Færslur: 2008 Febrúar

11.02.2008 22:24

Sleppitúrinn.

 Þessa síðustu og verstu daga fer maður að skilja hvað liggur á bak við orðtakið að þreyja Þorrann og  Góuna. Ég er ábyggilega ekki einn um það að láta mig dreyma um betri tíð með blóm í haga í svona tíðarfari. Það kom sér því vel að fá dagskipunina í Sleppitúrnum þetta árið, í hendurna á dögunum. Sleppitúrinn var upphaflega til hjá sveitunga mínum  sem hélt hross í bænum og gerði síðan góðan túr um leið og hann kom þeim í sveitina. Á einhverju stigi málsins var mér þvælt með í einn túrinn og hef ég náttúrulega verið ómissandi þar síðan. Þó þessar ferðir séu nú farnar að liggja í allar áttir aðrar en vestur, kallast þær sleppitúrar eftir sem áður og eru alltaf farnar fyrripart júnímánaðar. Þar sem ég þarf að sinna grenjavinnslu geta þarna orðið hagsmunaárekstrar en engin tjón hafa þó orðið af þeim enn sem komið er. Aðalsprautan í þessum ferðum eyddi nokkrum sumrum í það að ríða hringinn í kringum landið í ákveðnum áföngum hvert sumar. Þó hann sé farinn að eldast og minninu að förlast vissi hann alltaf af því að einn áfangi var eftir til að loka hringnum. Nú á sem sagt að nota Sleppitúrinn til að loka hringnum og er varla hægt að hugsa sér fjarlægari notkun á þessu ágæta orði.
 Þessi síðasti spotti er nefninlega frá Svínhóli í Lóni , vestur yfir Skeiðarársand.
 Stefnt er að þessari ferð 5- 11 júní og þegar maður hugsar til hennar og grenjavinnslunnar í framhaldinu er Þorrinn bara aukaatriði sem líður hjá áður en við vitum af. Ojá það liggur svo fyrir að fara og moka snjó allan morgundaginn.

10.02.2008 21:38

Hundanámskeiðið


 Þetta var magnað námskeið og þegar ég sá Colin á skyrtunni með uppbrettar ermar og með Border Collie bindið að sjálfsögðu, hlaupa um reiðhöllina rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hitti hann síðast . Þá vorum við í n.a.éljaþræsingi að temja hunda úti á túni.
 Ég mætti með 4 hunda til álitsgjafar. Einn töluvert taminn og þrjá ótamda. Það fór sem mig grunaði að hann kvað uppúr með að einn þeirra væri ekki þess virði að eyða tíma í hann. Það er alltaf hundfúlt að segja eigendum vonlauss hvolps að það sé ekki á mínu færi að gera eitthvað úr honum. Þó það væri vont núna var það þó betra með annað álit á bak við sig. Ég held því oft fram að 30 % B.C hérlendis séu drasl. Bakvið það liggja engar vísindarlegar rannsóknir enda sett fram til að vekja athygli á að Border Collie og Border Collie geta verið tveir gjörólíkir hundar bæði í útliti og innræti.
 Síðan var ég með tvær tíkur, Snilld frá Dýrfinnustöðum og Þrá frá Daðastöðum. Þrá mætti á námskeiðið í morgun og var skilin eftir hjá mér en ég hafði aldrei séð hana fyrr. Eftir að hafa tekið 15- 20 mín göngutúr um hús og hlöð, með henni í rólegheitum var farið með hana í kindurnar. Þrá er undan Soffíu og Dan á Daðastöðum en Gunnar flutti Dan inn fyrir um rúmu ári síðan. Eftir að hún hafði tekið fyrstu aríuna tók Colin við og ég hef aldrei séð hvolp læra jafnmikið á nokkrum mín. og þarna. Semsagt fínt efni á ferðinni og verður væntanlega mjög auðveld og þjál í tamningu.. Sama má segja um Snilld og gott  ef það eru að koma inn auðtemjanlegir hvolpar sem eru efni í alvöru fjárhunda því nóg er til af ofvirkum taugahrúgum sem eru svo heyrnaskertir þegar mikið liggur við..
 Nú þurfa þessir öskudagsbræður að fara að skila sér svo eitthvað sé hægt að gera í málunum. 

09.02.2008 20:45

Meðalmennska og metaregn.

 Mér þótti athyglisvert að lesa viðtal við framleiðslumethafa í mjólkurframleiðslu 2007,
hjónin í Lyngbrekku í Dölum. Þrátt fyrir góðan árangur skipa þau sér hiklaust í minnihlutahópinn sem vill athuga með innflutning á öðru kúakyni. Þar sem ég er hallur undir rök meirihlutamanna eins og komið hefur fram, vil ég árétta það, að núverandi kynbótastefna og sameiginlegt markmið allra er að rækta blessaða landnámskúna í það form sem við sjáum á erlendum kynjum. Það að vilja gera það á 20 - 30 árum eins og minnihlutinn er að tala um  er ekki skynsamlegt og allir vita að flas er ekki til fagnaðar. Þessum ræktunarmarkmiðum má auðveldlega ná á 150 til 200 árum og þá er spennandi að vita að erlendu kynin eru náttúrulega komin ennþá lengra á undan okkur  enda tekur gott kynbótastarf aldrei endi.
 Hér í Dalsmynni er meðalmennskan í fyrirrúmi bæði með bústærð og nyt eftir árskúna. Það þýðir ekkert að hugsa um það, heldur hitt að sé miðað við mjólkurframleiðslu frá upphafi Íslandsbyggðar er nú hvert dagsframleiðslumetið  slegið á fætur öðru og er dagsframleiðslan nú um 850 l. og fer vaxandi.
 Það var svo verið á námskeiði í dag þar sem ofurtamningarmaður frá Wales reyndi að kenna okkur nokkrum að temja fjárhunda. Meira um það á morgun.
Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403249
Samtals gestir: 36640
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 02:11:24
clockhere