki en þau (sérstaklega konan) höfðu mikil áhrif á leiðsögumanninn okkar. Varð hún viðmið kvenlegs yndisþokka það sem eftir var. Þau ætluðu að skilja húsbílinn þarna eftir og fara með rútunni í Eskifell og labba svo sömu leið og við. Þau héldu reyndar að það væri svona 3 tíma labb. Nóg um það.  Nú þurfti að taka allan farangur og hlaða á göngumenn. Lambalæri, dósir, fernur, kartöflur, grillkol og allt annað, kælibox, töskur og pokar, þetta var mikil hrúga. Ég þurfti sem betur fer bara að halda á svefnpokanum, hitt fór á bakið. Dagpokinn á magann og stóri pokinn á bakið. Í hann var troðið rjóma og grænmeti eins og komst. Svo var lagt í hann. Stígurinn er ekki neitt voðalega mjór, klettar og krákustígar efst, þar skellti ég mér tvisvar á rassinn á slæmum stöðum og fór við það  rassinn úr buxunum. Neðar er svo löööööng, snarbrött skriða. Þetta væri ekki svo slæmt ef það væri ekki snarbratt niður, oftast beggja vegna, og klettar og Jökulsáin þegar neðar kemur.  En þetta hafðist allt. Þá tók við u.þ.b. 40 mín. gangur í Múlaskála. Stutt göngubrú er yfir ána og klettar beggja vegna. Búið er að setja kaðal niður að brúnni svo það er tiltölulega auðvelt að klöngrast þar. Brúin fannst mér ekki spennandi þó stutt sé, riðaði öll til þegar komið var út á hana. Þarna eru 2 skálar, annar í eigu Gunnlaugs fararstjóra en hinn Ferðafélagsskáli. Hvor öðrum betri. Svo má ekki gleyma hreinlætisaðstöðunni, vatnssalerni og HEIT STURTA. Hún er hituð með gasi og kostaði 300 kr að bregða sér þangað. Þeim pening var vel varið. . Ég var reyndar peningalaus en leigði handklæðið mitt út og fékk sturtupening í staðinn. Katrín skálavörður veitti tæknilega ráðgjöf við að kveikja á sturtunni, en tæknin var stundum að stríða fólki og nokkrir fengu því kalda sturtu.  Eftir sturtu, kvöldverð og nokkra tappa af hjartastyrkjandi var haldin söngæfing og einnig var öllum úthlutað 3 mínúta skemmtikvóta fyrir kvöldvöku lokakvöldsins. Hófst mikið kvótabrask en þó þannig að menn vildu ólmir gefa og jafnvel borga með kvótanum sínum. Flestir voru komnir í pokana upp úr klukkan ellefu. Sif er svo séð að vera með eyrnatappa og heyrir ekkert þegar þeir eru komnir á sinn stað. Ég vaknaði öðru hvoru og heyrði þá hrotur í ýmsum útfærslum.

Ég var bara mjög ánægð með sjálfa mig eftir daginn, engar blöðrur eða verkir. Við Sif sáum hins vegar fram á miklar birgðir af mat sem við þyrftum að bera upp Illakamb ef okkur tækist ekki að borða meira. Og þó svo að einhverjum sem til þekkja þyki það ótrúlegt, þá tókst okkur ekki einu sinni að klára dagskammtinn af súkkulaði, þá er nú fokið í flest skjól. Þetta var annars frábær dagur, veðrið eins og best var á kosið og hrikaleg gljúfrin og litirnir engu líkt.

04.07.2008 22:46

Þjónustan í lagi.



             Þessir eru næstum nákvæmlega eins og pöntunin hljóðaði upp á í útliti.
                                          Svo er það innrætið???


     Síðast þegar Dalsmynni sf. fjárfesti í dráttarvél var sest niður með Finnboga og merkt við hvaða aukabúnaður ætti að vera í græjunni, enda pöntuð með 6.mán. fyrirvara. Finnarnir klikkuðu svo á einu þungaviktaratriði, sem þeim verður seint fyrirgefið.
    Þegar pantaður var hjá mér hvolpur í nóv.s.l. sem átti að vera afmælisgjöf til eiginmannsins var farið nákvæmlega yfir óskalitinn, ásamt því hvernig væntanlegt dýr ætti svo að vera í fasi og framkomu.
 Þessir guttar hér að ofan eru ekki þrílitir en annars er útlitið samkvæmt ýtrustu óskum kaupandans.
  Og þar sem ég hef að sjálfsögðu tröllatrú á gotinu, hef ég engar áhyggjur af því að þarna verði einhver vandamáladýr á ferðinni, enda stefnan ekki sett á nein ofurdýr.

  Loksins komst svo ró á veðurguðina og hægt var að koma áburðinum á túnin og viðbótinni á rýgresið, en sáðvélin er þeim annmarka háð að geta komið max 400 kg af áburði á ha. með fræinu. Nú er bara beðið eftir rigningunni sem kemur alveg örugglega einhverntíma.

 Ætli verði svo ekki kíkt á alvöruhross á landsmóti á morgun.

 

03.07.2008 14:56

Fyrsti göngudagur - Stafafell að Eskiskála.


Göngubrúin við Einstigi, 95 m löng, en traust.

.
Hvannagil, hér hófst litadýrðin.
Við vöknuðum eldsnemma, morgunmatur, smurt dagsnesti og allt gert klárt. Hópurinn mætti síðan allur í kirkjuna og fararstjórinn kynnti sig til leiks. Hann heitir Gunnlaugur, er frá Stafafelli og því öllu kunnugur. Hann sagði okkur sögu kirkjunnar og stiklaði aðeins á stóru um ferðina. Göngumenn kynntu sig, þetta voru 8 hjón, við Sif og fararstjóri, alls 19 manns og aldurinn frá 35 og upp í 60. flestir svona 50+. Smábreyting var á dagskránni. Í stað þess að gista 2 nætur í fyrri skálanum (við Eskifell) yrði bara ein nótt þar og þá 3 í Múlaskála. Það þýddi líka það að nestið yrði ekki farið að léttast eins mikið þegar farið yrði niður Illakamb. Sumir göngumanna litu skelfingu losnir hver á annan því það   höfðu ekki gert sér grein fyrir að ganga yrði  með allt á bakinu þann spölinn. Í ljós kom að nokkrir voru með kælibox og stórar töskur sem henta ekki mjög vel ef ganga þarf e-ð að ráði. Gunnlaugur fullvissaði alla um að þetta yrði ekkert mál og var svo sannfærandi að við tókum öll gleði okkar. Öllum farangri, bakpokum, kæliboxum, svefnpokum og sameiginlega matnum var staflað í rútuna sem myndi trússa það í Eskifell. Dagpokar settir á bakið og gangan hófst. Veðrið gott, sól, aðeins gola. Þarna var gengið um Austurskóga sem ná niður að ánni og þar hafa risið margir sumarbústaðir sem við sáum reyndar ekki nema í fjarlægð. Mér skilst að Öddi sem gædaði þá Svan og félaga í sleppitúrnum eigi einn slíkan þar. Í Hvannagili sáum við svo líparít í þessum ótrúlegu litbrigðum sem við áttum eftir að kynnast betur næstu daga. Við Sif vorum farnar að hafa örlitlar áhyggjur þegar komið var fram undir 12 og engin nestispása tekin enn. Bæði var það tilhugsunin um allt nestið sem við kæmumst ekki yfir að borða og líka vorum við komnar í þörf fyrir smá stopp. En það lagaðist og reyndar voru alla dagana tekin góð stopp, bæði til næringar og hvíldar og einnig til að taka myndir. Myndefnið þarna er heldur ekkert slor. Ég var ekki með myndavél, það var Sifjar deild. Þegar líða tók á daginn og göngumenn vildu fara að fá upplýsingar  um vega og tímalengdir í skála, kom í ljós að fararstjórinn er lítið fyrir tölulegar staðreyndir og átti það reyndar til að tala um "stærðfræðinga" með sérstökum tón  Hann taldi þó að það væru svona u.þ.b. 8 km eftir. Þegar gengið hafði verið í 2 tíma var annar sem spurði og þá  voru tæpir 8 km eftir. Hættu menn nú að spyrja um vegalengdir og vildu fá tíma. Þá var eftir hálftími að brúnni við Einstigi og þaðan hálftími að skála. Tóku menn gleði sína við þetta og örkuðu áfram og nú mest á eyrum Jökulsár. Eina smá sprænu þurfti að vaða, mjög hressandi fyrir þreytta fætur. Reyndar gerði IngiS sér lítið fyrir og gekk á vatninu eins og Jesús forðum. Eitthvað lengdist hálftíminn að  brúnni og við frekari eftirgrennslan sagðist Gunnlaugur miða við hópa með eðlilegan gönguhraða. Þetta sló að sjálfsögðu á allar frekari spurningar um tíma og vegalengdir. Reyndar vorum við svo heppin að Ingvar frá Grenivík, en hann og Inga kona hans voru unglingarnir í hópnum, var með GPS tæki sem gaf okkur allar þær tölulegu staðreyndir sem þörf var á. Loks var komið að brúnni, sem er glæsileg 95 m hengibrú og það traustleg að meira að segja ég gekk óttalaus yfir. Reyndar var þessi fyrsti dagur ekki slæmur hvað lofthræðslu snerti. Í skála var komið um 7 og samkvæmt GPS höfðu þá verið gengnir 18 km. Við látum meðalhraða liggja milli hluta. Rútan beið okkar þar með allan farangur.  Reyndar þurfti að koma bíll úr byggð til að gefa henni start seinna um kvöldið. Gunnlaugur galdraði fram humarsúpu sem sló allar aðrar út og brauð og salat fylgdi með.  Það voru reyndar allir komnir meða matarást á honum þegar gönguferðinni  lauk, jafnvel hörðustu grænmetisætur áttu það til að smakka kjöt. Meira um það seinna. Menn fóru svo snemma í svefnpokann enda flestir orðnir þreyttir.
Flettingar í dag: 409
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414057
Samtals gestir: 37230
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 12:37:28
clockhere