Færslur: 2008 Mars

17.03.2008 22:58

Taðmokstur og konudagur.

  Það var skipt liði í morgun. Húsmóðirin brá sér í bæinn ásamt dætrunum báðum ,dótturdóttir og tengdadóttur. Þó furðulegt megi telja var ekki aðalásetningur ferðarinnar að strauja kortin heldur var þetta svona" konudagur". Ég vonaði svo að Kolbrún yrði nógu fljót að átta sig á veiklyndi kvennanna ef þær ættu nú leið um einhverja álitlega dótabúð eða annað áhugavert.
  Ég var hinsvegar heima að moka skít. Það verður að viðurkennast að ég var hæstánægður með þessa verkaskiptingu því ef eitthvað er leiðinlegra en að fara í bæinn, er það að fara í bæinn í eitthvað búðaráp.
 Já það var verið að moka undan fénu sem er á taði/hálmi og kálfunum(minnstu) sem ganga á hálmi. Sjefferinn í Söðulsholti var notaður í verkið ,mokað á sturtuvagn og búnir til haugar niður á eyrum . Líklegt er að hækkandi áburðarverð verði til þess að haugarnir endi í ökrum og á túnum í stað þess að breytast í hóla í landslaginu með tíð og tíma. Sjefferinn er mikið snildartæki og ótrúlegt hvernig er hægt að læðast fyrir horn á honum. Eitt af þessum nauðsynlegum tækjum sem allir bændur ættu að eiga í dótahúsinu sínu. Ég náði samt ekki að klára í dag en þetta verður búið fyrir hádegi á morgun. Atli komst svo með torfærutröllið út í smá prufu í dag. Hann brosti hringinn og gerir það trúlega enn. Það eru samt nokkur handtök eftir áður en hringurinn um Skyrtunnuna verður tekinn. Dagurinn endaði svo með fundi í Borgó þar sem farið var yfir hugsanleg rekstrarform á Laugargerðisskóla sem er rekinn í samstarfi Borgarbyggðar og  Eyja og Miklaholtshrepps. Jávæður og fínn fundur.
 

15.03.2008 23:35

Skjákortin.

 Já tölvuræfillinn konunnar minnar er með afbrigðum seinvirkur og erfiður þessa dagana og skjákortið hefur verið úrskurðað svo gott sem ónýtt. Búið er að fjárfesta í nýju og ekkert eftir nema koma því í. Ég velti því nú aðeins fyrir mér hvað sé að hjá mér þegar ég er altekinn þessum kvillum en kemst ekkert áfram í þeim vangaveltum. Það er allavega ekki eins einfalt mál og þetta með skjákortið. Nú líður hratt á veturinn og full þörf á að bóndinn taki sig á með tölvunni(með nýja skjákortinu) og fari að gera eitthvað annað en leika sér með hundana alla daga. Rétt að taka morgundaginn í að skipuleggja virku dagana í næstu viku. Fyrsta fermingarveislumætingin er svo á morgun sem er mjög ákveðin vísbending um endalok vetrarins.  Og það var verið að velta því fyrir sér við kvöldverðarborðið í gærkveldi hvað það kostaði þjóðarbúið að  láta háttvirtan utanríkisráðherra fá "tilfinningu" fyrir ástandinu í Afghanistan. Fimm sérsveitarmenn frá Birni búnir að vera í viku að kanna aðstæður og svo nauðsynlegt fylgdarlið o.sv.frv. Ekki von að fáfróður sveitamaðurinn nái upp í þetta.

15.03.2008 00:10

Afadagur.

 Um leið og ég kom inn úr fjósinu byrjaði ég á að fela snjóþotu dótturdótturinnar minnugur þess hvernig fór fyrir viku. Ég var líka eldsnöggur að fá mér kaffið og fara í fljótheitum yfir blöðin  í tölvunni enda stóðst það á endum að Vísir.is var upplesinn þegar uppáhalds afastelpan birtist(sú eina). Hún tekur daglegum framförum í þekkingu sinni á lífinu og tilverunni og  þegar við erum hér tvö í notalegheitum er hún fljót til svara aðspurð um það hver sé nú langbestur? Þegar mamman er viðstödd er niðurstaðan reyndar aðeins önnur. Og þar sem veðrið var fínt  ákváðum við að fara með ruslið á fjórhjólinu og tékka á rebbaslóðum í framhaldinu.Þegar því var lokið kom í ljós að það var skynsamleg fyrirhyggja að láta snjóþotuna hverfa, því litla manneskjan leitaði  um allt með einbeittum svip sem benti til þess að litið væri á það sem sjálfsagðan hlut, að afinn þendi sig út um allar koppagrundir með snjóþotu í eftirdragi.   Miðað við það hversu mikið skýrleiksbarn er þarna á ferðinni, áttar hún sig vonandi fljótt á því að mamman og amman standa fyrir fornaldargræjum eins og ferðlitlum snjóþotum meðan afinn ( sem er l.........) er allur í tækninni og alvörudótinu.
 En þetta tekur allt sinn tíma!
Flettingar í dag: 809
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414457
Samtals gestir: 37248
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 18:24:40
clockhere