13.03.2008 19:44

Rebbabúð.

 Ég var kominn upp í Rebbabúð kl 21.35  byrjaði á að opna skotlúguna og gera riffilinn kláran og fór síðan að koma mér fyrir. Rebbabúð er aðalskothúsið mitt um 1.4 m.X 2 m. að innanmáli, einangrað í hólf og gólf og þótti mikill lúxus þegar hún komst í  gagnið. Hún er staðsett rétt innan fjallgirðingarinnar hér ofan við bæinn í um 700 m. fjarlægð. Refaætið er utan girðingarinnar(sem er að vísu í kafi) í um 60 m. fjarlægð. Þarna hafa yfirleitt verið að ganga í ætið 1- 3 dýr á nóttu  í þó nokkurn tíma. Grundvallarreglan hjá mér er sú að nota tunglsljósið í vetrarveiðinni en ef illa viðrar hef ég haft kastara heima við bæinn  til að bæta birtuna þarna, en nota náttúrulegu birtuna á öðrum stöðum. Samkvæmt spánni átti að vera na.átt og bjartviðri sem er  það veður sem ég vil liggja við í vetrarveiðinni. Þetta gekk náttúrulega ekki eftir því um 11 leytið fór að ganga á með éljum sem urðu næstum samfelld á tímabili. Í minnstu snjókomu eða skafrenningi dettur ljós alveg út þó skemmri vegalengd sé(eins og einhverjar vegaljósaskyttur eru búnar að átta sig á) og sá ég þá ekkert frá mér.
 Um miðja nóttina sást mórautt dýr álengdar en það var ekki á leið í ætið og gaf ekki færi á sér. Það var síðan um kl  5 sem hvítt dýr kom í vindáttina að ætinu. Það sást mjög illa í snjónum, nema á hreyfingu og auðvitað kom langt él rétt þegar ég hafði komið auga á það. Það sást ekki meira enda ákveðið að slútta þessu og leggja sig í klukkutíma fyrir mjaltirnar. Þó að trúi því enginn var ég bara nokkuð sáttur við nóttina enda vanur maður á ferð hvað aflabrögðin varðaði, eftir að hafa stundað vetrarveiði í yfir 20 ár. Ég reyni ekki einu sinni að hugga mig með því að gangi betur næst.
Flettingar í dag: 1087
Gestir í dag: 119
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429066
Samtals gestir: 39634
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 01:56:29
clockhere