Færslur: 2008 Febrúar

23.02.2008 23:14

Blessaðir Öskudagsbræðurnir.

 Nú skila Öskudagsbræðurnir sér hver á fætur öðrum og það var alveg extra fín útgáfa í dag.Því miður komst ég ekki á árshátíð skólans  eins og ég hafði ætlað mér. Það var slæmt því þær eru undantekningarlaust skemmtilegar og svona einn af vorboðunum. Ég ætla samt að reyna að grafa upp myndir af krökkunum og setja í albúm fyrir þá sem vilja sjá hressa krakka. Um kaffileytið komst ég svo út með nokkrar kindur og náði að hreyfa 3 hunda. Það lítur ekki vel út með tamningarnar því nú líður hratt á veturinn. Enda er ég hættur að vera jákvæður við hundaeigendur sem halda að ég geti tamið hund. Gef í mesta lagi ádrátt um að kíkja á hann í nokkra daga ef guð og tíðin lofi. Asi minn er mættur í framhaldsnámið og er óskemmdur eftir dvölina hjá eigandanum. Frábær ræktun  ekki spurning. Maggi Lár er síðan með námskeiðí reiðmennsku niður í hestamiðstöð og þegar ég skutlaði Höllu Sif niður eftir með súpuna naut ég þess í botn að heyra hann skamma félagana fyrir ómögulega ásetu og bara nefndu það.
 Jafnframt þakki ég guði fyrir að hafa ekki tekið þátt,nóg til að brjóta mann niður samt.
 Það var svona refaslóðasnjór í dag og þrátt fyrir ömurlega umræðu  um þann málaflokk síðustu vikuna þá er kominn fiðringur í gikkfingurinn.

 

23.02.2008 00:01

Mjólka Í Hafnarfjörðinn.

 Nú liggur fyrir að Mjólka er að setja sig niður í Hafnarfirðinum . Lóðarumsóknin í Borgarnesi hefur verið dregin til baka og ég sem hafði vonað fyrir hönd vina minna á Austurbakkanum ( í víðtækri merkingu) að uppbyggingin yrði þar, finnst þetta vond málalok. Þar verður líka að hafa í huga að undirritaður stefnir að sameiningu Austur og Vesturbakka svo mér er málið skylt.( Mér skilst að þorrablótsnefnd Kolhreppinga stefni að sömu markmiðum).  Eftir  kaup á 40.000 l.framleiðslurétti á síðasta ári er áhugi á frekari kaupum í sögulegu lágmarki. Þar sem hinsvegar stefnir í umtalsverða umframframleiðslu á næsta/næstu árum verður það að viðurkennast að eldri bóndinn hefur svona aðeins fylgst með gengi Mjólku og snuðrað pínu um framtíðarhorfur.Það er langt síðan hann lærði það af sér fróðari mönnum að maður verður alltaf að hafa B leið ef A leiðin klikkar. Þrátt fyrir gífurlega námskeiðsfíkn tókst mér síðan  að standa af mér námskeiðstilboð helgarinnar, svo nú er að vita hvernig helginni verður varið?

 Og þið hin,gangið nú einu sinni á guðs vegum um helgina.
  

22.02.2008 00:30

Áburður og tilvonandi forsíðufrétt.

 Það var legið yfir áburðaráætluninni í gær og 5 mín. rágjöfin sem átti að kría gratís útúr Sigga varð að tveggja tíma vinnu. Þegar ég uppgötvaði að hverjar 10 mín. sem viðræðurnar lengdust um, hækkaði áætlunin um ca.100.000 kr. reyndi ég því að ljúka þessu með hraði.Það var hinsvegar of seint því hún endaði í...þori ekki að segja meira.

 Eftir morgunverkin héldu Dalsmynnisbændur síðan kaffifund þar sem ákveðið var hvaða tún skyldu tekin til endurræktunar. Aðalbóndinn var að vísu fjarverandi að vinna fyrir áburðinum. Ákveðið var að rækta bygg í 19 hö. og rýgresi í um 8 hö. . Taka upp til endurræktunar um 9 ha. Að þessum ákvörðunum teknum fór Atli að smíða bíl en Söðulsholtsbóndinn mætti á framhaldskaffifund. Nú lá fyrir að ganga frá fræpöntunum og láta reyna á hvaða yrki fengjust til sáningar ásamt frágangi á áburðarpöntun fyrir Einar. Gengið var frá grófri fræpöntun við Lífland sem yrði fínpússuð síðar en Yrkjar ehf. sjá um innkaup á fræi í þessa hundrað ha. í Eyjarhreppnum.

 Rétt um leið og Einar yfirgaf svæðið hringdi í mig blaðakona á Fréttablaðinu. Erindið var að fræðast um ljósaveiðar á ref og þar sem þetta kom algjörlega flatt upp á mig náði ég ekki að snúa mig útúr þessu og var farið nett yfir málið. Nokkru seinna hringdi hún aftur til að leyfa mér að ritskoða samtalið sem ég gerði. Eg lét í ljósi áhyggjur af því að trúlega yrði ég svo skotinn á færi í framhaldinu. Hún svaraði að bragði .Láttu mig þá vita . Þá kemstu á forsíðuna.
Flettingar í dag: 204
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412934
Samtals gestir: 37049
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 16:16:00
clockhere