Færslur: 2008 Mars

09.03.2008 23:02

Tryppareksturinn.

  Einu sinni í viku hefur megnið af hrossunum í hestamiðstöðinni verið drifið í  svokallaðan " trypparekstur"´síðan á áramótum. Hrossin eru rekin u.þ. b. 4 km hring   og hefur þessi hringur verið misjafnlega greiðfær í vetur. Ýmist eru haldið utan um hópinn með fjórhjólum eða sleðum eftir færðinni.Nú er þetta komið í fast form og fyrirhafnarlítið að fylgja hópnum. Hrossin ráða ferðahraðanum alfarið sjálf og halda rekstrarmenn sig í nokkur hundruð m. fjarlægð frá hópnum til þess eins að halda honum í brautinni. Fyrsta 1.5 km er hópurinn á fullri ferð og bregða sum hrossin sér jafnvel á leik ef færðin er góð. Síðan fer hópurinn að lesta sig og hlaupaglöðustu hrossin taka forystuna. Það er alltaf sömu hrossin sem leiða hópinn og skiptast gjarnan 2- 3 á um forystuna. Eins eru það sömu hrossin sem reka lestina og þó ekki sé verið að ýta á eftir þeim reyna þau að fylgja hópnum. Þetta er alveg sama munstrið og maður sér í hestaferðunum. Ég ætla ekki að segja Auðun hvaða hross leiddi hópinn síðast.
 Einhverra hluta vegna var ætlast til að ég aðstoðaði við fyrsta reksturinn og hafði ég ríkan skilning á því ferðavanur maðurinn. Þrátt fyrir að vera oftar en ekki í forreiðinni þá gerum við Auðun okkur ákaflega vel grein fyrir orsökum þess þegar eftirreiðin er búin að missa allt út  í loftið fyrir tómt klúður og höfum gjarnan um það mörg orð meðan við bíðum þess rólegir að félagar okkar flengriðu um fjöll og firnindi að ná rekstrinum  saman á ný. En svo við höldum okkur við tryppareksturinn þá hafa málin þróast þannig að nú er bara hringt í mig og mér sagt að reksturinn verði klukkan þetta eða hitt. Þegar ég stóð svo frammi fyrir því í síðasta rekstri að ég færi einn með hópinn fór ég að velta fyrir mér hvort ég hefði verið plataður einhversstaðar í ferlinu.

07.03.2008 23:19

Nautaat og erfiður afadagur.

   Yngri bóndinn leit inn um leið og hann lagði af stað  Borgó til að fræða mig á því að kálfahópur væri sloppinn útúr gamla fjósinu og hann yrði að vera kominn í Nesið innan 31 mínútu. Það var afadagur í dag og við Kolbrún Katla rétt búin að koma okkur fyrir  í sófanum með bunka af gagnmerkum bókmenntum til skoðunar.
 Skýringin á kálfaútrásinni var sú að gleymst hafi að loka stíu við tilfærslu á grip um morguninn og opið inn í hlöðu og síðan út, enda bongóblíða í sveitinni. Eins og allir vita sem lent hafa í því að koma dýróðum kálfum inní hús voru þetta váleg tíðindi og allur bókmenntaáhugi rokinn út í veður og vind. Eftir að hafa fengið sér bleksterkt kaffi og horft á kálfana leika sér umhverfis útihúsin í smástund klæddum við (ég )  okkur Kötlu í gallana.
 Ég horfði lengi á hundaflotann á bænum og afréð síðan að láta Vask duga í fyrstu tilraun. Eins og allir vita sem komið hafa nálægt því að reka inn búpening verða allir almennilegir bændur að umskiptingum við það og fljótir að finna sökudólgana ef illa gengur. Ég taldi því rétt að hafa Vask einan, vitandi það að hann er öllu vanur og heyrir illa þegar húsbóndinn fer að hækka röddina. Við Katla ákváðum síðan að fara á fjórhjólinu áleiðis til öryggis því afinn með afbrigðum latur að hlaupa ekki síst með dótturdóttirina á handleggnum. Þegar við nálguðumst hópinn sem samanstóð af kvígum eins til tveggja ára  leit ég rannsakandi eftir einkennum þess hvort þarna væru einhver kexrugluð með.
 Mér sýndist a.m.k ein hafa sama augnaráð og margreyndur forsetaframbjóðandi og þótti það verra. Eftir að hafa horfst í augu smástund tók hjörðin sprett uppfyrir hús og var Vaskur umsvifalaust sendur á eftir. Um suma hluti þurfum við Vaskur ekki að hafa mörg orð og var hann fljótur að átta sig á því að nú var allt leyfilegt. Kvígan sem hjólaði í hann var líka fljót að átta sig á hlutunum. Þegar hópurinn kom að húsinu aftur var sú með frambjóðendaaugnaráðið sem betur fer inní hópnum og þegar sú fyrsta skellti sér inní hlöðuna var málið dautt. Þegar þessu var lokið og ég renndi hjólinu ínn í bílskúrinn/hundahúsið feginn málalokum rak sú litla upp mikið gleðióp. Hún hafði komið auga á snjóþotuna sína en einhverjar misvitrar konur höfðu komið henni upp á það að draga hana fram og aftur um landareignina á henni. Já ég fékk svo að svitna eftir allt saman.

06.03.2008 23:06

Gegningar.

  Það er þægilegt að  koma heyinu í kýrnar. Keyrðar eru inn 4 heyrúllur, fjarlægt af þeim plast og net  og þeim raðað saman á endunum í fóðurganginn. Þetta er endurtekið á ca. 3 þriggja daga fresti. Gallinn við þetta er sá að við viljum að skammturinn sé kláraður og afganginum sópað út fyrir næsta skammt. Það getur þess vegna þurft að gefa á sunnudagsmorgni,Laugardagskvöldi eða guð má vita hvenær. Í kvöld var farið um 10 leytið og gefið., en þrátt fyrir þennan annmarka  finnst mér þetta fyrirkomulag meiriháttar lúxus. Reyndar á misjafn gjafatími líka við hjá fénu.
 Og veðrið var ekki skemmtilegt í dag ,rigningarslydda en þó stytti upp um fimmleytið og í kvöld var það orðið virkilega fínt. Heimsóknin sem ég fékk frá SS var fín og það eru breyttir tímar frá því að þurfa að bíða í marga mánuði eftir að losna við gripi í slátrun og þess að nú eru vikulegar ferðir eftir gripum í héraðið bæði frá Hvammstanga og Selfossi. Hagkvæmnin er svo annað mál. Ég gat ekki stillt mig um að upplýsa þá um að Hvammstangabíllinn hefði nú komið við hjá mér í dag að sækja grip og smákálfa.
Flettingar í dag: 270
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403484
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 14:58:40
clockhere