Færslur: 2008 Mars

13.03.2008 19:44

Rebbabúð.

 Ég var kominn upp í Rebbabúð kl 21.35  byrjaði á að opna skotlúguna og gera riffilinn kláran og fór síðan að koma mér fyrir. Rebbabúð er aðalskothúsið mitt um 1.4 m.X 2 m. að innanmáli, einangrað í hólf og gólf og þótti mikill lúxus þegar hún komst í  gagnið. Hún er staðsett rétt innan fjallgirðingarinnar hér ofan við bæinn í um 700 m. fjarlægð. Refaætið er utan girðingarinnar(sem er að vísu í kafi) í um 60 m. fjarlægð. Þarna hafa yfirleitt verið að ganga í ætið 1- 3 dýr á nóttu  í þó nokkurn tíma. Grundvallarreglan hjá mér er sú að nota tunglsljósið í vetrarveiðinni en ef illa viðrar hef ég haft kastara heima við bæinn  til að bæta birtuna þarna, en nota náttúrulegu birtuna á öðrum stöðum. Samkvæmt spánni átti að vera na.átt og bjartviðri sem er  það veður sem ég vil liggja við í vetrarveiðinni. Þetta gekk náttúrulega ekki eftir því um 11 leytið fór að ganga á með éljum sem urðu næstum samfelld á tímabili. Í minnstu snjókomu eða skafrenningi dettur ljós alveg út þó skemmri vegalengd sé(eins og einhverjar vegaljósaskyttur eru búnar að átta sig á) og sá ég þá ekkert frá mér.
 Um miðja nóttina sást mórautt dýr álengdar en það var ekki á leið í ætið og gaf ekki færi á sér. Það var síðan um kl  5 sem hvítt dýr kom í vindáttina að ætinu. Það sást mjög illa í snjónum, nema á hreyfingu og auðvitað kom langt él rétt þegar ég hafði komið auga á það. Það sást ekki meira enda ákveðið að slútta þessu og leggja sig í klukkutíma fyrir mjaltirnar. Þó að trúi því enginn var ég bara nokkuð sáttur við nóttina enda vanur maður á ferð hvað aflabrögðin varðaði, eftir að hafa stundað vetrarveiði í yfir 20 ár. Ég reyni ekki einu sinni að hugga mig með því að gangi betur næst.

12.03.2008 00:14

Ræðan sem ekki var flutt.

 Ég komst ekki á bændafundinn í dag eins og ég hafði ætlað mér og það var ágætt.
 Fyrir allnokkrum árum ákvað ég það að hætta afskiftum af bændapólitíkinni og snúa mér að öðrum og skemmtilegri viðfangsefnum. Ég hef nú staðið ágætlega við það en hefði ekki staðist það núna að nöldra eitthvað kominn á staðinn. Þegar ég byrjaði að mæta á bændafundina fyrir 30 árum + fannst mér afspyrnuleiðinlegt að hlusta á gömlu bændurna taka forustuna í nefið fyrir slælega frammistöðu sem var enn ómaklegra þá heldur en nú. Á þessum árum var gósentíð í sveitinni og menn framleiddu eins og þeir mögulega gátu.Ríkið borgaði síðan bændunum fullt verð fyrir framleiðsluna og það sem landinn gat ekki torgað, var svo flutt út fyrir afar lágt verð svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mér þótti það ótrúlegt þá og enn ótrúlegra nú að níutíu og eitthvað % bænda trúðu því afdráttarlaust að svona yrði þetta um ókomna tíð og þó að helmingurinn af dilkakjötinu væri fluttur út nánast verðlaus var það sjálfsagður hlutur.
  Umræðan um blessaðan kúastofninn okkar minnir mig óþyrmilega á þessa gömlu góðu daga og þó nú séu ekki níutíu og eitthvað  % sanntrúaðir á botnlausar fjárveitingar, þá eru ótrúlega hátt hlutfall kúabænda (meira að segja ungt og velmenntað fólk)sem trúa því að íslenska þjóðin sé tilbúin að borga tugi % ofan á eðlilegt mjólkurverð vegna óhagkvæms kúakyns um ókomna tíð. En litirnir á kúnum ,þeir eru fjölbreytilegir sei,sei já!

 Og guð hjálpi mér svo þegar mín heittelskaða les þetta í fyrramáli.

10.03.2008 23:08

Bara nokkuð góður dagur.


 Þrátt fyrir mikið annríki var þetta virkilega góður dagur og veðrið hreinlega gat ekki verið betra.(Miðað við árstíma). Morgunverkin gengu vel ,engin kýr í meðferð eða vandamál í gangi(umfram þau sem fylgja ahum hérna ..........) Fram á hádegið var síðan unnið við að rífa upp og slétta gólfið í reiðskemmunni með þar til gerðri græju sem fengin var að láni og sett aftan í gamla Dautsinn minn sem er öllu liprari við þetta en ofurtækin hans Einars. Það var síðan brasað í byggi og sekkjuð og afhent 3 tonn af þessari eðalvöru eftir að Kolviðarnesbóndinn hafði valsað hálft síló(um 10 t.). Ekki má svo gleyma hundatamningunum sem nú eru stundað hvern daginn á fætur öðrum og ganga ótrúlega hávaðalítið fyrir sig. Eina sem skyggir á gleði mína þessa dagana eru endurvaktar áhyggjur af túnum sem aftur eru komin undir klaka og að ekkert gengur með þessa 8- 10 refi sem eru á dauðalistanum hjá mér og eiga að nást næstu 2 mán eða svo. Nú er vaxandi tungl og ef með þvi færi norðanátt gæti kannski einhverjum þeirra orðið hætta búin. Reyndar er áratuga reynsla fyrir því að í rebbaveiðinni gengur aldrei allt upp. En maður vonar alltaf!!
Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418937
Samtals gestir: 38068
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 22:35:01
clockhere